Stjórnarskipunarlög

Mánudaginn 14. október 1996, kl. 18:04:18 (299)

1996-10-14 18:04:18# 121. lþ. 7.5 fundur 18. mál: #A stjórnarskipunarlög# (þjóðaratkvæðagreiðsla) frv., Flm. JóhS
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur

[18:04]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hefur farið fram um rétt fólks til þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er alveg ljóst og hefur komið fram í umræðum þeirra tveggja þingmanna sem hafa tekið hér þátt í umræðunni að ýmislegt brennur á þingmönnum að því er varðar breytingar á stjórnarskránni sem menn vilja að verði farið að ræða og hljóti þá ítarlega umfjöllun og a.m.k. efnislega umfjöllun í nefnd. Mér finnst að tekið sé undir orð mín sem ég beindi til forseta að hann gerði sitt til þess að þessi sérlaga nefnd yrði ekki algjörlega óvirk þegar málum væri vísað til hennar. Síðan kemur upp spurning eins og síðasti hv. ræðumaður benti á hvort almennur vilji sé fyrir því með aðild allra þingflokka að fara í stærri og viðameiri endurskoðun á stjórnarskránni þar sem allar þær tillögur sem fram hafa komið verði teknar til skoðunar. Þetta er spurning um málsmeðferð.

Margt athyglisvert kom fram í ræðu hv. þm. Svavars Gestssonar og reyndar síðasta þingmanns líka og ljóst að þau hafa bæði velt fyrir sér ýmsum atriðum að því er varðar stjórnarskrárbreytingar. Ég tek undir það líka eins og síðasti ræðumaður gerði að þegar maður fer að velta því fyrir sér þá er núverandi tilhögun mjög óeðlileg, þ.e. að framkvæmdarvaldið kalli saman þing og slíti því. Það er full ástæða til að gefa þessu gaum og skoða breytingar á því.

Virðulegi forseti. Hv. þm. Svavar Gestsson var ekki sammála mér um að málskotsrétturinn væri óvirkur. Ég vísaði til reynslunnar og færði fyrir því rök sem ég hélt sjálf fram og rök sem fræðimenn, sem hafa skoðað þetta, hafa haldið fram um að þetta ákvæði sé óvirkt enda hefur því aldrei verið beitt. Menn þekkja raunverulega ekki hverjar afleiðingar væru af því ef ákvæðinu yrði beitt. Því hefur verið haldið fram, sem ég get alveg tekið undir, að það gæti hugsanlega leitt til afsagnar forseta Íslands eða afsagnar viðkomandi ríkisstjórnar eftir því hvernig þjóðaratkvæðagreiðslan færi. Ég held að það sé alveg ljóst að tekist yrði á um þessi sjónarmið forseta Íslands og ríkisstjórnar í aðdraganda slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu sem færi þannig fram að raunverulega yrði forsetanum og ríkisstjórninni stillt upp sem andstæðingum í því deilumáli sem þar væri uppi. Það er því ekki auðvelt fyrir forseta Íslands að beita þessu ákvæði. Þess vegna tel ég mikilvægt að hafa hvort tveggja til staðar, það ákvæði sem fyrir er þar sem forseti getur sjálfur synjað um staðfestingu á lagafrv. og eins það sem að þarf ekki atbeina forsetans til þannig að þriðjungur þjóðarinnar eða atkvæðisbærra manna gæti farið fram á slíkt. Ég held að það mundi vera mjög til bóta ef slík leið væri farin.

Mér fannst mjög athyglisvert sjónarmið koma fram hjá hv. þm. Svavari Gestssyni, 8. þm. Reykv. Það er ný hlið á málinu, sem hann velti upp, ef einhvern tímann kæmi til þess að farið væri að ræða um af alvöru að leggja inn umsókn varðandi ESB að málið yrði fyrst tekið hér upp á þingi og tekin afstaða til þess áður en að haldið yrði til þeirra viðræðna eða umsögn lögð fram. Þetta er vissulega ný hlið á málinu en maður veltir því þó fyrir sér hvernig hún er framkvæmanleg og hvort þingmaðurinn á þá við það ef farið yrði af einhverri alvöru í þetta einhvern tímann síðar ef breytingar yrðu á stöðunni, t.d. í sjávarútvegsmálum, að þá yrðu greidd atkvæði hér um samningsmarkmiðið sem yrði lagt upp með. Hv. þm. skýrði það ekki nánar en þetta var athyglisverð hlið á málunum.

Ég tek undir með síðasta ræðumanni að skilin milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds eru mjög óljós og ég mun ræða það nánar þegar verður rætt um breytingar á þingsköpum. Það er hárrétt sem fram kom hjá hv. þm. að þingið þarf að taka þau mál til mjög alvarlegrar skoðunar og fara ítarlega ofan í saumana á því hvernig hægt er að skerpa þar skilin.

Varðandi endurskoðun á stjórnarskránni og ekki síst á kosningalögunum er það skoðun mín að Alþingi komist ekki hjá því á þessu kjörtímabili að taka á kosningalögunum og það er mál sem við þekkjum að eru mjög skiptar skoðanir um. Þingflokkur jafnaðarmanna hefur lagt fram tillögur sínar um útfærslu og leiðir í: ,,Landið eitt kjördæmi`` og sjálfsagt eru mjög skiptar skoðanir um það þannig að menn þurfa að fara að bretta upp ermarnar og skoða það mál og taka á því þannig að þetta brenni ekki inni á tíma þegar menn vilja setja einhverja alvöru í málið. Annars hefur skoðun mín verið sú að varðandi kosningalögin og kannski ýmis önnur atriði stjórnarskrárinnar hafi þingið, og reynslan sýnir okkur það, verið ófært um að taka skynsamlega á kosningalögunum vegna þess að þingmenn eru raunverulega að fjalla um eigin hagsmuni. Ég held að allir þingmenn muni það þegar gerð var breyting á kosningalögunum að þá voru menn að máta sig inn og út eftir þeim tillögum sem lágu fyrir hverju sinni og voru einungis sammála þeim tillögum þar sem öruggt var að þeir væru sjálfir inni. Það er mjög slæmt að málið skuli vera í þeirri stöðu og ég veit ekki hvort einhverrar breytingar er að vænta í því efni. Það er alveg nauðsynlegt að taka á málinu og þess vegna hef ég lagt fram, og gerði fyrir tveimur árum og mun væntanlega leggja fram á þingi aftur, að það verði sérstakt stjórnlagaþing sem fjalli um það mál þannig að þingmenn fjalli þar ekki um eigin hagsmuni.

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þær umræður sem hafa orðið og þær undirtektir sem ég hef fengið við málið.