1996-10-15 14:06:15# 121. lþ. 8.6 fundur 54. mál: #A fullgilding samnings um verndun víðförulla fiskstofna og stjórnun veiða úr þeim# þál., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[14:06]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég fagna því að þessi samningur er kominn inn á borð Alþingis og tel mjög mikilvægt að hann verði tekinn til gaumgæfilegrar umfjöllunar og athugunar við fyrsta tækifæri. Ef við ætlum að viðhalda orðspori okkar á alþjóðavettvangi sem ábyrg fiskveiðiþjóð í samfélagi þjóðanna, þá tel ég mikilvægt að við sýnum þessum samningi þá virðingu að taka afstöðu til hans sem fyrst og ég er þeirrar skoðunar að við eigum að fullgilda hann.

Í umræðunni um úthafsveiðar á Alþingi sl. vor og einnig núna á þessu þingi hef ég lagt áherslu á það að næsta skref löggjafarvaldsins á sviði úthafsveiðimála sé að taka afstöðu til þessa samnings, að það komi alveg skýrt fram hvort við ætlum að fullgilda hann eða ekki. Það mun síðar koma í ljós hvernig þessi samningur kemur inn á hagsmuni okkar Íslendinga. Þó að útfærsla landhelginnar í 200 mílur hafi fært okkur stórstækkaða efnahagslögsögu og mikil verðmæti, þá urðu veiðiheimildirnar samtímis takmarkaðar sem hefur boðið upp á mjög mikil átök um fiskveiðistjórnun.

Ísland hefur nú mjög blandaða hagsmuni gagnvart úthafsveiðum þar sem líta má á það bæði sem strandríki og sem úthafsveiðiríki. Þessi samningur mun væntanlega styrkja stöðu okkar sem strandríkis gagnvart t.d. veiðum á Reykjaneshryggnum, en hugsanlega veikja stöðu okkar fjær eins og t.d. í Barentshafi eða á Flæmska hattinum. Um það skal þó ekkert fullyrt að sinni, en við hljótum sem ábyrg fiskveiðiþjóð að taka undir það meginmarkmið samningsins að tryggja langtímaverndun og sjálfbæra nýtingu deilistofna og víðförulla fiskstofna með virkri framkvæmd viðeigandi ákvæða hafréttarsamningsins.

Ég tók einnig vel eftir þeirri setningu í greinargerðinni sem hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir vitnaði til áðan. Þessi setning sló mjög djúpa strengi, að nú sé svo komið að 70% fiskstofna í heiminum séu fullnýttir eða að hruni komnir samkvæmt upplýsingum frá FAO. Ég tek undir að það hefði vissulega verið æskilegra að þarna hefðu komið fram ítarlegri upplýsingar. En ég tel að þessi samningur fylgi áfram þeirri hefðbundnu meginreglu þjóðaréttar að veiðar á úthöfunum séu öllum ríkjum frjálsar.

Undanfarin ár hafa milliríkjadeilur verið mjög áberandi á þessu sviði og reynslan ein getur sýnt hvort þau átök minnka eða vaxa við það að þessi samningur kemst í gildi, ef hann kemst í gildi, sem ég vona svo sannarlega að verði.

Telja má eðlilegt að nú séu mjög mörg lönd í svipaðri stöðu og við, þ.e. löndin eru nú að safna dýrmætri veiðireynslu sem síðan verður notuð þegar til samninga kemur. Vonandi næst samstaða milli ríkja um þessi mál því það er til lítils að einstaka þjóðir virði reglur eins og t.d. við höfum gert í sambandi við Reykjaneshrygginn eða Norðmenn í Smugunni, reyndar hafa þeir verið með einhliða reglur þar. Það er til lítils að setja svona reglur ef aðrar þjóðir virða þær ekki. Því miður er ég ekki mjög bjartsýn á að þetta svið verði átakalítið á komandi árum, hvort sem þessi samningur kemst í gildi eða ekki, en markmið hans er gott og við Íslendingar höfum mikla hagsmuni að verja, nefnilega að tryggja að fiskveiðistofnarnir verði veiddir á sjálfbæran hátt.

Við kvennalistakonur styðjum því að Alþingi staðfesti þennan samning um leið og við vekjum athygli á að hann segir ekkert um það hverjir fái að veiða á úthöfunum og hverjir ekki. Um það er fjallað í frv. til laga um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, en þar er m.a. gert ráð fyrir að veiðar á úthafinu séu frjálsar, en verði þó að fá leyfi stjórnvalda eins og kveðið er á um í þessum samningi. Að flestu öðru leyti er úthafsveiðifrv. óháð þessum samningi þó að það skipti miklu máli að við gerð úthafsveiðilaganna verði ljóst í hvers konar þjóðréttarlegu umhverfi við verðum á næstu árum. Þess vegna tel ég mjög mikilvægt að fyrst sé tekin ákvörðun um það hvort þessi samningur verður staðfestur eða ekki og síðan verði farið út í að setja löggjöf um úthafsveiðar okkar Íslendinga.