1996-10-15 14:12:53# 121. lþ. 8.6 fundur 54. mál: #A fullgilding samnings um verndun víðförulla fiskstofna og stjórnun veiða úr þeim# þál., SighB
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[14:12]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Sú till. til þál. sem hér er til umræðu er um að Alþingi Íslendinga fullgildi samning um framkvæmd ákvæða hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna frá 10. desember 1982. Með öðrum orðum er þetta ákveðið ferli sem þarf að verða til þess að breytingar á gildandi alþjóðalögum öðlist gildi. Þangað til því ferli lýkur, hvenær svo sem það verður, þá eru ákvæði hafréttarsáttmálans frá 10. desember 1982 í gildi sem alþjóðalög. Með öðrum orðum eru í gildi þau alþjóðalög að veiðar skuli vera frjálsar á úthafinu.

Þessi þáltill. er flutt í því skyni að Íslendingar fallist fyrir sitt leyti á að staðfest verði að breytingar verði þar á. En þar til þær breytingar verða, hvenær svo sem það verður, þá eru í gildi þau alþjóðalög að veiði skuli vera frjáls á úthafinu. Það kemur fram að til þess að þessi nýju ákvæði hafréttarsáttmálans öðlist gildi þurfi í það minnsta 30 ríki að hafa staðfest hann. Ákveðið var að samningurinn lægi frammi til staðfestingar í eitt ár eða frá 4. desember árið 1995 fyrir tæpu einu ári síðan. Í umræðum á Alþingi nú fyrir helgina upplýsti sjútvrh. í svari til mín að þá var ekki vitað til að fleiri en þrjú ríki hefðu staðfest sáttmálann og það ár sem hann átti að liggja frammi til undirritunar er að líða þó út af fyrir sig segi það ekkert um að sáttmálinn öðlist ekki staðfestingu síðar. Þess vegna vildi ég gjarnan spyrja hæstv. utanrrh. hvort hann viti nokkuð nánar um þessi staðfestingarmál, hvort hann telji að nægilega mörg ríki muni hafa staðfest sáttmálann fyrir 4. desember 1996, sem rennur upp innan skamms, til þess að gera megi ráð fyrir því að þessi breyting á hafréttarsáttmálanum öðlist gildi sem alþjóðalög eða hvort ástæða sé til að ætla að gildandi alþjóðalög um frjálsar veiðar á úthafinu muni vera í gildi eitthvað áfram án þess að ég ætli að hæstv. utanrrh. geti svarað því hversu lengi.

[14:15]

Það er því mjög eðlilegt að menn ræði hér tengsl þessarar þáltill. annars vegar og frv. til laga um veiðar utan fiskveiðilögsögu Íslands hins vegar því það má segja að með því að flytja það frv. á undan þáltill. séu menn að beita kerrunni fyrir hestinn, þ.e. menn ætla fyrst að taka ákvörðun um það hvernig Íslendingar ætla að hegða sér áður en ný alþjóðalög um þessi efni ganga í gildi, fremur en að standa fyrst að gildistöku nýrra ákvæða um þessi efni og fylgja þeim síðan eftir með lagabreytingum á stjórnun fiskveiða utan fiskveiðilögsögu Íslands sem þetta samkomulag kallar á. Það skiptir vissulega miklu máli í hvaða röð menn stíga þetta skref því það segir á bls. 5 í lok greinargerðarinnar, með leyfi forseta, um úthafsveiðisamninginn:

,,Hitt er jafnljóst að hann mun ekki leysa sjálfkrafa hinar ýmsu deilur umveiðar á úthafinu sem sprottið hafa á undanförnum árum víðs vegar í heiminum, þar með taldar þær deilur sem Ísland er aðili að. Þar reynir fyrst og fremst á pólitískan vilja þeirra ríkja sem í hlut eiga hverju sinni.``

Það segir einnig á bls. 3 í greinargerðinni, með leyfi forseta, um sáttmálann: ,,... hins vegar inniheldur hann engar almennar viðmiðunarreglur um skiptingu kvóta milli einstakra ríkja. Hinum svæðisbundnu veiðistjórnarstofnunum er látið eftir að ákveða hvaða viðmið skuli lögð til grundvallar skiptingu kvóta milli aðildarríkja þeirra.``

Með öðrum orðum gerir sáttmálinn ráð fyrir því að hann sé svona almennur rammi um verndun deilistofna og víðförulla fiskstofna og stjórnun veiða úr þeim. En að hin einstöku aðildarríki að sáttmálanum og ríki sem hagsmuna eiga að gæta eigi síðan í kjölfarið að setja sér reglur um það hvernig þau ætla að framkvæma ákvæði þeirra breytinga á alþjóðalögum sem hér er verið að gera. Það er gert ráð fyrir því að þau hafi um það samráð sín á milli eftir á og þá er spurning fyrir okkur Íslendinga, sem vissulega er ástæða til að velta fyrir sér, hvort það sé rétt röð á framkvæmdunum að við byrjum á að setja okkur mjög strangar reglur í þessu sambandi, áður en þessar breytingar á alþjóðalögum hafa tekið gildi og löngu áður en það liggur fyrir hvaða aðferðir hin ýmsu ríki ætla að hafa til að framkvæma ákvæði þessa rammasáttmála. Þetta skiptir vissulega miklu máli fyrir okkur Íslendinga eins og segir í lok greinargerðarinnar og enn með tilvitnun í hana, með leyfi forseta:

,,Og réttindi Íslands á fjarlægari miðum eru tryggð í þeim tilvikum þegar veiðireynsla er fyrir hendi og skilyrðinu um raunverulega hagsmuni af veiðunum þar með fullnægt, t.d. að því er varðar þorskstofninn í Barentshafi.``

Þannig gerir þessi nýi hafréttarsáttmáli, verði þessar breytingar staðfestar, ráð fyrir því að það þurfi að vera fyrir hendi veiðireynsla, í þessu tilviki Íslendinga, og uppfylla skilyrði þannig um raunverulega hagsmuni af veiðunum til þess að við Íslendingar getum gert eitthvert tilkall til réttinda til veiða á fjarlægum miðum. Er þá ekki verið að fara aftan að hlutunum að ætla sér nú, þegar enn er tími til að afla sér slíkrar veiðireynslu, sem er forsenda þess að Íslendingar geti tekið virkan þátt í veiðistjórnun á fjarlægum miðum, að setja lög fyrir fram áður en að þessu kemur sem bókstaflega gætu bannað hinum íslenska úthafsveiðiflota, ef sjútvrh. teldi ástæðu til þess, að afla sér þeirrar veiðireynslu sem á að vera burðarásinn í samningsstöðu Íslendinga þegar kemur að því að framfylgja þessum nýju ákvæðum hafréttarsáttmálans? Ég tel að það sé alls ekki ástæðulaust nema síður væri að bent sé á þessi atriði og tengslin sem frv. til laga um veiðar utan fiskveiðilögsögu Íslands hefur óhjákvæmilega við þá tillögu sem hér er um ræðir.