1996-10-15 14:20:41# 121. lþ. 8.6 fundur 54. mál: #A fullgilding samnings um verndun víðförulla fiskstofna og stjórnun veiða úr þeim# þál., GHH
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[14:20]

Geir H. Haarde:

Herra forseti. Það er ljóst af þeim umræðum sem fram hafa farið um þetta mál að það er býsna breið samstaða hér á Alþingi um nauðsyn þess að fullgilda hinn svokallaða úthafsveiðisamning sem lagt er til með þessari þáltill. að ríkisstjórnin fái heimild til að gera.

Hv. síðasti ræðumaður gerði hins vegar mikið úr því að hér hafi komið til Alþingis á undan þessu þingmáli frv. til laga um veiðar utan lögsögu, svokallað úthafsveiðifrv. Ég held reyndar að þar sé nú of mikið úr hlutunum gert. Það var nánast tilviljun hvort málið kom á undan á dagskrá þingsins. Málin voru afgreidd um líkt leyti í þingflokkum stjórnarflokkanna. Én ég get út af fyrir sig fallist á að það er eðlileg röð á afgreiðslu mála hér á þinginu að afgreiða fyrst þessa þáltill. um staðfestingu úthafsveiðisáttmálans áður en frv. um veiðar utan landhelgi verður samþykkt. Ég geri enga athugasemd við það sjónarmið. Hins vegar vitum við að sjálfsögðu ekki hvenær 30 ríki verða búin að afgreiða þennan samning þannig að hann verði alþjóðalög í raun. En við vitum að honum verður ekki breytt úr þessu þannig að það er aðeins tímaspursmál hvenær hann tekur gildi. En við vitum hverjar reglurnar verða þegar hann tekur gildi. Mér finnst því fullmikið úr þessu gert sérstaklega þegar ýmsar knýjandi ástæður eru fyrir því að setja lög um veiðar utan lögsögunnar, eins og kom fram í umræðum um það mál fyrir nokkru síðan sem ég skal ekki endurtaka og tel ástæðulaust að blanda inn í þessar umræður.

En það er rétt sem hv. síðasti ræðumaður sagði varðandi hafréttarsáttmálann frá 1982 og tengsl hans við þennan úthafsveiðisamning að þessi samningur er til fyllingar ákvæðum hafréttarsáttmálans frá 1982 um veiðar á úthafinu. Hvernig stendur á að það þarf að fylla út í þau ákvæði? Það er vegna þess að þau eru svo opin að þau eru gagnslaus. Í ljósi gjörbreyttra aðstæðna, stóraukinnar sóknar í fiskstofna utan lögsögu einstakra ríkja, stóraukinnar ofveiði og óábyrgra veiða ýmissa þjóða á úthöfunum var orðin knýjandi þörf á því að setja almennar alþjóðlegar reglur í samningsformi um þessar veiðar.

Þess vegna held ég að við Íslendingar ættum alls ekki að skerast úr leik í þessu efni því við vitum það af gamalli og nýrri reynslu að haldreipi smáþjóða í samskiptum við stærri lönd er að sjálfsögðu lög og réttur, alþjóðlegir samningar, þar sem hinn minni aðili er ekki beittur rangindum eða ofbeldi með neinum hætti. Þannig hljótum við ævinlega þegar við eigum þess kost að freista þess að styðja alþjóðlegar samningaumleitanir um deilumál bæði á málefnasviðum sem varða okkar hagsmuni beint, eins og á þessu sviði, sem öðrum. Það er auðvitað meginástæðan fyrir því að við Íslendingar eigum að ganga á undan öðrum með góðu fordæmi í þessu efni og Alþingi Íslendinga á að mínum dómi að veita samþykki sitt fyrir því að þessi samningur verði staðfestur fyrir Íslands hönd.