1996-10-15 14:24:58# 121. lþ. 8.6 fundur 54. mál: #A fullgilding samnings um verndun víðförulla fiskstofna og stjórnun veiða úr þeim# þál., utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[14:24]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég þakka þessar umræður og þá almennu samstöðu sem virðist vera um málið. Þetta er einmitt mál af þeim toga sem við Íslendingar höfum verið vanir að vera nokkurn veginn sammála um þó að auðvitað séu á máli eins og þessu ýmsar hliðar. En þegar á heildina er litið tel ég að þessi tillaga samrýmist okkar langtímahagsmunum enda hefur það komið fram í máli allra sem hér hafa talað. Ég get tekið undir með hv. 19. þm. Reykv. að það er æskilegt að afgreiða þennan samning sem fyrst. En að sjálfsögðu verður nefnd að fá eðlilegan tíma til að fara yfir hann.

En aðeins út af tengslunum milli annars vegar þessarar tillögu og hins vegar úthafsveiðifrv. þá er rétt að það komi fram að þessi samningur leggur m.a. þá skyldu á herðar aðildarríkjunum að þau stjórni veiðum sinna skipa á úthafinu. Lögin um úthafsveiðar sem hér hafa verið lögð fram gera ráð fyrir því. Því má segja að samþykkt þeirra laga sé í reynd forsenda þess að við getum fullgilt þennan samning. Við getum í reynd ekki fullgilt hann nema það liggi alveg ljóst fyrir að við höfum tekist á hendur þær skyldur að stjórna veiðum okkar skipa á úthafinu. Það eru ekki í gildi augljósar reglur um það fyrr en úthafsveiðifrv. hefur verið samþykkt. Ég tel því eðlilegt að þessi mál haldist hér í hendur og þau styðja hvort annað. En samkvæmt okkar skilningi þá er a.m.k. nauðsynlegt að það liggi nokkuð ljóst fyrir áður en við fullgildum þennan samning að það séu allar líkur til þess að Alþingi muni þá innan skamms tíma afgreiða þá löggjöf.

Varðandi það sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sagði um það hverjir hefðu undirritað þennan samning þá er það rétt sem kom fram hjá hv. þm. að samningurinn hefur legið frammi til undirritunar í eitt ár, frá og með 4. desember, og Ísland er í hópi þeirra ríkja sem hafa undirritað hann. Eins og kom fram í framsöguræðu minni hafa 47 ríki undirritað samninginn. Það þýðir að þessi ríki hafa undirritað hann með það í huga og með þá fyrirætlun að ætla sér að fullgilda hann. Það má segja að þegar við undirrituðum þennan samning í New York þá vorum við að lýsa því yfir að við ætluðum að beita okkur fyrir því á þeim vettvangi sem við verðum að gera, þ.e. með því að leggja málið fyrir hv. Alþingi, að þessi samningur verði fullgiltur. Það má segja það sama um öll hin ríkin. Eftir því sem ég best veit og kom fram í framsöguræðu minni hafa nú þegar þrjú ríki fullgilt samninginn þar á meðal Bandaríkin. Það er full ástæða til að ætla að flest þau ríki sem hafa undirritað samninginn muni beita sér fyrir fullgildingu hans á næstunni. Því tel ég engar líkur á öðru en að samningurinn öðlist gildi á næstunni eða a.m.k. á næstu tveimur árum. Ég held að það muni ekki líða jafnlangur tími og var að því er varðar hafréttarsamning Sameinuðu þjóðanna enda þurfti þar fleiri ríki til. Það eru því mjög miklar líkur á að samningurinn öðlist gildi sem alþjóðleg lög innan tiltölulega skamms tíma. Þetta vildi ég að kæmi fram vegna þeirrar umræðu sem varð.

[14:30]

Vegna þess sem hv. þm. Svavar Gestsson sagði um að við værum í reynd að afsala hluta af okkar framkvæmdarvaldi til annarra ríkja, sem má til sanns vegar færa, vil ég þó segja í því sambandi að við Íslendingar hljótum ávallt í þessu sambandi að leggja það við okkar heiður að við grípum inn í ef við teljum okkar skip vera brotleg. Það væri mikil hneisa fyrir okkur Íslendinga ef einhverjar aðrar þjóðir færu að framfylgja þessum samningi fyrir okkar hönd og ég tel að við föllumst á slíkt ákvæði fyrst og fremst með það í huga að við teljum það nánast ekki geta komið fyrir af okkar hálfu að slíkt gerist. Hins vegar sé það í ljósi reynslunnar því miður svo að gera megi ráð fyrir því að einhverjar aðrar þjóðir láti undir höfuð leggjast að gera það, t.d. úti á Reykjaneshrygg svo maður taki dæmi, og þess vegna sé þetta ákvæði nauðsynlegt. Vissulega getur slíkt komið til greina á öðrum sviðum alþjóðamála. Ég tek undir með hv. þm. í því sambandi, en þó hljótum við að leggja metnað okkar í það að það spyrjist aldrei um okkur að einhverjir aðrir þurfi að framfylgja því sem við höfum samþykkt að fallast á.

Að lokum, herra forseti, get ég út af fyrir sig tekið undir það sem hv. 6. þm. Norðurl. e., Svanfríður Jónasdóttir, sagði um þessi 70%. Það stendur í athugasemdum við þáltill. að 70% fiskstofna séu fullnýttir, ofnýttir eða að hruni komnir. Það kemur ekkert fram í þessu hversu mikið er komið að hruni. Þess vegna gætu það verið 69%. Auðvitað eru svona tölur oft villandi og segja ekki allan sannleikann. En þetta er tekið beint upp úr skýrslu Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna og það verður að segjast alveg eins og er að með okkar takmarkaða mannafla höfum við því miður ekki tækifæri og tíma til að fylgjast með öllum þeim hræringum sem nú eru í heiminum á sviði friðunar og ýmissa umhverfismála. Upplýsingar sem þessar eru oft notaðar í annarlegum tilgangi, það er rétt, og það ber að varast. En hér er þetta sett fram fyrst og fremst til þess að benda á að það hlýtur að vera nauðsynlegt að stjórna veiðum þegar svo mikið hlutfall er fullnýtt, ofnýtt eða að hruni komið. Það segir þá sögu að hér er mikil þörf á stjórnun. Af þeim sökum er þessi tala sett þarna fram því til stuðnings. En síðan kunna aðrir að nota þessar upplýsingar í öðrum tilgangi, þar á meðal gegn okkar veiðum.

Við heyrum um það víða í heiminum að menn telja ástæðu til að banna ýmsar veiðar til þess að aðrar tegundir hafi næga fæðu. Það eru sjónarmið sem við getum ekki fallist á. Það eru sjónarmið sem byggja á því að maðurinn standi utan lífríkisins en sé ekki hluti af því. Það er að sjálfsögðu sjónarmið sem land eins og Ísland getur aldrei fallist á, enda byggir það á vanþekkingu og ég vil segja í reynd, heimsku.

Ég vil að lokum þakka fyrir þessar umræður og vænti þess að hv. utanrmn. taki þetta mál til umfjöllunar og afgreiði það svo fljótt sem verða má, en legg þó áherslu á að löggjöfin um úthafsveiðarnar er jafnframt nauðsynleg til þess að þetta mál geti komist til eðlilegrar framkvæmdar.