1996-10-15 14:34:38# 121. lþ. 8.6 fundur 54. mál: #A fullgilding samnings um verndun víðförulla fiskstofna og stjórnun veiða úr þeim# þál., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[14:34]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég tók eftir því að hæstv. ráðherra sagði að það væri nauðsynlegt að setja reglur í lögum um það hvernig standa bæri að framkvæmd þessara breytinga á hafréttarsáttmálanum þegar hann er kominn til framkvæmda. Mín skoðun er sú að í frv. til laga um veiðar utan fiskveiðilögsögu Íslands séu gefnar miklu víðtækari heimildir og settar miklu strangari takmarkanir á úthafsveiðar en þessi þáltill. gerir ráð fyrir. En minnugur orða hæstv. ráðherra vildi ég hér með óska eftir því við hann að hann beitti sér fyrir því sem utanrrh. að aflað yrði upplýsinga um það hvernig þau þrjú ríki sem þegar hafa fullgilt umræddan sáttmála hafa breytt eða haga stjórnun veiða fiskiskipa sinna á úthafinu og hvaða áform helstu samkeppnisaðilar Íslands í fiskveiðum í Atlantshafi, Norðmenn og Evrópusambandið hafa eða hyggjast hafa á framkvæmdinni á sínum vegum. Ef það er rétt hjá hæstv. ráðherra, sem ég dreg ekki í efa, að menn þurfi að ljúka ákvörðun um slíkt stjórnkerfi áður en menn fullgilda þennan samning, þá hljóta a.m.k. þrjú ríki að vera búin að því fyrir sitt leyti. Hæstv. utanrrh. er innan handar að afla upplýsinga um það hvernig því er þar fyrir komið og ég vil óska eftir því að hann geri það og komi þeim upplýsingum á framfæri við sjútvn., sem ég á sæti í, þegar nefndin byrjar vinnu sína við frv. um veiðar utan fiskveiðilögsögu Íslands svo að sjútvn. sjái þá hvernig aðrar þjóðir, sem eru í sambærilegri stöðu og við eða hafa gengið skrefinu lengra en við, ætla að hegða stjórn á fiskveiðum skipa sinna á úthafinu.