Veiðileyfagjald

Þriðjudaginn 15. október 1996, kl. 14:51:48 (319)

1996-10-15 14:51:48# 121. lþ. 8.7 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[14:51]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Fyrst um réttlætisrökin. Þau eru einmitt tengd núverandi ágöllum á löggjöf um stjórn fiskveiða. Ég tek undir þau rök að óréttlátt er að útgerðarmenn geti gert sér að peningum veiðiheimildir sem þeir nota ekki sjálfir með því að leigja þær, ekki bara einu sinni heldur ár eftir ár. Það er fullkomlega óeðlilegt. Og það er ekki bara að ég taki undir þetta heldur tekur allt Alþb. undir það og hefur gert það með því að segja: Þetta er svo óeðlilegt að við leggjum til að þetta verði bannað.

Ég spyr hv. flm.: Eruð þið tilbúnir að standa með okkur að því að stöðva braskið? Að standa með sjómönnum og stöðva braskið með því að stoppa framsalið á leiguheimildum? Og með því slá niður hið óeðlilega háa verð á varanlegan kvóta sem er borið uppi af leiguverðinu? Menn geta keypt dýrum dómum varanlegu veiðiheimildina af því að þeir sjá að þeir geta svo leigt hana í nokkur ár meðan þeir borga niður stofnkostnaðinn. Með því að banna framsalið á leigukvóta mundum við slá niður þetta óeðlilega háa verð á varanlegum fiskveiðiheimildum.

Við hv. flm. þáltill. um veiðileyfagjald vil ég segja að þeim er ljóst alveg eins og mér að spurningin er ekki um það prinsipp að taka upp eða taka ekki upp veiðileyfagjald. Það er ekki bara eitt veiðileyfagjald í dag, það eru ekki bara tvö veiðileyfagjöld í dag. Það eru þrjú veiðileyfagjöld í dag. Og er einhver þörf á því að taka upp fleiri veiðileyfagjöld? Það held ég ekki. Spurningin snýst ekki um hvort menn vilji taka upp veiðileyfagjald eða ekki heldur hitt hvort menn vilji taka mikla skatta af sjávarútvegi eða hóflega skatta og ég skipa mér í hóp þeirra sem tala fyrir hóflegri skattlagningu sem miðast við efni atvinnugreinarinnar.