Veiðileyfagjald

Þriðjudaginn 15. október 1996, kl. 15:12:09 (326)

1996-10-15 15:12:09# 121. lþ. 8.7 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[15:12]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Umræða um veiðileyfagjald og fiskveiðistjórnun getur farið saman en þarf ekki að gera það. Hv. þm. vill gjarnan tala frekar um fiskveiðistjórnun en veiðileyfagjaldið og það er alveg hægt að taka þátt í því með honum. Hins vegar er það spurning hvað það skilar okkur áfram í þessari umræðu að taka út einstaka þætti.

Hv. þm. Ágúst Einarsson gat þess áðan vegna þess að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson saknaði þess að ekki væri tekið tillit til hagsmuna sjómanna í tillögu okkar að við værum, eins og fram kemur í málaskrá okkar, áhugasöm um að tekin yrði ákvörðun um það, og það er í samræmi við vilja sjómanna, að allur fiskur fari yfir á fiskmarkað. Mér finnst hins vegar ekki ástæða til þess að við ræðum það mál sérstaklega í þessari umræðu jafnvel þó að það blandist inn í hana. Þar af leiðandi finnst mér að ef við viljum komast áfram með umræðuna um veiðileyfagjald sé rétt að gera það án þess að við þurfum að taka alla þá þætti sem þingmaðurinn saknar inn í þá umræðu en ég vil gjarnan að við fáum tilefni til þess hér á hv. Alþingi að ræða fiskveiðistjórnunarkerfið í heild sinni vegna þess að mér hefur oft og tíðum fundist að á skorti að við sem sitjum þessa samkomu, við sem stundum löggjafarstörf, séum einhuga í því hver markmiðin eigi að vera með fiskveiðistjórnun okkar. Hvernig lítum við til undirstöðuatvinnugreinarinnar? Hvað viljum við sjá að hún gefi af sér og í hverra þágu á það að vera? Á það að vera í þágu allrar þjóðarinnar eða eru menn sífellt að horfa til þess að það sé í þágu fámenns hóps fyrst og fremst? Um það snýst það mál sem hér er til umræðu í dag að hluta til. Um það snýst fiskveiðistjórnunarkerfið líka. Við getum rætt það saman en það flækir málið um of.