Veiðileyfagjald

Þriðjudaginn 15. október 1996, kl. 15:14:26 (327)

1996-10-15 15:14:26# 121. lþ. 8.7 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., RG
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[15:14]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Sú tillaga sem hér er til umræðu er skýr. Greinargerðin með tillögunni er fagleg og dregur fram marga ólíka þætti til skýringar og hún fjallar m.a. um þær leiðir sem við teljum mögulegar. Viðbrögð við tillögunni eru fremur undarleg og vekja furðu. Umræður héðan sem bárust út fyrir helgi hafa vakið undrun margra og furðu fleiri og sýnu verra er að málflutningur forustumanna Sjálfstfl. á landsfundi afflutti þá tillögu sem hér er til umræðu, afflutti málflutning okkar gróflega og það var ekki til sæmdar þeim sem í hlut eiga.

Virðulegi forseti. Þingmaður Alþb., Kristinn H. Gunnarsson, hefur hafnað tillögunni í málflutningi sínum. Ég velti því fyrir mér hvort sú höfnun sé Alþb. í heild sinni vegna þess að á sama tíma og hann dregur mjög fjálglega fram stefnu Alþb. við fiskveiðistjórnunina áréttar hann að veiðileyfagjald sé í dag. Enda þótt ég sé ekki sammála honum um þá skilgreiningu sem hann setti fram tek ég undir að það er veiðileyfagjald í dag. Sú staðreynd blasir við hverjum einasta landsmanni. Auðlindinni er úthlutað og henni er úthlutað ókeypis miðað við þá skilgreiningu sem við erum að tala um, hvort það eigi að greiða fyrir auðlindina og afnot af henni eða ekki. Það er staðreynd sem blasir við hverjum einasta manni og um það er rætt alls staðar úti í þjóðfélaginu í dag og það er sorglegt til þess að vita ef þingmenn sem starfa á Alþingi vita ekki um þessa umræðu. En þeir sem fá þessa úthlutun á auðlindinni til afnota verðleggja hana sjálfir og framselja eða leigja og það er staðreynd sem blasir við í dag. Og það, virðulegi forseti, sem ég ætla að draga fram í minni stuttu ræðu er í hvaða umhverfi tillaga okkar um veiðileyfagjald er flutt. Ég ætla að biðja þingmenn að skoða með mér upplýsingar sem voru settar fram á útvegsráðstefnu í Reykjanesbæ fyrir um viku síðan. Þær upplýsingar voru ekki til orðnar fyrir tilstuðlan jafnaðarmanna, aldeilis ekki. Við vorum hlustendur á þeirri fróðlegu ráðstefnu, hlustendur á þær upplýsingar sem voru settar fram af faglegum fyrirlesurum, sem þar mættu.

Menn tala einfaldlega orðið um risa og menn tala um þá litlu. Menn tala um leiguliða nútímans, sem eru leiguliðarnir í sjávarútveginum. Risar eru þeir sem fá kvóta til sín í auknum mæli og litlu, þ.e. leiguliðarnir, eru að leigja til sín kvótann. Kvótinn er að þjappast á fárra hendur og það er staðreynd. Nýir aðilar borga veiðileyfagjald til risanna. Það er veiðileyfagjald, virðulegi þingmaður, Kristinn H. Gunnarsson.

Þá skulum við aðeins kíkja á braskið og það var fjallað um það á þessari ágætu ráðstefnu. Það eru gífurlegar tekjur í leigubraskinu. Á sl. fiskveiðiári var áætlað að greiddar væru 90 kr. í leigu fyrir kg, eins og hér hefur þegar komið fram, nú eitthvað minna, 70--75 kr. Það eru flutt á milli aðila sem hafa fengið úthlutun rúmlega 70 þúsund tonn af þorski. Það er staðhæft að um 20% af varanlegum fiskveiðiheimildum séu fluttar á milli aðila og það eru nefndar tölur eins og 700 þús. kr. á tonn í varanlegum fiskveiðiheimildum. Þetta eru líka staðreyndir sem liggja fyrir og eru bornar fyrir okkur þingmenn til að reyna að vekja okkur af þyrnirósarsvefninum þegar við mætum á ráðstefnur.

Þarna var líka fullyrt að ef teknar væru allar tegundir, þá skipti um það bil 78% af heildarkvóta sem veiddur er um eignarhald og þá er verið að tala m.a. um innbyrðisfærslur. Það er áætlað að um 5 milljarðar séu teknir fram hjá hlut sjómanna og þar með halda þeir því fram og segja með réttu að sjómenn verði af 2,5 milljörðum í hlut. Þetta eru upplýsingarnar sem aðilar í útvegi eru að bera fram fyrir okkur og menn tala opinskátt á slíkri ráðstefnu um að 10--15 milljarðar fari í greiðslur fyrir veiðiheimildir á einu ári.

Ég ætla ekki að leggja mat á þessar tölur, en ég ber þær fram hér vegna þess að þær eru bornar fram í mikilli alvöru á ráðstefnu sem allir í útvegi í einu stærsta kjördæmi landsins eru sammála um. Og ég fagna því, hver svo sem fjárhæðin er, hvort hún er 5 milljarðar, 10 milljarðar eða 15 milljarðar, að þá fjármuni sé að finna í greininni þannig að hún sé í raun fær um að greiða þetta gjald fyrir heimildir þó ég sé ósammála hvernig viðskiptin liggja og hvernig hefur verið lagt upp með fiskveiðistjórnun sem í raun gerir þetta mögulegt.

Mig langar að nefna líka undir lokin af því sem ég hef tínt til sem kom fram á þessari ráðstefnu hvernig það hittir sveitarfélögin fyrir þegar menn eru að leika sér með útfærslu á leigu og sölu á kvóta í svokölluðu tonni á móti tonni, af því að við erum að tala um braskið sem við erum að benda á um leið og við segjum að það eigi að greiða arðinn af auðlindinni til eigendanna, fólksins í landinu, ríkissjóðs. Við skulum hugsa okkur að tveir bátar leggi upp hlið við hlið. Annar leggur upp á fiskmarkað og fær 100 kr. greiddar fyrir kg. Hinn er í kvótabraski og fær bara 60 kr. af því að 40 kr. liggja í tonn á móti tonni. Annar borgar aflagjald til sveitarfélagsins af 100 kr. á kg. Hinn borgar af 60 kr. vegna þess að þannig liggur land yfir löndunina þannig að afleiðingarnar af því hvernig braskað er eru líka farnar að snerta tekjur sveitarfélaganna til viðbótar við annað.

Mig langar líka að benda á það, af því að ég er að fjalla um umhverfið sem við flytjum þessa tillögu í, að í Sjómannablaðinu Víkingi frá því í vor var verið að fjalla um kvótasölu eða leigu og kvótakaup. Ég er hér, virðulegi forseti, með ljósrit úr þessu ágæta blaði. Önnur síðan í þessu ljósriti er með yfirskrift sem segir: ,,Þeir sem högnuðust mest á kvótasölu eða leigu. Allar tölur eru í milljónum.`` Og hinn segir: ,,Þeir sem keyptu mest af kvóta og allar tölur eru í milljónum.`` Þetta er fróðleg upptalning, en ég get bara til upplýsingar nefnt að í þessu blaði eru þrjár efstu tölurnar hjá þeim sem högnuðust mest á kvótasölu eða leigu þessar, virðulegi forseti: 313 millj. 586 þús., 124 millj. 551 þús., 100 millj. 863 þús. Það hlýtur að vera, virðulegi forseti, að þessar tölur séu umhugsunarefni fyrir okkur sem erum á Alþingi Íslendinga að reyna að búa til réttlátt þjóðfélag, gæta þeirra eigna sem þjóðin á, auðlinda þjóðarinnar og ákveða hvernig með skuli fara.

Í lokin, virðulegi forseti (Forseti hringir.) Mér gefst ekki tími til að koma inn á þá umræðu sem er um hvort við hefðum átt að vera með algera útfærslu bæði á tillögunni sjálfri og í raun og veru fiskveiðistjórnun, en mér gefst væntanlega tækifæri til þess síðar.