Veiðileyfagjald

Þriðjudaginn 15. október 1996, kl. 15:23:03 (328)

1996-10-15 15:23:03# 121. lþ. 8.7 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., PHB
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[15:23]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Sú þáltill. sem við ræðum í dag fjallar um gjald í tengslum við úthlutun veiðiheimilda fyrir afnot af sameiginlegri auðlind eins og sagt er í þáltill. Greinargerðin með tillögunni er nokkuð ruglingsleg. Ýmist er lagt til að gjaldið verði í formi skattlagningar eða í formi markaðsvæðingar. Bent er á sex leiðir til að innheimta þetta gjald. Allar nema ein gera ráð fyrir að gjaldið renni í ríkissjóð. Fyrsta og þriðja leið eru markaðsvæðing en aðrar leiðir eru bein skattlagning.

Fyrsta leiðin er að dreifa veiðiheimildum á milli allra landsmanna, en þess jafnframt getið að hún gæti reynst erfið í framkvæmd. Ekki er sú leið rædd frekar, en öll greinargerðin gengur út frá skattlagningu á útgerðina. Flutningsmenn telja auk þess leiðir tvö og sex vera heppilegastar, en þær gera báðar ráð fyrir beinni skattlagningu.

Herra forseti. Hver er munurinn á skattlagningu og því sem ég vil kalla markaðsvæðingu, það er uppboð á öllum árlegum kvóta? Skattlagningin er stíf og tekur ekki mið af afkomu greinarinnar. Það er útilokað að greinin í heild sinni, sem skuldar 107 milljarða kr., geti greitt umtalsverða skatta sem stendur. Markaðsvæðing hefur aftur þann kost að útgerðin mun að meðaltali bjóða það verð fyrir kvótann sem á hverjum tíma gefur henni góðan arð. Þeir sem geta veitt hagkvæmast geta greitt mest fyrir kvótann og fá hann.

Það er mikill munur á því hvort ríkið fær gjaldið eða einstaklingar. Ég er að fenginni reynslu hlynntari því að einstaklingurinn fái gjaldið en ríkið. Ég geri alltaf dálítinn greinarmun á þjóðinni og ríkinu.

Herra forseti. Núgildandi veiðistýringarkerfi hefur vegna framsalsins reynst mjög vel. Hagnaður í útgerð hefur aukist verulega. En ókostirnir hafa komið í ljós vegna eignarhaldsins. Eignarhaldið byggir á tilviljanakenndri veiðireynslu og gengur eingöngu til útgerðarinnar, þ.e. þeirra sem veiddu á ákveðnu árabili og hefur það valdið mikilli gremju meðal sjómanna og meðal almennings alls. Auk þess hefur myndast gervimarkaður með veiðiheimildir. Það er bara lítill hluti kvótans sem er á markaði. Sum fyrirtæki hafa fengið kvótann gefins, önnur fyrirtæki hafa greitt 100 kr. fyrir kg af varanlegum þorskveiðiheimildum, (Gripið fram í: 600 kr.) má ég klára, enn önnur hafa greitt 600--700 kr. fyrir kg af varanlegum þorskveiðiheimildum. Þetta hefur valdið miklu misræmi á milli fyrirtækja.

Svo sé ég aðra hættu sem ekki hefur verið nefnd í þessari umræðu. Eftir 20--40 ár munum við sjá fyrir okkur t.d. ÚA ltd., Sameinaða ltd. eða Granda ltd. í New York, með verstöðvar í 25 löndum, ein af þeim er á Íslandi. Og þeir munu vinna í New York og arðsmiðjan eða ,,profitcenter``, eins og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson skilgreindi svo fimlega á síðasta vetri, verður í New York og arðurinn mun streyma þangað. Núverandi kerfi hindrar það ekki. Eigendur, stjórnarformaður, framkvæmdastjóri, allt Íslendingar, það er víst eitthvert fólk sem er með grænan blett á enninu. Ég þekki nefnilega fólk sem er bæði Íslendingar og útlendingar samtímis og hef nefnt það áður.

Herra forseti. Ég get ekki fallist á þá þáltill. sem hér er til umræðu þar sem ég trúi ekki á sérstaka skattlagningu einnar atvinnugreinar. En ég legg til að skoðað verði hvort skynsamlegt sé að taka upp eftirfarandi eignarhald á veiðiheimildum sem e.t.v. má flokka undir fyrstu leið: Öllum kvóta verði dreift jafnt á alla landsmenn. Eignin sjálf, þ.e. varanlegur kvóti, sé ekki framseljanlegur. En hann stofnast við fæðingu og fellur niður við dauða. Heimilt verði að framselja árlegan veiðirétt þrjú ár fram í tímann. Kvótinn verði á 20 árum fluttur frá núverandi eigendum, þ.e. þeir þurfa að afskrifa eignina um 5% á ári.

Þessi almenningsvæðing kvótans er öndverð við hugmyndir þáltill. um auðlindaskatt sem blæs út ríkisbattaríið og eykur fé án hirðis. Hún er að auki mjög auðveld í framkvæmd. Við höfum nú þegar töluverða reynslu af verslun með t.d. húsbréf og það yrði hreinlega alltaf til sölu kvóti t.d. fyrir árið 1999 og þeir aðilar sem fá hann, Íslendingarnir, verða að reyna að selja hann á háu verði og hinir sem kaupa, útgerðin, mun borga það verð sem gefur henni að meðaltali hagnað.

Sveiflujöfnun í sjávarútvegi, sem menn hafa verið að kvarta undan, sérstaklega iðnaðurinn, mun eiga sér stað hjá heimilunum sem eru best fær um að draga saman seglin eða auka neyslu. Þegar vel gengur hjá útgerðinni hækkar verð á kvótanum, Íslendingar fara í utanlandsreisur eða kaupa sér bíla, en þegar illa gengur, þá er þessu öfugt farið. Þessi lausn minnkar auk þess þörf á barna-, örorku- og ellilífeyri þar sem allir landsmenn fá 50 þús. kr. á ári þegar kerfið verður komið í fullan gang, eftir 20 ár. Þessar tekjur verða svo skattlagðar eins og aðrar tekjur. Auk þess bætir þessi leið samkeppnisstöðu Íslands um fólk og fyrirtæki. Fyrirtækin njóta þess að starfsmenn þeirra fá 50 þús. kr. hver fyrir að búa á Íslandi og börn þeirra auk þess.

Nýir aðilar munu geta hafið útgerð sem ekki á við í dag. Ég geri ráð fyrir því að þessi leið muni lækka verð á kvótanum verulega niður í svona 25--30 kr. á kg af leigukvóta. Verðið mun stórlækka og nýir aðilar munu geta hafið útgerð, líka á Vestfjörðum. Útgerðin mun leita þangað sem veiðiskapurinn gengur hagkvæmast og ég reikna með því að það sé m.a. á Vestfjörðum.

Þessi leið mun auk þess bæta stöðu sjómanna því þeir þurfa ekki lengur að taka þátt í því að kaupa kvóta á 100 kr. heldur eingöngu 25--30 kr. af því að fyrirtæki þurfa öll að kaupa kvóta á markaði. Hún mun bæta stöðu landverkafólks því að það mun ekki lengur þurfa að taka þátt í þessum geysilegu kvótakaupum þar sem fiskvinnsluhúsin eru að kaupa kvótann á 100 kr. heldur mun kvótinn verða seldur á 25--30 kr. á kg. Útgerðin mun alltaf geta keypt kvótann á markaði nákvæmlega eins og olíu. Það að kvótinn afskrifast um 5% á ári í hendi núverandi eigenda gerir það að verkum að hann gæti verið meira virði en núverandi óviss kvóti. Útgerðin mundi vita með vissu að hún ætti þennan kvóta í tuttugu ár. Lánastofnanir og sjávarútvegsfyrirtæki munu hafa nægan tíma til að ganga frá skuldum útgerðarinnar sem eru um 107 milljarðar kr. Tuttugu ár er langur tími í lífi einstaklinga og fyrirtækja en stuttur í lífi þjóðar. Þetta fyrirkomulag mun auk þess koma í veg fyrir alls konar vandræðagang í lagasetningu, vandræði með fjárfestingar útlendinga í útgerð, veðsetningu kvóta, kvótahopp o.s.frv.