Veiðileyfagjald

Þriðjudaginn 15. október 1996, kl. 15:33:24 (330)

1996-10-15 15:33:24# 121. lþ. 8.7 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[15:33]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Aðeins vegna þeirra fullyrðinga sem komu fram hjá hv. ræðumanni, Pétri H. Blöndal, um að allt það sem gott væri að gerast í sjávarútvegi væri vegna fiskveiðikerfisins þá held ég að ástæðulaust sé að þakka kerfinu meira en við vitum að það á vegna þess að það hefur ýmislegt fleira verið að gerast. Það vill þannig til að um og upp úr 1990 var tekin upp í landinu ný hagstjórn í góðu samstarfi við verkalýðshreyfinguna. Hún á sinn þátt í því að vel hefur árað þrátt fyrir ýmsa erfiðleika hvað varðar sókn í stofna og annað.

Frjálst fiskverð hefur líka verið tekið upp á Íslandi og fiskmarkaðir gegna vaxandi hlutverki. Það skiptir líka máli um afkomu útgerðarinnar og mér finnst að þingmaðurinn megi heldur ekki gleyma að í gangi er flotastýring. Í lögunum um stjórn fiskveiða er flotastýring vegna þess að Sjálfstfl. hefur ekki treyst útgerðarmönnum til að fara með þann arð sem myndast í útgerðinni. Þeir vita, eins og fram hefur komið í máli sumra þeirra, að ef menn fengju að nýta arðinn eins og þeir vildu sjálfir færi hann m.a. í að stækka flotann, hann færi í að endurnýja flotann, hann færi í að kaupa ný fiskiskip. Þess vegna er flotastýring í gangi í fiskveiðistjórnunarkerfinu og þannig vill Sjálfstfl. hafa það. Hann vill hafa vit fyrir útgerðarmönnum. Þetta finnst mér að hv. þm. verði að hafa á bak við eyrað þegar hann er að ræða um stjórn fiskveiða í tengslum við okkar tillögu um veiðileyfagjald.