Veiðileyfagjald

Þriðjudaginn 15. október 1996, kl. 15:39:07 (332)

1996-10-15 15:39:07# 121. lþ. 8.7 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., StG
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[15:39]

Stefán Guðmundsson:

Virðulegi forseti. Menn ræða hér um veiðileyfagjald eða auðlindaskatt. Það er efni tillögunnar sem liggur fyrir en því miður rugla menn gjarnan saman og ræða í senn stjórnun fiskveiða annars vegar og auðlindaskatt eða hvort það eigi að skattleggja þessa atvinnugrein sérstaklega í okkar atvinnustarfsemi. Þetta eru mál sem við eigum ekki að rugla saman og eigum að geta rætt hvort fyrir sig.

Í greinargerð velta flm. því upp að þessi skattur geti orðið hvorki meira né minna en um 17 milljarðar kr. ef ég les rétt, en með leyfi, virðulegi forseti, segir svo í greinargerð með tillögunni:

,,Sýnt hefur verið fram á að með góðu fiskveiðistjórnunarkerfi er hægt að ná fiskveiðiarðinum upp í allt að 30 milljarða kr. á ári. Tekjuskattur einstaklinga er um 17 milljarðar kr. á ári þannig að með álagningu veiðileyfagjalds væri þegar fram liðu stundir hægt að fella niður tekjuskatt einstaklinga en skilja þó verulegan hluta arðsins eftir innan sjávarútvegsins eða mun meiri arð en óbreytt fyrirkomulag tryggir.``

Hér er verið að leggja til eða velta a.m.k. þeirri hugmynd upp að skattleggja sjávarútveginn og þá sem í atvinnugreininni starfa um hvorki meira né minna en 17 milljarða kr. á ári. Það á sem sé að fara að skattleggja þá sem róa til hafsins alveg sérstaklega.

Þessi skattur kemur misjafnlega niður eins og komið hefur fram hjá hv. þm. Kristni Gunnarssyni. Ég held að nokkuð nálægt lagi sé að um 80% af aflanum sem við drögum á land sé dreginn utan Reykjavíkur og Reykjaness þannig að við sjáum hversu gífurlega stór skattlagning þetta er á landsbyggðina. Það er verið að leggja til að við skattleggjum landsbyggðina hvorki meira né minna en um 13,4 milljarða kr. á ári miðað við að gengið sé út frá þessum 17 milljörðum. Það er sem sé verið að tala um, hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir, sem talaði áðan og er einn af flm., og hv. þm. Ágúst Einarsson, sem er 1. flm. þessarar tillögu, að skattleggja Norðurl. e., þá sem koma þar að landi með fisk upp á 3,4 milljarða kr. á ári og Reykjanesið á að borga um 2,6 milljarða kr. af þessum auðlindaskatti.

Verðmæti upp úr sjó er áætlað, ef ég man rétt, um 60 milljarðar kr. á ársgrundvelli og útflutningsverðmætið um 97 milljarðar kr. Ég er því hugsi yfir þessu og velti fyrir mér hvað liggur raunverulega að baki slíkum tillöguflutningi eins og hér liggur fyrir miðað við þessar tölur. Hvað liggur raunverulega að baki slíkum tillöguflutningi? Það er mikið umhugsunarefni fyrir mig og ég trúi að svo sé með fleiri.

Hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir sagði einnig áðan að fámennur hópur manna eigi að fá ókeypis aðgang að hafinu. Á komandi ári, hv. þm., mun sjávarútvegurinn eða þeir sem stunda sjó á Íslandi greiða í beinum sköttum og álögum á greinina á fjórða milljarð fyrir utan það sem greinin þarf að borga í sköttum af eðlilegum rekstri. Á fjórða milljarð, hv. þm. Mér finnst menn tala nokkuð djarflega í þessum málum og verði tillagan sem liggur fyrir samþykkt munum við eftirleiðis sjá innheimtumenn núv. hæstv. fjmrh., Friðriks Sophussonar, standa á hafnargarðinum þegar sjómennirnir koma að landi hvort sem það er á Norðurl. e. eða á Reykjanesi og innheimta skattinn fyrir að draga fisk úr sjó. Hvorki meira né minna en um 3,4 milljarða á Norðurl. e. sem þeir bera í kassann til Friðriks Sophussonar og 2,6 milljarða trúlega af Reykn. Þetta er það sem tillögumenn leggja til. Og þessu til viðbótar eins og sagði áðan á greinin að borga rúma 3 milljarða í aðra skattlagningu.

[15:45]

Ég velti því líka fyrir mér hvort flutningsmenn og við þingmenn, sem um þessi mál þurfum að fjalla og taka afstöðu til, teljum að þessi 17 milljarða skattur á greinina til viðbótar við þá rúmu 3 milljarða, sem á hana eru lagðar þegar, muni verða til þess að bæta kjör sjómanna. Munu þeir verða til þess að bæta kjör fiskverkafólks í landinu? Telja menn að þessi leið sé til þess fallin að koma íslenskri fiskvinnslu út úr þeim vítahring eða þeirri kreppu sem hún er í í dag? Telja menn það? Væri okkur ekki nær hér, hv. þm., að fjalla um þann alvarlega vanda sem við blasir í íslenskri fiskvinnslu en að bæta á hann slíkum drápsklyfjum? Ég held það. Ég held að tíma okkar alþingismanna væri betur varið til þess nú að fjalla um þann vanda sem steðjar að greininni.

Ég legg ríka áherslu á það að ég tel og hef alla tíð talið að sjávarútvegurinn eins og önnur atvinnustarfsemi í landinu eigi að borga skatta af starfsemi sinni þegar aðstæður eru svo í greininni. Ég sé enga ástæðu til að þessi atvinnugrein verði meðhöndluð á einhvern annan hátt en önnur atvinnustarfsemi í landinu.