Veiðileyfagjald

Þriðjudaginn 15. október 1996, kl. 15:53:09 (336)

1996-10-15 15:53:09# 121. lþ. 8.7 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., StG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[15:53]

Stefán Guðmundsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þarf litlu við að bæta í sjálfu sér. Mér sýnist því miður að prófessorinn sé rammvilltur í umræðunni. Hv. þm. undirstrikaði að hægt væri að fella niður tekjuskattinn upp á 17 milljarða kr. Það þarf ekkert að segja meira. Og ég sé að hv. formaður þingflokks jafnaðarmanna brosir hér blítt en ég hugsa að hv. þm. geri það ekki ef þingmanninum félli það verk í hendur að standa á hafnargarðinum og rukka Reyknesingana þegar þeir koma frá því að draga björg til þjóðarbúsins en þeir hafa fram til þessa, og allt of lengi, fengið allt of lítið af þeirri köku sem til skiptanna hefur verið og ekki síst meðan þessi hv. þm. var ráðherra og hreyfði ekki litla fingur til að breyta þessu kerfi og rukkar þá sjómennina sem koma að landi í Reykjanesi um tæpa 3 milljarða. (Gripið fram í: Sjómennina?) Sjómennina --- fyrir það að draga björg í bú.