Veiðileyfagjald

Þriðjudaginn 15. október 1996, kl. 15:57:31 (339)

1996-10-15 15:57:31# 121. lþ. 8.7 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[15:57]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ástæða sé til þess að vekja athygli hv. þm. á því að sú kreppa sem er núna í íslenskri fiskvinnslu er vegna margra þátta og þeir þurfa allir athugunar við. Eitt af því sem forsvarsmenn fiskvinnslunnar tala um er fiskverðið. En þeir eru líka sammála um, a.m.k. var því látið ómótmælt á fundi þeirra nú í haust, að færi allur fiskur um fiskmarkaði eins og sjómennirnir óska eftir mundi verðið verða það sem kannski er hægt að tala um sem rétt, þ.e. að vinnslan keypti þá það hráefni sem hún ræður við að vinna úr á hverjum tíma þar sem vinnslan er stödd á landinu. Þannig er það ekki í dag og mér er ekki kunnugt um að hv. þm. Stefán Guðmundsson hafi komið með tillögur í þessa veru né heldur að þær hafi stuðning hans. Það væri hins vegar fróðlegt að vita hvaða aðrar hugmyndir hann hefur til þess að leysa kreppu íslenskrar fiskvinnslu fyrst honum finnst ástæða til þess að taka fiskvinnsluna hér inn í umræðuna.