Veiðileyfagjald

Þriðjudaginn 15. október 1996, kl. 16:17:38 (343)

1996-10-15 16:17:38# 121. lþ. 8.7 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., GMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[16:17]

Gunnlaugur M. Sigmundsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Hjálmar Árnason vakti athygli á því að í þeirri þáltill. sem er til umfjöllunar er talað um að fella megi niður tekjuskatt upp á 17 milljarða ef menn taka upp þetta svokallaða veiðileyfagjald. Mér þótti að hv. þm. Hjálmar Árnason hefði mátt bæta því við að það er mjög sérkennilegt hjá flutningsmönnum tillögunnar að tala um að fella niður tekjuskatt upp á 17 milljarða þegar tekjuskatturinn í reynd er um 80 milljarðar. Mismunurinn er endurgreiðsla til láglaunafólks þannig að þeir 17 milljarðar, sem talað er um að fella niður, er tekjuskattur hálaunafólksins í landinu. Nú á að leggja skatt á fyrirtækin sem veita láglaunafólkinu í landinu atvinnu. Það á að minnka greiðslugetu fyrirtækjanna, sem láglaunafólkið starfar hjá, til þess að fella niður tekjuskattinn á þeim einstaklingum sem best standa og greiða þessa 17 milljarða. Hverjir skyldu það vera? Eru það hugsanlega sömu sægreifar og ætla sér nú að eignast stærri kvóta út á það að fá að leigja hann? Þeir hafa safnað í sjóði, hernaðarsjóði, sem þeir geta notað til að sölsa undir sig meira og á sama tíma á að losa eigendur þessara hlutabréfa í þessum fyrirtækjum undan því að greiða tekjuskatt.