Veiðileyfagjald

Þriðjudaginn 15. október 1996, kl. 16:33:45 (348)

1996-10-15 16:33:45# 121. lþ. 8.7 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., Flm. ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[16:33]

Flm. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Við erum alveg sammála ég og hv. þm. Ég vil ítreka að tillagan er sett upp svona af ráðnum hug. Þetta er pólitísk tillaga. Hún tekur pólitíska afstöðu. Það þarf að setja löggjöf um þetta efni og það þurfa margir að koma að því. Það þarf að skoða hvaða form er heppilegast því það hefur áhrif á marga þætti. En það sem við gerum líka er að við listum upp fjölmarga möguleika í útfærslu, gerum þá ekki að okkar. Einn hv. þm., Pétur Blöndal, lýsti t.d. einni leið. Hann reyndi að fá fylgi fyrir henni innan síns flokks núna um helgina. Það gekk ekki. Við bendum á fjölmarga þætti í okkar tillögu í vandaðri greinargerð vegna þess að þar teljum við ekki bara upp rökin með tillögu heldur líka rökin á móti. Menn verða að taka viljann fyrir verkið hvað þann þátt varðar. Við bendum hins vegar á í tillögunni að við höllumst að útfærslu nokkurra leiða frekar en annarra, en af ráðnum hug þá neglum við ekki niður okkar afstöðu í útfærslu veiðileyfagjaldsins. Við teljum það ekki vera meginatriði í þessu máli. Meginatriðið er hin pólitíska spurning: Vilja menn leggja á veiðileyfagjald vegna þess að það er óréttlátt að úthluta veiðiheimildum eins og nú er gert? Vilja menn nýta veiðileyfagjald sem ákveðið sóknarfæri íslenskri efnahagsstjórnun til framfara? Þetta er pólitísk spurning. Spurningin um veiðileyfagjald er ekki tæknilegs eðlis. Það er m.a. þess vegna sem við höfum ekki farið út í mjög nákvæm tæknileg svör. En við hv. þm. erum alveg sammála í þeim skilningi hvernig ber að skilja þessa tillögu.