Veiðileyfagjald

Þriðjudaginn 15. október 1996, kl. 16:59:34 (353)

1996-10-15 16:59:34# 121. lþ. 8.7 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[16:59]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson veður enn í misskilningi um það að ekki sé til veiðileyfagjald. Það er veiðileyfagjald til í dag. Það er lagt á sjávarútveginn. Það eru rúmar á 134 kr. hvert einasta þorskígildistonn. Það hefur Sjálfstfl. samþykkt og Sjálfstfl. er greinilega ekki á móti veiðileyfagjaldi miðað við þá niðurstöðu. Ég er alls ekki á móti veiðileyfagjaldi eins og það er útfært í dag. Þið eruð bara með enn eina útfærsluna, hv. þm. jafnaðarmannaflokksins, og hún er sú að fara miklu hraðar og með miklu hærri upphæðir sem nýjar álögur á útgerðina. Er nokkur furða þó að menn hiki við að samþykkja slíka umræðu? Í mínum huga er þessi hugmynd mjög vafasöm svo ekki sé meira sagt og mun eingöngu bitna á sjómönnum. Það eru sjómenn sem koma til með að þurfa að borga þetta viðbótargjald sem hv. þm. jafnaðarmannaflokksins eru að leggja til. Eru það þeir sem vilja auka álögur á sjómenn og útgerðarmenn með þessu móti? Ég er ekkert viss um að sjómenn muni þakka þeim sérstaklega fyrir það. Ég hef líka trú á því að allar grundvallarbreytingar sem hafa verið í umræðunni í tengslum við þetta, m.a. að bjóða allan fisk upp á einhverjum frjálsum markaði, séu eingöngu til þess að skapa algera ringulreið í íslenskum sjávarútvegi, sjávarútvegi sem er grundvöllurinn undir allri velferð þessarar þjóðar. Mér finnst þetta mjög ábyrgðarlaust hjal.