Veiðileyfagjald

Þriðjudaginn 15. október 1996, kl. 17:01:25 (354)

1996-10-15 17:01:25# 121. lþ. 8.7 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[17:01]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Ja, þá dansa mýsnar þegar kötturinn er ekki heima. Það hefði nú verið ráðlegra að hv. þm. léti meira bera á þessum málflutningi sínum á landsfundinum á meðan kötturinn var heima, en það er þó alltént ánægjulegt að vita það að svona eftir á eru ýmsir menn í Sjálfstfl. sem eru fylgjandi veiðileyfagjaldi þó að það liggi fyrir að þeir geti ekki kosið flokkinn sinn næst vegna þess að hann er algerlega á móti því.

Það er hins vegar alveg ljóst hjá hv. þm. og ég ætla að leiðrétta hann um það að veiðileyfagjaldið er ekki 134 millj. kr. Hann var rétt áðan að gefa okkur þær upplýsingar að í hans eigin kjördæmi hefðu menn á síðasta ári borgað 1 milljarð kr. í veiðileyfagjald, þ.e. borgað 1 milljarð kr. fyrir að kaupa sér aflaheimildir til að geta veitt. Það er veiðileyfagjald og ekkert smágjald. En munurinn er bara sá að samfélagið, eigandi þeirra auðlinda sem var verið að versla með, fær ekki eyrisvirði af því veiðileyfagjaldi og þetta er aðferðin sem menn nota í dag til þess að draga arðinn út úr sjávarútveginum. Menn sjá það best ef menn skoða rækjuiðnaðinn þar sem fyrir nokkrum árum var aðeins greitt um 8 kr. fyrir kg af rækju. Síðan fara rækjuveiðar og vinnsla að ganga betur vegna bættrar markaðsaðstöðu erlendis, þá hækkar verð á rækjukvótanum upp í tæplega 90 kr. á rúmum fjórum árum þannig að eftir stendur vinnslan án þess að njóta nokkurs af bættum hag. Þetta er veiðileyfagjald. Þannig draga menn arðinn út úr atvinnugreininni en það eru bara örfáir einstaklingar sem njóta hans en ekki þjóðarheildin sem á þessa sameiginlegu auðlind.

Sjómennirnir hjá hv. þm. borga milljarð í veiðileyfagjald en þeir borga hann til gróðapunganna í sjávarútveginum en ekki til sameiginlegra þarfa.