Veiðileyfagjald

Þriðjudaginn 15. október 1996, kl. 17:17:45 (359)

1996-10-15 17:17:45# 121. lþ. 8.7 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[17:17]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg laukrétt hjá hv. þm. Svavari Gestssyni að veiðileyfagjald og fiskveiðistjórnunarkerfi eru tvö aðskilin mál. Menn leysa ekki með veiðileyfagjaldi ýmis vandamál sem eru innan núverandi fiskveiðistjórnunarkerfis. Veiðileyfagjald er fyrst og fremst til að tryggja að þjóðarheildin fái einhvern arð af sameiginlegri auðlind sem afnotaréttur er skammtaður af til fárra. Fiskveiðistjórnun er hins vegar annað vandamál. Veiðileyfagjald getur gengið í hvaða tegund fiskveiðistjórnunar sem er. Það á jafn vel við um núverandi fiskveiðistjórnun og um t.d. nýja fiskveiðistjórnun með sóknarmarki eins og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hefur verið talsmaður fyrir. Það er hægt að nota veiðileyfagjald í báðum þessum tilvikum. Tilgangurinn með því er sá einn að tryggja að þjóðin njóti afraksturs auðlindarinnar.

Ég get því verið talsmaður veiðileyfagjalds á sama tíma og ég er andvígur núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi og er sammála mörgu því sem hv. þm. Svavar Gestsson sagði þ.e. að við ruglum ekki þessu tvennu saman, annars vegar fiskveiðistjórnuninni og hins vegar veiðileyfagjaldinu. Þá sé þegar grannt er skoðað meira sameiginlegt í sjónarmiðum okkar jafnaðarmanna og alþýðubandalagsmanna heldur en látið er í veðri vaka.