Veiðileyfagjald

Þriðjudaginn 15. október 1996, kl. 17:21:18 (361)

1996-10-15 17:21:18# 121. lþ. 8.7 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[17:21]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Við höfum aldrei haldið því fram, jafnaðarmenn, og ekki heldur formaður Alþfl. að veiðileyfagjaldið leysti af hólmi öll vandamál í stjórnun fiskveiða. Við vorum hins vegar fyrstir stjórnmálaflokka til að gera þetta að okkar baráttumáli. Fleiri og fleiri hafa verið að ganga til liðs við það sjónarmið en erfitt kann að vera fyrir menn að taka undir með sjónarmiði okkar alþýðuflokksmanna og jafnaðarmanna sem við vorum fyrstir með að reyna að túlka það einhvern veginn öðruvísi heldur en það sem við lögðum fram í upphafi, þ.e. að niðurstaðan sé sú að menn séu með einhverja aðra útfærslu heldur en kratarnir og það er ósköp skiljanlegt. En við höfum aldrei haldið því fram að við leystum öll vandamál fiskveiðistjórnunar með veiðileyfagjaldi. Það vita þeir m.a. sem hafa hlustað á mig vestur á fjörðum vera andvígan núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi en fylgjandi veiðileyfagjaldi.

Hv. þm. spyr líka um afstöðu mína sem landsbyggðarþingmanns. Hún er mjög einföld. Ég lít svo á að í dag greiði sjávarútvegsfyrirtækin og ekki þá síst fiskvinnslufyrirtækin miklar fjárhæðir í veiðileyfagjöld sem eru í kaupum aflaheimilda til að tryggja sér hráefni þannig að veiðileyfagjöld eru nú þegar greidd í mjög miklum mæli og þessi gjöld koma m.a. í veg fyrir að fiskvinnslufyrirtækin geti sýnt eðlilegan arð í starfsemi sinni og greitt eðlilegt kaup. Mitt sjónarmið er að þegar á annað borð er byrjað að greiða slík veiðileyfagjöld eins og verið er að innheimta í sjávarútvegi núna njóti þjóðin hlutdeildar í því gjaldi.