Veiðileyfagjald

Þriðjudaginn 15. október 1996, kl. 17:25:18 (363)

1996-10-15 17:25:18# 121. lþ. 8.7 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[17:25]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Svavar Gestsson sagði úr ræðustól áðan að það mætti ekki segja úr þessum sama ræðustóli að fiskstofnarnir væru ekki sameign íslensku þjóðarinnar. Ég er mjög sammála hv. þm. um þetta efni en hann vildi ekki tiltaka hvaðan þessi ummæli hefðu komið eða frá hverjum þannig að mig langar að upplýsa, ef það skyldi hafa farið fram hjá hv. þm., að á landsfundi Sjálfstfl. var ítrekað í ályktun að fiskstofnarnir væru sameign íslensku þjóðarinnar. Ég held að mér sé óhætt að segja fyrir hönd Sjálfstfl. að það sé engin spurning, enda samþykkt einróma á landsfundinum sem ályktun hans.

Það ákvæði hefur verið í lögum í mörg ár en eigi að síður alltaf jafnmikilvægt að menn geri sér grein fyrir að við erum að vinna með auðlind þjóðarinnar og hvernig henni er skipt. Ég held að eitt af þeim málum, sem koma til með að brenna á eða gætu hugsanlega brunnið á, og komið hefur fram í fjölmiðlum, er veðsetningarmál kvótans sem hafa einnig verið tengd þessu eignarhaldi kvótans. Mér hefur alltaf fundist mjög vafasamt hvernig það hefur verið túlkað í fjölmiðlum að í raun væri hægt að segja að fjármálakerfið mundi hrynja ef veðsetningar væru ekki heimilaðar samkvæmt lögum. Ég vil lýsa því yfir að mér finnst það mjög vafasöm túlkun að ekki sé hægt að nýta þær aðferðir sem hafa verið nothæfar hingað til hvernig útgerðarmenn og lánastofnanir hafa komið sér saman um að veðsetning fari fram. Það er mín skoðun að ef lög yrðu sett um veðsetningu kvótans eins og um hana hefur verið rætt, muni það veikja stöðu okkar um þessa sameign þjóðarinnar.