Veiðileyfagjald

Þriðjudaginn 15. október 1996, kl. 17:27:38 (364)

1996-10-15 17:27:38# 121. lþ. 8.7 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[17:27]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni Pálssyni fyrir hans orð varðandi sameignarákvæði. Mér finnst það mjög mikilvægt og ég var ekkert að tala sérstaklega um hann í þessu sambandi. Það sem ég var að tala um var málflutningur sem hefur verið nokkurn veginn svona: ,,Til þess að þetta verði öruggt með sameignina verður að leggja á veiðileyfagjald, annars er það ekki öruggt.`` Mér finnst þetta ekki rétt uppsetning mála. Ég er í raun og veru að tala um það. Ég tel að ekki þurfi veiðileyfagjald til að tryggja þessa sameign vegna þess að hún er skýr í lögunum eins og þau eru og líka í þeim praxís að við höfum verið að leggja gjaldið á. Hins vegar er ljóst að spillingin birtist í því að menn hafa getað tryggt sér aðgang að þessum auðlindum með sérstökum hætti, selt það og leigt og braskað með það. Það er nokkuð sem við alþýðubandalagsmenn höfum lagt fram skýrar tillögur, einir flokka, um hvernig á að koma í veg fyrir, þ.e. með því að afnema leigubraskið eins og það hefur verið tíðkað.

Hins vegar er athyglisvert og er kannski það alvarlega í íslenskum stjórnmálum í dag að Sjálfstfl., stærsti flokkur landsins, hefur lýst því yfir að hann vilji fyrir sitt leyti, með örfáum undantekningum, slá skjaldborg um algerlega óbreytt kerfi, algerlega óbreytt fiskveiðikerfi Þorsteins Pálssonar, hæstv. sjútvrh. Það er gríðarlega mikil yfirlýsing frá 1.700 manna fundi, sem ku hafa verið haldinn hér á dögunum.