Veiðileyfagjald

Þriðjudaginn 15. október 1996, kl. 17:48:50 (373)

1996-10-15 17:48:50# 121. lþ. 8.7 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[17:48]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sagði aflamarkskerfið ónýtt nema til að stjórna uppsjávarfiskum. Ég hrökk dálítið við þegar ég heyrði þetta þó það sé kannski ekki neitt nýtt að þetta sé skoðun hv. þm. enda hefur hann mælt fyrir sóknarstýringar- og flotakerfi sem hefur verið margreynt við Íslandsstrendur án mikils árangurs. Ég vildi bara koma því að að mér hefur alltaf fundist dálítið mikil þversögn í málflutningi hv. þingmanna sem vilja eitthvað allt öðruvísi kerfi en nú því á sama tíma og þeir eru að leggja til þetta sóknarstýringarkerfi leggja sömu þingmenn til að sóknarpottur sem var línutvöföldunarpotturinn yrði lagður inn í aflamarkskerfið. Ég áttaði mig aldrei á því hvers vegna það gat ekki gengið að hafa línupottinn sem var sóknarpottur ef það er besta leiðin til þess að stjórna veiðunum en þá væri bráðnauðsynlegt að slátra honum til að koma honum inn í aflamarkskerfið. Það var að mínu viti afskaplega merkileg niðurstaða sem ég hef rætt áður og vona að við getum rætt um síðar meir.

Ég er ekki alveg sammála því að kerfið muni hrynja ef framsalið verður tekið af. En ég er samt sammála þeirri meginstaðreynd að dínamíkin í þessu kerfi er framsalið þó svo að framsalið hafi ekki verið leyft í upphafi. Aflastýringarkerfið gekk alveg fyrstu árin án framsals, en þróunin eins og t.d. í átt til úthafsveiði og stækkunar skipaflotans til að mæta auknum kröfum byrjaði ekki að verulegu marki fyrr en framsalskerfið var leyft þannig að það þarf að mörgu að hyggja áður en við förum að afnema slíkt kerfi með öllu. Það er fyrst og fremst spurning um sjómennina og þátt þeirra í að kaupa aflaheimildir sem er kórrangt.