Þingsköp Alþingis

Miðvikudaginn 16. október 1996, kl. 13:37:26 (377)

1996-10-16 13:37:26# 121. lþ. 9.4 fundur 21. mál: #A þingsköp Alþingis# (rannsóknarvald þingnefnda) frv., Flm. JóhS
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur

[13:37]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis sem ég flyt ásamt hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni, Ágústi Einarssyni, Össuri Skarphéðinssyni og Ástu R. Jóhannesdóttur.

Með þessu frv. er lagt til að nefndum þingsins verði falið mjög víðtækt vald til að hafa frumkvæði að því að taka upp mál og sérstaklega áréttað í frumvarpsgreininni í því sambandi. Málið varðar framkvæmd laga og reglugerða, meðferð opinberra fjármuna og önnur mikilvæg mál er almenning varðar. Ef nefnd telur ríkar ástæður til getur hún átt frumkvæði að því að efna til sérstakrar rannsóknar um þessi mál sem fram fari fyrir opnum tjöldum. Auk þess eru í frv. mjög afdráttarlaus ákvæði um að nefnd geti heimtað skýrslur af embættismönnum, einstökum mönnum og lögaðilum.

Vissulega er óumdeilt að Alþingi hefur eftirlitshlutverki að gegna með framkvæmdarvaldinu sem segja má að áréttað sé og undirstrikað með lögum um umboðsmann Alþingis. Hlutverk hans er að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Þótt eftirlit þingsins með framkvæmdarvaldinu komi fram með ýmsum hætti í störfum þingsins, m.a. í fyrirspurnum til ráðherra, beiðnum um skýrslur um ýmis mál, er það að mati margra langt frá því að vera nægilega virkt eða markvisst. Veikleiki löggjafarvaldsins gagnvart framkvæmdarvaldinu, bæði varðandi lagasetninguna sjálfa, aukið framsal á valdi þingsins t.d. með reglugerðarákvæðum og síðan ómarkvisst eftirlit með framkvæmdarvaldinu, hefur orðið æ meira áberandi á undanförnum árum. Margir líta svo á að löggjafarvaldið sé að verða meira og meira framkvæmdarvaldsþing, stimpilpúði fyrir framkvæmdarvaldið er það stundum kallað. Þessi þróun er hættuleg og reyndar mjög alvarleg fyrir lýðræðið í landinu og telja má að þingræðið sé í hættu vegna þessa. Víst er líka að þessi þróun gengur gegn því sem haldið er fram í íslenskum stjórnskipunarrétti að Alþingi fari með veigamesta þátt ríkisvaldsins, sé valdamesta stofnun þjóðfélagsins og meginstoð stjórnskipunar. Ástæða er til að rifja upp af þessu tilefni ummæli forseta Íslands nú við þingsetningu Alþingis þar sem hann fór nokkrum orðum um nauðsyn þess að styrkja starfsnefndir þingsins og veita þjóðinni áheyrnarrétt að umræðum um mikilvæg mál. Orðrétt sagði forseti Íslands, með leyfi forseta:

,,Í öðru lagi hafa þjóðþing víða stigið skref í þá átt að styrkja starfsnefndir þingsins og efla getu þeirra til að vega og meta kröfur og álit ólíkra hagsmunaafla. Að nokkru hefur hér á landi á síðustu árum verið haldið inn á þessar brautir og er það vel. En vissulega kæmi til greina að veita þjóðinni allri einnig áheyrnarrétt að umræðum um mikilvægustu efnisþætti á vettvangi nefnda þingsins líkt og gert er víða í erlendum þjóðþingum.``

Virðulegi forseti. Ég held að þetta sé tímabær hvatning frá forseta Íslands. Ég held að við þurfum að skoða alvarlega hvort vægi starfa þingnefnda eigi ekki að vera meira í störfum þingsins en nú og að þingnefndir fái meiri tíma af störfum þingsins en nú er.

Mætti vel hugsa sér að reyna að skapa þeim rýmri tíma og nefni ég í því sambandi í fyrsta lagi varðandi endurflutning á eldri málum að þær gangi umræðulaust til nefnda til að skapa nefndunum rýmri tíma til mikilvægra starfa sinna.

Herra forseti. Á umliðnum árum hafa orðið ýmsar breytingar á störfum þingsins og margt verið gert til þess að auðvelda þingmönnum störf sín og gera störf þeirra skilvirkari. Þar má nefna breytta deildaskiptingu Alþingis þannig að nú starfar Alþingi í einni málstofu, breytingar á formi umræðu til þess að gera þær skilvirkari og líflegri og breytingar á starfsaðstöðu þingmanna í nefndastörfum þar sem sérstök nefndadeild og starfsmenn hennar eru nefndum til aðstoðar við meðferð og úrlausn mála svo nefndar séu þrjár þýðingarmiklar breytingar á störfum þingisins. Allt er þetta til mikilla bóta og til þess fallið að greiða fyrir þingstörfum og gera þau skilvirkari.

Árið 1991 var gerð viðamikil breyting á þingskapalögum, m.a. varðandi störf og starfshætti nefnda. Meðal annars kom þá inn sú breyting sem hér er gerð tillaga um að verði breytt. Núgildandi ákvæði, sem er að finna í 26. gr. þingskapa, kveður á um að heimilt sé nefnd að eigin frumkvæði að fjalla um önnur mál en þau sem þingið vísar til hennar og að um slík mál geti nefnd gefið þinginu skýrslu. Í skýringum með frv. á árinu 1991 kemur fram hver hugsunin að baki þessu ákvæði var og hvernig ætlast var til að því yrði beitt. En í skýringum kemur eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

,,Hér er m.a. haft í huga að nefnd geti, þegar þing er ekki að störfum að sumri, unnið að athugun tiltekinna mála sem gæti verið vísir að eftirliti fagnefndar með þeim stofnunum framkvæmdarvaldsins sem heyra undir málefnasvið nefndarinnar.``

Þó réttur nefnda til að taka upp mál að eigin frumkvæði komi ótvírætt fram í 26. gr. þingskapa er ákvæðið um margt óljóst og hvernig hægt er að beita því. Ljóst er að valdsvið þingnefndanna er mun umfangsmeira samkvæmt því frv. sem hér er lagt til og um leið líklegra til að verða mun virkara og hvetja meira þingnefndir til að sinna eftirlitshlutverki sínu gagnvart framkvæmdarvaldinu en ætlað var samkvæmt núgildandi ákvæði.

Eins og fram kemur í greinargerð með frv. eru stjfrv. að stærstum hluta samin af embættismönnum ráðuneyta eða sérfræðingum sem framkvæmdarvaldið kallar til. Þessir sömu embættismenn eru síðan iðulega ráðgjafar þingnefndar sem fjallar um málið sem þeir hafa samið og sitja þeir gjarnan yfir nefndinni við meðferð málsins.

Frumkvæði í lagasetningu hefur því smátt og smátt færst frá löggjafarvaldi til framkvæmdarvaldsins því að stærstum hluta eru það einungis frumvörp ríkisstjórna sem ná fram að ganga. Allt of mikið er líka um að löggjafarvaldið framselji vald sitt til framkvæmdarvaldsins með heimild til setningar reglugerðar án þess að Alþingi eða þingnefndir hafi nægjanlegt eftirlit með framkvæmdinni.

Ég tel að bæði innan og utan þings séu menn sammála um að skerpa þurfi skilin milli framkvæmdarvaldsins og löggjafarvalds og nauðsynlegt sé að leita leiða til að Alþingi verði virkara í því að sinna eftirlitsskyldu sinni gagnvart framkvæmdarvaldinu. Það sést m.a. á ýmsum þingmálum sem hér hafa verið flutt. Má þar nefna að ráðherra afsali sér þingmennsku, afnema heimild til setningar bráðabirgðalaga, endurskoða ákvæði um þingrofsrétt o.s.frv. Í umræðum nú í þessari viku um aukinn rétt fólks til þjóðaratkvæðagreiðslu kom einmitt fram hjá hv. þm. Svavari Gestssyni, og ég tel að þurfi að skoða, að það hlýtur að vera óeðlilegt að það sé forsrh. sem kalli saman þing og slíti því. Nefni ég hér nokkur dæmi sem sýna að þingmenn telja að skilin milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds þurfi að skerpa meira.

Síðan er nefnd hér sú leið fela fastanefnum þingsins mjög víðtækt umboð og rannsóknarvald í einstökum málum umfram það sem þær hafa nú þegar í 26. gr. þingskapa. Nefna má í því sambandi að mál svipað að efni til lagði Vilmundur Gylfason fyrir Alþingi árið 1981 en það náði ekki fram að ganga.

Segja má að efni og innihald þessa frv. um breytingar á þingsköpum sé að mörgu leyti svipað og 39. gr. stjórnarskrárinnar en þar er kveðið á um að Alþingi geti skipað nefndir til að rannsaka mikilvæg mál er almenning varðar.

[13:45]

Þetta ákvæði sem hér er mælt fyrir gengur þó lengra, m.a. vegna heimildar um að þingnefndir starfi fyrir opnum tjöldum. Ákvæði stjórnarskrár um þetta efni hefur þó reynst æðiþungt í vöfum. Eftir því sem ég kemst næst hefur slík tillaga einu sinni náð fram að ganga en það var á miðjum sjötta áratugnum þegar samþykkt var skipan nefndar á grundvelli 39. gr. stjórnarskrár til að rannsaka okur. Aðeins einu sinni hefur þetta ákvæði stjórnarskrár því verið virkt og Alþingi samþykkt að því skuli beitt þó að mörgum sinnum hafi verið látið reyna á það með þingmannamálum að fá slíka heimild á Alþingi vegna ýmissa mála sem þingmenn töldu að kölluðu á sérstaka rannsókn. Mér telst svo til að frá árunum 1960--1986 hafi með vísan í 39. gr. stjórnarskrár á þriðja tug þingmála verið lögð fram þar sem látið var reyna á þetta ákvæði stjórnarskrár en aðeins eitt af þeim málum náði fram að ganga. Ég tel ástæðu til að fara yfir um hvað þau mál hafa snúist þar sem þingmenn hafa viljað láta reyna á þetta ákvæði stjórnarskrár um sérstakt rannsóknarvald þingnefnda sem sýnir okkur að þingmenn hafi talið brýnt að slík ákvæði séu til staðar.

Í fyrsta lagi er um að ræða till. til þál. með vísan í 39. gr. stjórnarskrár til að rannsaka ráðningu framkvæmdastjóra Ríkisútvarpsins. Tillaga um að rannsaka vissar fjárreiður Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna og fleiri atvinnurekenda. Tillaga um rannsókn á viðskiptum fjmrn. við Axel Kristjánsson og Ásfjall hf. Tillaga um rannsókn á verðbréfa- og víxlakaupum banka og annarra lánastofnana sem kaupa verðbréf. Tillaga um skipan rannsóknarnefndar til rannsóknar á ásökun um trúnaðarbrot utanríkismálanefndarmanna. Um skipan rannsóknarnefndar vegna kaupa á Sjálfstæðishúsinu í Reykjavík. Tillaga um skipan rannsóknarnefndar til að rannsaka álmálið. Um rannsóknarnefnd vegna Búrfellsvirkjunar. Um rannsókn á aðdraganda verðstöðvunar. Um rannsókn á verðhækkunum. Um rannsókn vegna Landhelgisgæslu. Um skipan sérstakrar þingnefndar til þess að kanna gang og framkvæmd dómsmála. Um rannsóknarnefnd þingmanna til að kanna rekstur, fjárfestingar, erlend umsvif og stjórnmálaleg tengsl Sambands íslenskra samvinnufélaga og tengdra fyrirtækja með sérstöku tilliti til einokunaraðstöðu og markaðsdrottnunar þessara fyrirtækja. Um rannsóknarnefnd þingmanna til að kanna rekstur, fjárfestingar og fargjalda- og farmgjaldaákvarðanir Flugleiða og Eimskipafélagsins með sérstöku tilliti til einokunaraðstöðu og markaðsdrottnunar þessara fyrirtækja. Um skipan rannsóknarnefndar til að rannsaka afskipti ráðherra og embættismanna af rekstri ólöglegra útvarpsstöðva. Um skipan rannsóknarnefndar til að rannsaka afskipti Hafskips hf. og Útvegsbanka Íslands. Öll viðskipti Hafskips við innlend og erlend fyrirtæki og viðskipti annarra skuldugra stórfyrirtækja við ríkisbankana þrjá.

Hér eru nefnd nokkur af þeim málum sem þingmenn hafa á umliðnum árum og áratugum talið að kölluðu á sérstaka rannsókn og þeir hafa nýtt sér ákvæði 39. gr. stjórnarskrár um sérstaka rannsóknarnefnd en Alþingi hefur ekki fallist á það nema í einu tilviki að slík rannsókn fari fram. Hefði ákvæði sem hér er mælt fyrir verið til staðar hefðu þingnefndirnar sjálfar getað haft frumkvæði að því að taka upp þessi mál og rannsaka án sérstaks atbeina eða samþykkis Alþingis.

Hin síðari ár eða frá 1986 get ég ekki fundið að það hafi verið látið reyna á þetta ákvæði stjórnarskrárinnar og vel má vera að á því séu skýringar. Mér dettur í hug að í fyrsta lagi telji þingmenn til lítils að láta reyna á ákvæðið miðað við reynslu og hversu þungt það er í vöfum. Í annan stað er það Ríkisendurskoðun og stjórnsýsluúttekt hennar á ýmsum stofnunum sem hefur eftirlit með framkvæmdarvaldinu. Það er ástæða til þess að geta þess að í greinargerðinni kemur eftirfarandi fram varðandi Ríkisendurskoðun:

,,Í lögum nr. 12/1986, um ríkisendurskoðun, er kveðið á um að stofnunin skuli vera þingnefndum til aðstoðar við störf er varða fjárhagsmálefni ríkisins en jafnframt er skýrt tekið fram í lögunum að ríkisendurskoðandi njóti sjálfstæðis í starfi sínu.`` Ástæða er til að undirstrika að frumvarpi þessu er að sjálfsögðu ekki ætlað að breyta neinu varðandi stöðu og sjálfstæði Ríkisendurskoðunar. Af þessu er ljóst, sem ég hef getið varðandi 39. gr. stjórnarskrár, ef eftirlitshlutverk Alþingis á að vera virkt og koma að tilætluðu gagni að þá eru ákvæði stjórnarskár hvergi nægjanleg. Þessi breyting frá ákvæði stjórnarskrárinnar felur bæði í sér víðtækara valdsvið nefnda en gert er ráð fyrir í stjórnarskrá. Einnig að þær geti starfað fyrir opnum tjöldum og ekki síst felur það í sér að fastanefndirnar sjálfar hafi frumkvæði hvenær sem þeim þykir ástæða til til að taka upp mál sem talið er að þurfi sérstakrar rannsóknar við án þess að heimild þurfi fyrst að fá frá Alþingi til þess sem sýnir að er svo þungt í vöfum að það er nánast óvirkt. Ég tel ekki vafa á að með ákvæðinu yrði eftirlitshlutverk Alþingis með framkvæmdarvaldinu mun virkara en það er nú. Framkvæmdarvaldinu yrði sýnt mun meira aðhald sem er nauðsynlegt bæði með framkvæmd laga og reglugerða, þ.e. að rétt sé haldið á því valdi sem Alþingi framselur til framkvæmdarvaldsins sem út af fyrir sig er efni í sérstaka umræðu.

Við þekkjum það vel að æ meira færist í vöxt í lagasetningu að framselja vald, stundum á mjög umdeildum sviðum sem varða miklu fyrir almenning hvernig er útfært og framkvæmd með heimild löggjafarvaldsins til framkvæmdarvaldsins til setningu reglugerðar. Um þetta er sérstaklega getið í greinargerð með frv. og þar er einmitt sagt að búast megi við að þingnefndir kalli í auknum mæli eftir upplýsingum um setningu reglugerða áður en þær eru gefnar út, sérstaklega stærri reglugerða sem lúta ekki einungis að tæknilegum útfærslum, nái frv. þetta fram að ganga. Frv. varðandi þetta atriði tekur af allan vafa um það atriði þar sem unnt væri að binda lagaheimild til setningar reglugerðar að því skilyrði að samráð yrði haft við þingnefndir áður en reglugerð er gefin út.

Herra forseti. Ég sagði áðan að veikleiki löggjafarvaldsins gagnvart framkvæmdarvaldinu væri orðinn alvarlegt umhugsunarefni gagnvart lýðræðinu og þingræðinu í landinu. Því sterkari sem þingmeirihluti ríkisstjórnarinnar er því meira áberandi verða þessir veikleikar og vinnubrögð framkvæmdarvaldsins gagnvart þinginu eru líka oft mjög vafasöm og varla þinginu bjóðandi þegar framkvæmdarvaldið skammtar nánast löggjafarvaldinu lítinn sem engan tíma til að fjalla um stóra og mikla lagabálka sem oft gerist, ekki síst í tengslum við fjárlög. Þar fær þingið oft mál sem skipta sköpum um afkomu og tekjur fólks eins og stóra skattalagabálka eða ýmis stór mál sem snerta ríkisfjármál og framkvæmdarvaldið ætlar þinginu að keyra það í gegn, kannski á örfáum dögum. Við þessu þarf að bregðast miklu betur en nú er gert og beini ég því til forsætisnefndar þingsins að leita leiða til að koma í veg fyrir þessi vinnubrögð framkvæmdarvaldsins sem ég kalla yfirgang og virðingarleysi framkvæmdarvaldsins gagnvart löggjafarvaldinu.

Við sem höfum verið ráðherrar berum auðvitað okkar ábyrgð á þessari þróun og undan því víkur ekki sú sem hér stendur. En það breytir því ekki að þetta er vandamál sem þarf að taka á, vandamál sem er til staðar og á því verður að taka af meiri festu en hingað til hefur verið gert þó að ýmislegt hafi verið gert af hálfu forsetadæmisins í þinginu til þess að bregðast við þessu. Við skulum líka viðurkenna að hinir lýðræðislega kjörnu fulltrúar á löggjafarsamkomunni, jafnvel þó þeir séu þingmenn í stjórnarliðinu, ráða litlu um gang mála eða þá löggjöf sem sett er á Alþingi. Því sterkari sem þingmeirihlutinn er því minna ráða hinir óbreyttu þingmenn stjórnarliðsins. Stjórnarfrumvörpin eru samin af embættismönnum ráðuneytanna sem sveigja þá oft veiklundaða ráðherra til fylgis við sjónarmið sín. Sömu embættismenn eru síðan iðulega ráðgjafar þingnefndanna sem fjalla um málið sem þeir hafa samið og sitja gjarnan mestan ef ekki allan feril málsins yfir þingnefndinni. Í vinnu við málið taka stjórnarliðar í þingnefndinni síðan iðulega engar breytingar gildar nema þær hafi verið blessaðar af viðkomandi ráðherra sem oftar en ekki hlítir þar ráðgjöf sömu embættismanna sem sömdu frv. Þingmannafrumvörp eru síðan sjaldan eða aldrei afgreidd nema ráðherra og framkvæmdarvaldið hafi samþykkt framgang þeirra. Þannig má ætla að 80--90% af löggjöf Íslendinga sé verk embættismanna stjórnkerfisins, bæði frumvarpssmíðin sjálf og breytingar sem gerðar eru í meðförum Alþingis en ekki þeirra sem kosnir eru til að setja landinu lög. Eftir því sem ríkisstjórnin hefur fleiri þingmenn á bak við sig virðist þingið verða meira framkvæmdarvaldsþing þar sem ríkisstjórnin ræður öllu sem þar er samþykkt. Stjórnarskrá lýðveldisins um þrígreiningu valdsins í löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald færist æ meir í þá átt að verða stafurinn einn.

Það er alveg ljóst, virðulegi forseti, að þessi þróun gengur gegn þrígreiningu valdsins í íslensku þjóðfélagi og er orðin hættuleg lýðræðinu. Ég geri mér grein fyrir því að frumvarpið tekur ekki á þessu máli sem ég hef gert hér að umræðuefni. En við því væri hægt að bregðast með því að opna betur og meira en nú er gert aðgang þingmanna að sérfræðingum sem hægt væri að leita sérfræðiaðstoðar hjá við flókna frumvarpssmíð og að setja framkvæmdarvaldinu ákveðnari tímamörk varðandi framlagningu mála og að leita leiða til að koma í veg fyrir yfirgang og virðingarleysi þess gagnvart löggjafarsamkomunni. Ég er ekki að gera lítið úr því sem þegar hefur verið gert í málinu. Til dæmis varð gjörbreyting á starfsaðstöðu nefnda og þingmannanna í nefndadeildinni og starfsmönnum þingnefnda en það er alveg ljóst að það nægir ekki. Ekki síður væri hægt að snúast við þessari þróun með því að þingmannafrumvörp fengju aukið vægi í þinginu og eðlilegri málsmeðferð og umfjöllun í þingnefndum en þingmannafrumvörp mæta alltaf afgangi og fá sjaldnast þá málsmeðferð að um þau séu lýðræðislega greidd atkvæði á Alþingi. Málsmeðferðin er sú að framkvæmdarvaldið er látið ráða ferðinni og hvað það er sem afgreitt er héðan frá Alþingi því afgreiðslan er iðulega sú ef málin eru ekki svæfð í nefnd, sem algengast er, að þeim er vísað til skoðunar hjá framkvæmdarvaldinu, vísað til ríkisstjórnarinnar eins og það heitir á þingmáli. Spurningin er sú hvort ekki sé hægt að setja meiri ábyrgð á nefndirnar þannig að þeim bæri skylda til að afgreiða málin til endanlegrar afgreiðslu í þinginu í stað þess að svæfa þau og koma sér hjá að taka afstöðu til mála með því að vísa þeim til ríkisstjórnarinnar.

Ég nefndi áðan að til þess að þingnefndir fengju meira svigrúm til starfa sinna mætti skoða að ekki yrði mælt aftur fyrir máli við 1. umr. sem væri endurflutt heldur gengi það beint til nefndar og það mætti vel hugsa sér að setja starfsnefndum þann ramma að þau hefðu þá tvö þing til þess að afgreiða málin en bæri skylda til þess að afgreiða þau með einum eða öðrum hætti til þingsins. En það er allt of mikið um það varðandi hin almennu þingmál að þeim sé hreinlega vísað til ríkisstjórnarinnar ef þau eru á annað borð afgreidd.

Ég hvet til þess, virðulegi forseti, að þingmenn velti alvarlega fyrir sér þessari þróun og hvernig við er hægt að bregðast. Það er ekki síst skylda forsn. að skoða þetta sérstaklega og bregðast við og leggja fram tillögur og leiðir um hvernig hægt er að styrkja og skerpa skil löggjafarvaldsins gagnvart framkvæmdarvaldinu. Þó þetta frv. sem hér er til umræðu taki ekki á því máli sem ég var að lýsa þá er frv. þó bein afleiðing þessarar þróunar og viðleitni til að Alþingi styrki sig gagnvart framkvæmdarvaldinu sem hefur tekið við því hlutverki sem haldið hefur verið fram í stjórnskipunarrétti að Alþingi hafi, þ.e. að vera valdamesta stofnun þjóðfélagsins. Þannig hefur framkvæmdarvaldið tekið við því hlutverki sem Alþingi á að hafa og er framkvæmdarvaldið orðið valdamesta apparatið í þjóðfélaginu og Alþingi hreinlega orðið peð á skákborði þess. Þessar aðstæður gera þingmönnum ókleift að gegna skyldum sínum og vinna í þágu almannahagsmuna, þjóna fólki og gætar réttar þeirra gagnvart framkvæmdarvaldinu í samræmi við það vald sem þeim er trúað fyrir. Þessu verður að breyta og okkur þingmönnum ber skylda til að leita leiða til að snúa þessari þróun við, þróun sem þingið á líka sök á og hefur tekið þátt í með því að sætta sig við að frumkvæði að lagasetningu og sífellt auknum reglugerðarheimildum færist í sífellt meira mæli yfir til framkvæmdarvaldsins.

Herra forseti. Ég vænti þess að þetta mál sem fyrst og fremst felur í sér að auka aðhald og eftirlit með framkvæmdarvaldinu og að styrkja stöðu Alþingis gagnvart því fái málefnalega umræðu á hv. Alþingi og að þingnefnd sú sem fær málið til umfjöllunar skoði málið af fullri alvöru og afgreiði það þannig að þinginu gefist kostur á að taka afstöðu til þess og afgreiða á yfirstandandi þingi.

Ég ítreka að ég held að mikill vilji sé fyrir því á Alþingi, og það kom berlega fram í umræðunum á mánudaginn þar sem fjallað var um aukinn rétt fólks til þjóðaratkvæðagreiðslu, að fullur vilji sé fyrir því hjá þingmönnum að leita leiða til þess að skerpa meira skilin milli framkvæmdarvaldsins og löggjafarvaldsins og styrkja Alþingi gagnvart framkvæmdarvaldinu. Við sáum það t.d. á liðnu þingi, þó að þau mál fengju ekki mikla efnislega umfjöllun í nefnd, að ýmsar tillögur voru einmitt lagðar fram um breytingar á stjórnarskránni og stjórnskipunarlögum sem gengu í þá átt. Ég held að það sé nauðsynlegt að um þetta mál geti orðið ítarleg umræða á Alþingi og hvernig við skuli bregðast, bæði af forsætisnefnd og í þeirri nefnd sem fær þessi mál til umfjöllunar.

Ég legg að lokum til, virðulegi forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allshn.