Þingsköp Alþingis

Miðvikudaginn 16. október 1996, kl. 14:01:07 (378)

1996-10-16 14:01:07# 121. lþ. 9.4 fundur 21. mál: #A þingsköp Alþingis# (rannsóknarvald þingnefnda) frv., ÓE
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur

[14:01]

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta frv. við 1. umr. Í núgildandi þingskapalögum er nefnd heimilt að eigin frumkvæði að fjalla um önnur mál en þau sem þingið vísar til hennar og getur gefið þinginu skýrslu um slík mál. Í fyrri málsgrein þessa frv. er bætt inn orðinu ,,rannsaka``, ekki bara fjalla um heldur líka að rannsaka önnur mál og tekið nánar fram um hvers konar mál nefnd getur haft frumkvæði um umfjöllun og rannsókn.

2. mgr. frv. er hins vegar um það að halda slíka nefndarfundi fyrir opnum tjöldum, að krefjast gagna sem málið varða, heimta skýrslur eins og hv. 1. flm. hefur rakið. Þessar hugmyndir hafa svo sem áður komið fram á Alþingi en ekki hlotið samþykki. Mér sýnist sjálfsagt að ræða þessar hugmyndir nú í sambandi við afgreiðslu frv. Ég vil hins vegar taka fram að heildarendurskoðun þingskapa stendur nú yfir og hefur svo sem staðið yfir nokkuð lengi á vettvangi núverandi forsn. og þinflokksformanna og einnig á vettvangi forsn. og þingflokksformanna á síðari hluta síðasta kjörtímabils. Þetta frv. er auðvitað innlegg í þessa umræðu alla. Ég vara hins vegar við því að taka veigamikinn þátt um þingnefndir út úr og afgreiða hann núna. Það er ljóst að við endurskoðun þingskapa kemur til greina að breyta fjölmörgu sem lýtur að starfsháttum Alþingis og ekki síst fastanefnda þingsins og skynsamlegast er að allar slíkar breytingar verði afgreiddar samhliða.

Spurningin um valdsvið fastanefnda er vissulega eitt þeirra atriða sem þarf að ræða sérstaklega og er rætt einmitt við endurskoðun þingskapanna. Kjarni frv. er að efla eftirlit og aðhaldshlutverk þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu. Þennan þátt í störfum þingsins má vissulega styrkja og ég tel raunar að ýmsar breytingar megi gera innan ramma núverandi þingskapalaga og að því höfum við verið að vinna. En það hafa verið skiptar skoðanir um það hversu mikið rannsóknarvald fastanefndir þingsins eigi að hafa. Hugmyndir frv. um að fastanefndir fái sjálfstætt rannsóknarvald í líkingu við ákvæði 39. gr. stjórnarskrárinnar um rannsóknarnefndir hafa oftar en einu sinni komið fram en aldrei náð fram að ganga einmitt vegna þess að um það hefur verið verulegur ágreiningur milli þingmanna. Einn angi af þessum ágreiningi sést í þeirri staðreynd sem hv. 1. flm. rakti, hversu sjaldan hefur verið samþykkt að stofna til rannsóknarnefnda á grundvelli 39. gr. stjórnarskrárinnar. Ef ég hef réttar upplýsingar, þá er það fimm sinnum sem slíkar nefndir hafa verið samþykktar og síðast árið 1956 eins og hv. 1. flm. nefndi. Ég held að þetta sýni að þingmenn hafa viljað fara mjög varlega í að setja á fót pólitískar rannsóknarnefndir. Um það snýst ágreiningurinn.

Það er mikilvægt að menn horfi ekki fram hjá þeirri staðreynd að fastanefndir þingsins hafa síðan 1991 haft til muna sterkari stöðu til að sinna eftirlitshlutverki sínu en áratugina þar á undan þó þær hafi ekki haft rannsóknarvald í anda 39. gr. stjórnarskrárinnar. Með þingskapalagabreytingunum 1991 var kveðið á um í 26. gr. þingskapa að fastanefndum væri heimilt að eigin frumkvæði að fjalla um önnur mál en þau sem þingið vísar til þeirra og að nefndirnar gætu jafnframt gefið þinginu skýrslu um niðurstöður þeirrar umfjöllunar.

Í grg. með þingskapalagafrv. 1991 kemur skýrt fram að þetta nýja vald þingnefnda sé hugsað sem vísir að eftirliti fagnefndar með þeim stofnunum framkvæmdarvaldsins sem heyra undir málefnasvið nefndarinnar. Það hefur í reynd færst í aukana að þingnefndir noti þennan rétt sinn samkvæmt 26. gr. Í auknum mæli hafa því önnur mál en þingmál verið á dagskrá þingnefnda. Á fundi nefndanna hafa mætt þeir aðilar sem nefnd hefur óskað eftir að gæfu upplýsingar.

Mér finnst vera spurning hvort ekki sé rétt að fastanefndirnar þrói frekar framkvæmd þessa tiltölulega unga ákvæðis í 26. gr. þingskapa áður en frekari breytingar verða gerðar með lagabreytingu á valdsviði nefndanna. En þetta þarf sjálfsagt að ræða.

Að öðru leyti vil ég ítreka það sem ég sagði áðan að veigamiklar breytingar á starfsháttum nefndanna verði teknar með í heildarendurskoðun þingskapa.

Ég vil hins vegar gera athugasemd við það sem segir í grg. með frv. Þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

,,Á undanförnum árum hafa hins vegar komið berlega í ljós veikleikar löggjafarvaldsins gagnvart framkvæmdarvaldinu þar sem Alþingi er að verða æ meira framkvæmdarvaldsþing.`` Framkvæmdarvaldsþing. Við vitum að sjálfsögðu við hvað er átt þótt ekki sé það skýrt frekar út í greinargerðinni. Mér finnst þetta vera einhver klisja sem er ofnotuð nú í seinni tíð og ég held að hún eigi ekki við rök að styðjast. Mér finnst það vera rangt að klifa á því að þingið sé einhver samkoma sem setji bara stimpil sinn á mál sem ríkisstjórnin kemur með hverju sinni. Þetta heyrist allt of oft. Menn eru að tala um að ríkisstjórn hverju sinni ráði öllu í þinginu og það fari ekkert hér í gegn nema það sem ríkisstjórn á hverjum tíma er þóknanlegt. Ég lít á þetta sem ýkjur og ég vara við því að þingmenn séu að klifa á þessu sí og æ.

Ég hef setið nokkuð lengi á þingi og ég er alveg sannfærður um að það hefur orðið veruleg breyting á þessu nú á síðustu árum, veruleg breyting. Eins og hv. 1. flm. nefndi varð mjög veruleg breyting á allri vinnuaðstöðu nefndanna þegar nefndadeildin var sett á fót og sérstakt hæft starfsfólk ráðið til þess að vinna með þingnefndum. Það er alveg rétt sem hv. þm. sagði. Það varð grundvallarbreyting þá. Ég man þá tíð þegar ráðgjafar þingnefnda komu eingöngu úr ráðuneytunum, frá þeim sömu ráðuneytum og sendu frumvörpin til þingsins. Þetta er sem betur fer liðin tíð vegna þess að þingið hefur nú á að skipa hæfu starfsfólki til þess að sinna þessum störfum með þingnefndunum. Það breytir hins vegar ekki þeirri staðreynd að það starf þarf enn að efla. Það er ég sannfærður um og raunar alla aðstöðu nefndanna. Ég bið menn bara um að rifja það upp með sjálfum sér hversu miklum breytingum ýmis stjórnarfrumvörp hafa tekið í meðförum þingsins og þarf ekki að fara nema til síðasta þings til þess að rifja það upp. Mörg hin veigamestu mál sem fyrir síðasta þing voru lögð tóku verulegum breytingum einmitt í meðförum Alþingis, í meðförum þingnefndanna sem þau voru send til. Og það er auðvitað viðfangsefni Alþingis að fara sem vandlegast yfir þau frv. sem því berast, hvort heldur um er að ræða stjórnarfrumvörp eða þingmannafrumvörp.

Ég held líka að það sé í sjálfu sér ekkert athugavert við það eins og mér finnst koma fram líka í greinargerðinni, að verulegt frumkvæði í lagasetningu komi frá framkvæmdarvaldinu, að frumkvæðið sé að mestu hjá framkvæmdarvaldinu. Ég veit ekki hvort það er hægt að ætlast til þess af þingmönnum að þeir semji og útfæri í smáatriðum hina flóknustu lagasetningu. Vissulega leggja margir þingmenn vinnu í það að flytja mjög vönduð frv., það er gert. Og þau eiga vissulega skilið, ég vil segja, eðlilega meðferð á Alþingi. En til þess eru sérfræðingar framkvæmdarvaldsins, einmitt að undirbúa lagasetningu sem handhafar framkvæmdarvaldsins telja sig þurfa að fá í gegnum þingið. Það er síðan þingsins að fara sem vandlegast yfir það. Og þingmenn eiga auðvitað að hafa aðstöðu til þess að leggja pólitískt mat á frumvörpin og það er þingmanna að ákveða hvort þessi frv. eiga að verða að lögum eða ekki og þá eftir atvikum með einhverjum breytingum. Vald þingsins felst einmitt í því að hafa lokaorðin um hvert og eitt frv. sem til kasta þingsins kemur.

Mér finnst heldur ekkert óeðlilegt við það að stærstur hluti samþykktra frumvarpa séu stjórnarfrumvörp. Yfirleitt eru þetta veigamestu frv. sem Alþingi fjallar um hverju sinni. Ég held að hlutur þingmanna sé nefnilega ekki eins lítill og menn vilja stundum vera láta. Hann er ekkert lítill. Mér telst til að á undanförnum árum hafi að jafnaði um það bil 15% allra samþykktra frumvarpa verið þingmannamál og mér finnst það ekkert lítill hluti og engin ástæða til þess að gera minna úr því en efni standa til. Þetta vil ég taka alveg sérstaklega fram.

Hv. 1. flm. nefndi ýmis önnur atriði sem til bóta horfa í þingskapalögum og gætu orðið til þess að gera allt starf þingsins skilvirkara. Ég ætla ekki að fara út í það hér og nú vegna þess að það er út af fyrir sig ekki efni þessa frv. en er efni heildarendurskoðunarinnar sem stendur núna yfir. Eitt sem hv. 1. flm. nefndi var að nefndir fengju rýmri tíma til starfa. Ég tek undir það og er algerlega sammála því að það beri að leggja áherslu á að nefndir fái rýmri tíma til starfa. Og við gerum eina tilraun einmitt núna í starfsáætlun þingsins eins og hv. þingmenn hafa vonandi tekið eftir. Við gerum eina tilraun eimitt til þess að bæta úr þessu með því að hafa tvær vikur á þingtímanum eingöngu fyrir nefndastörf. Við leggjum líka áherslu á að það verði farið eftir þeirri ákvörðun í starfsáætluninni að reglulegu nefndastarfi ljúki um það bil hálfum mánuði áður en þingi skuli frestað í vor, til þess einmitt að þingfundir verði ekki truflaðir síðustu 2--3 vikurnar af nefndastörfum eins og gerðist mjög áberandi á síðasta þingi. Við eigum að geta séð við þessu innan ramma núgildandi þingskapa.

Eitt sem hv. 1. flm. nefndi og ég vil líka taka undir að við þurfum að athuga mjög vel, var um endurflutning mála. Það höfum við einmitt rætt í sambandi við endurskoðun þingskapanna. Það hefur komið upp sú hugmynd að mál lifi alveg til loka kjörtímabils. Það er ein hugmynd sem er uppi. Ég hef efasemdir um að við eigum að stíga það stórt skref, en vil að við ræðum það mál alveg í botn. En það kemur vel til greina að endurflutt mál fái aðra meðferð, fari beint til nefndar eins og ég held að hv. þm. hafi nefnt. Við þekkjum það í þingsköpum annarra þjóðþinga, sumra hverra, að mál fara einmitt án nokkurrar umræðu til nefnda. Það er líka regla sem mér sýnist rétt að við ræðum, alla vega að möguleiki sé á því. Ef þingmaður sem flytur slíkt mál eða ráðherra óskar eftir því eigi að vera heimild til þess í þingsköpum. Það mundi spara mikinn tíma.

[14:15]

Það er dálítið merkilegt sem kemur í ljós þegar við athugum hvernig tíma þingsins var varið á síðasta þingi. 1. umr. máls tekur um það bil 40% af þingtímanum og þó eru þar takmarkanir á ræðutíma en ekki við 2. og 3. umr. Það segir dálitla sögu og það eru ekki síst ráðherrarnir sem taka upp mestan hluta þessa tíma þegar þeir eru að tala fyrir sínum málum. Þetta er eitt af mörgu sem auðvitað kemur til athugunar í þessu öllu saman.

Ég vil líka taka undir það með hv. þm. að þingmenn eiga í sjálfu sér ekki að una því þegar þeir hafa lagt mikla vinnu í frumvörp og talað fyrir þeim við 1. umr. og þeim er vísað til nefndar að ekkert gerist fyrr en alveg undir lok þingsins. Ég er ósáttur við það og tel ekkert ofverk þingnefndanna að taka þessi mál til afgreiðslu. Afgreiðsla er út af fyrir sig að koma með tillögu um að vísa frv. til ríkisstjórnar. Það er afgreiðsla út af fyrir sig en hún getur alveg eins komið á miðjum vetri eins og síðustu daga þingsins þannig að ég er sammála hv. þm. að menn eiga rétt á að fá afgreiðslu sinna mála jafnvel þó að það sé tillaga um að þeim skuli vísað til ríkisstjórnar eða þau skuli felld. Undir þetta tek ég.

Aðeins í lokin. Ég tel eitt af brýnustu verkefnunum í sambandi við störf þingnefndanna, fastanefnda þingsins, að þeim verði búin betri starfsaðstaða. Ég hef nefnt það áður og get ítrekað það hér. Sú aðstaða sem þeim flestum er búin er þinginu eiginlega til vansæmdar og er ég að tala þar um fundaaðstöðuna. Hún er nánast þannig að ekki er hægt að bjóða gestum til funda við þingnefndir. Forsætisnefndin hefur fullan hug á að reyna að bæta úr þessu en auðvitað er takmörkunum háð hvað hægt er að gera miðað við núverandi húsakost en það verður alla vega reynt.

Ég þarf ekki að hafa fleiri orð um þetta. Eins og ég sagði áðan er frv. auðvitað innlegg í þá umræðu sem á sér stað um heildarendurskoðun þingskapa.