Þingsköp Alþingis

Miðvikudaginn 16. október 1996, kl. 14:18:28 (379)

1996-10-16 14:18:28# 121. lþ. 9.4 fundur 21. mál: #A þingsköp Alþingis# (rannsóknarvald þingnefnda) frv., Flm. JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur

[14:18]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. síðasta ræðumanni og forseta þingsins fyrir hans innlegg í málið sem ég tel mjög mikilvægt. Ég þakka einnig fyrir undirtektir hans við ýmislegt af því sem fram kom í mínu máli. Ég lít svo á að síðasti ræðumaður og forseti þingsins telji mjög mikilvægt að auka valdsvið fastanefnda þótt hann sé ef til vill ekki sammála þeirri leið sem lögð er til. Hann mótmælti henni alls ekki. Hv. síðasti ræðumaður talaði um að þróa frekar ákvæði 26. gr. og hugsanlega að þetta sé skoðað í samhengi við heildarendurskoðun þingskapalaga. Allt er þetta gott og gilt en ég held þó að ákvæði 26. gr. sé mjög óljóst og óskýrt hvernig hægt er að beita því og það kemur alls ekki í staðinn fyrir 39. gr. stjórnarskrárinnar. Það er líka óskýrt að því leyti að einungis er heimild með vísan í 28. gr. að óska eftir skýrslum, munnlegum eða skriflegum. Ákvæði 39. gr. stjórnarskrárinnar um það, sem hér er mælt fyrir, er miklu skýrar um að hægt sé að fá skýrslur og einnig, eins og forseti Íslands beindi til þingheims, að þingnefndir starfi fyrir opnum tjöldum varðandi ákveðin mál sem skipta miklu fyrir almannaheill. Allt þetta þarf að skoða en ég tel að ákvæði 26. gr. sé hvergi nægilegt.

Hv. síðasti ræðumaður nefndi framkvæmdarvaldsþing. Um það er hægt að hafa ítarlegt mál og fjallaði ég reyndar um það í framsögu minni áðan. Þetta er ekkert annað í mínum huga en framkvæmdarvaldsþing eins og framkvæmdarvaldið og ríkisstjórnin kemur fram gagnvart þinginu þó ég geti vel tekið undir að ýmislegt hafi breyst.

Ég vil líka nefna að nauðsynlegt er við endurskoðun þingskapalaga að ráðherrar geti yfir sumartímann svarað fyrirspurnum sem þingmenn telja nauðsynlegt að beina til þeirra meðan þing er ekki starfandi og jafnvel að hægt sé að leggja fyrir þá beiðni um skýrslu.