Þingsköp Alþingis

Miðvikudaginn 16. október 1996, kl. 14:26:35 (383)

1996-10-16 14:26:35# 121. lþ. 9.4 fundur 21. mál: #A þingsköp Alþingis# (rannsóknarvald þingnefnda) frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur

[14:26]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins segja fyrst í sambandi við orðaskiptin að undanförnu að ég er alveg sammála því að hrammur framkvæmdarvaldsins sést hérna býsna mikið. Ég ætla að rifja upp eitt atvik sem ég sé anda mínum nær. Það er þegar frv. um fjárreiður ríkissjóðs var alveg að verða að lögum í vor og búið að fara í gegnum tvær umræður og vera í meðferð á Alþingi í mörg kjörtímabil. Upphaflega var það mjög slæmt frv. að mínu mati en það kemur ekki þessu máli við. Því var svo breytt smátt og smátt og að lokum var þetta alveg sæmilegt plagg. Staðan er þannig núna að allir þingmenn eru í raun sammála frv. eins og það leit út í fyrra nema einn, tel ég vera. Hann situr yfirleitt þarna, hæstv. fjmrh. Málið var stoppað og ég tel að hinn kaldi hrammur framkvæmdarvaldsins hafi stoppað málið og tekið þannig fram fyrir hendurnar á þingræðinu. Ég held að nauðsynlegt sé fyrir okkur að horfast í augu við það þó hitt sé alveg rétt hjá hæstv. forseta Alþingis að þessir hlutir hafa lagast og breyst talsvert mikið. Nefndirnar verða stöðugt sjálfstæðari. Stjórnarþingmennirnir verða stöðugt sjálfstæðari sem er mikilvægt að hafa í huga. Það er þrátt fyrir allt þannig. Ég tala nú ekki um stjórnarandstöðuþingmennina sem verða sjálfstæðir líka. En stjórnarþingmennirnir leyfa sér af og til að hafa skoðun á einu og einu máli sem er mikil framför.

Ég held að ógæfa okkar liggi annars vegar í því að framkvæmdarvaldið hafi enn þá allt of sterka stöðu og við þurfum að hugsa hvernig á að bæta úr. Staða þingsins hefur ekki lagast eftir að við urðum aðilar að Evrópusambandsferlinu, þessari EES-rennibraut. Ég man ekki hvað komu mörg frumvörp inn í fyrra sem við urðum bara að stimpla. Það er þannig og við viðurkennum öll að það sé þannig. Það er veruleiki sem er óþægilegur fyrir Alþingi að horfast í augu við --- að þurfa að taka svona mál annars staðar að án þess að frumkvæðið verði til í þessari stofnun. Þeir sem studdu EES-aðildina á sínum tíma hafa verið fáorðir um það af einhverjum ástæðum. Mér finnst það skrýtið. Mér finnst að þeir eigi að taka þátt í að ræða málið og horfast í augu við þennan vanda. (KÁ: Formaður Sjálfstfl. ... ) Reyndar er það maður sem ræðir mjög margt á landsfundi en þeim mun minna úr þessum ræðustól eins og kunnugt er.

Vandi þessa þings, Alþingis Íslendinga, t.d. í samanburði við þingin á Norðurlöndum, er augljós. Hann er sá að hér er hefð fyrir meirihlutastjórnum eingöngu. Á Norðurlöndum hafa tíðkast minnihlutastjórnir þar sem stjórnirnar hafa orðið að semja sig í gegnum alls konar mál út og suður. Ég segi fullum fetum að þar af leiðandi, t.d. í danska þinginu, er virkara lýðræði eða þingræði heldur en hér. Það er þannig. Ef við lítum yfir sögu norska þingsins og hvernig núverandi stjórn Noregs hefur komið málum þar í gegnum þingið hefur hún gert það með samningum í báðar áttir eða allar áttir eftir atvikum og hefur því verið háðari þinginu heldur en meirihlutavaldið er t.d. í þessari stofnun. Það er mjög þung hefð fyrir valdi meiri hlutans hér í þinginu og hún er mjög erfið. Hún er erfið fyrir þingmennina, fyrir forsætisnefndina, fyrir forseta Alþingis og hún er erfið í raun og veru fyrir alla aðila. Við þurfum að hafa í huga að þessi hefð er vond að þessu leytinu til þó að hún hafi kosti að öðru leyti.

[14:30]

Síðan ætla ég að segja almennt um þetta líka að ég óttast það dálítið að umræðan hneigist inn í þá átt að gera þessa samkomu enn þá leiðinlegri en hún var og er þá langt til jafnað. Ég óttast að menn séu að tala um þegar verið er að búa til brtt. við þingsköpin að þessi stofnun eigi að vera eitthvert náttúrulaust, dauðyflislegt færiband tæknimanna sem gera aldrei neitt annað en það sem er fyrirsjáanlegt. Hugmyndir eru ekki af neinu tagi nýjar heldur eru menn í að afgreiða og vinna við að stimpla og afgreiða eftir einhverjum reglum og færiböndum, stífum reglum. Ég vil ekki svoleiðis þing. Svoleiðis þing eru ekki skemmtileg og ég verð að viðurkenna að þinginu hefur farið aftur eftir að deildaskiptingin var afnumin, eftir að neðri deild var lögð niður eins og við orðum það sem vorum í efri deild. Mér finnst þessu hafa farið aftur vegna þess að það er ekki eins vel farið yfir mál og áður.

Þá kem ég að fyrsta efnisatriðinu varðandi þingsköpin sem ég ætla að nefna hér núna. Ég held að við þurfum að íhuga að núna fer bara ein nefnd yfir hvert mál. Áður fóru tvær nefndir yfir öll mál, þ.e. lagafrumvörp. Þetta er mikil breyting og verður til þess að þingið í heild vandar sig ekki eins og það gerði áður enda koma hér upp nokkrum dögum eftir að þinginu lýkur á hverju einasta vori svoleiðis löðrandi vitleysurnar í alls konar frumvörpum, sem hafa þó verið til meðferðar í þingnefndum og menn þykjast hafa lúslesið, sem verður svo að breyta um haustið eða með bráðabirgðalögum fljótlega eftir að þinginu lýkur. Þetta er svona. Lagasetningin er ekki eins vönduð og hún var af þeim ástæðum að það er bara einn aðili, ein nefnd sem fer yfir málið. Þetta finnst mér að við eigum að skoða í fyrsta lagi varðandi breytingar.

Af því að þetta mál er rætt hér ætla ég að nefna nokkrar breytingahugmyndir um þingsköpin aðrar en þær sem alltaf eru nefndar. Ég ætla líka að segja það að í öllum þingflokkunum eru miklar umræður um breytingar á þingsköpum og mér finnst nauðsynlegt að halda því til haga og spyrja: Er ætlunin að farvegur þeirra breytinga verði vinna í forsætisnefnd og á vegum formanna þingflokkanna eða er ætlast til að við flytjum öll þessi mál hér sem frumvörp? Mér finnst mikilvægt að menn taki umræðu um það í þingflokkunum hvernig þeir ætla að meðhöndla þessa hluti því að við erum með fullt af hugmyndum í öllum flokkum.

Ég ætla að víkja að nokkrum breytingaatriðum sem mér finnst nauðsynlegt að ræða almennt í tengslum við breytingar á þingsköpum fyrir utan það sem oft er rætt. Það fyrsta er reyndar þekkt úr mínum munni og það er meðferð ríkisreiknings í þessari stofnun sem er engin samkvæmt þingsköpum. Það er til skammar. Við þurfum að setja inn í þingsköpin ákvæði um það hvernig á að fara með ríkisreikning, skýrslu Ríkisendurskoðunar og skýrslu umboðsmanns Alþingis. Menn hafa séð skýrslu umboðsmanns Alþingis. Hún hefur verið lögð á borð þingmanna allra síðustu daga. Hún er eitthvað á annað kíló, býst ég við.

Er einhver meðferð á þessari skýrslu efnislega lið fyrir lið á Alþingi? Nei, því miður. Það er stutt umræða einu sinni, en ekki er farið í gegnum málið til að kanna hverju þarf að breyta í vinnubrögðum okkar til að koma til móts við þau sjónarmið sem umboðsmaður Alþingis er með að svo miklu leyti sem við viljum breyta þeim. Umboðsmaður Alþingis er ekki dómari, við þurfum ekki að hlýða öllu sem hann segir. En margt er þannig að við þurfum að skoða það. Þess vegna finnst mér mikilvægt að sérnefnd varðandi ríkisreikninginn verði til um skýrslu umboðsmanns og stjórnarskrána. Þetta gæti verið sama nefnd að mínu mati og mér finnst að alltaf eigi að vera til nefnd sem er að fjalla um stjórnarskrána. Það eigi að vera ein af fastanefndum Alþingis, það sé alltaf verið að fjalla um stjórnarskrána. Ef það koma upp þingmál þá eigi að skoða þau og það eigi að vinna í þeim. Þessi lausanefnd, sem við höfum kosið um stjórnarskrána á undanförnum þingum, hefur mjög lítið unnið og hún hefur ýtt málunum til hliðar af því að það hefur ekki verið pólitískur vilji til að afgreiða þau af ýmsum ástæðum og sjálfsagt eru oft eðlilegar ástæður fyrir því. En mér finnst að svona nefnd ætti að vera til.

Í öðru lagi er nýtt atriði sem ég hef að minnsta kosti ekki heyrt nefnt úr þessum ræðustól og það er að setja í þingsköpin ákvæði um að festa þinglokadaginn. Að í þingsköpunum sé ákvæði sem gerir beinlínis ráð fyrir því að tilkynning forseta Alþingis um þinglokadaginn sé óumbreytanleg nema gerð sé um það ný samþykkt og sem lúti strangari undantekningarskilyrðum en afbrigði yfirleitt. Þetta væri allt önnur staða fyrir þingið gagnvart framkvæmdarvaldinu ef það stæði svo að segja í lögum að forsetinn ákveði þennan dag, segjum 20. maí eða eitthvað því um líkt. Það yrði allt önnur staða fyrir forsetann eftir það að verja þingið fyrir öllum sköflunum af stjórnarfrumvörpunum sem koma alltaf inn á síðustu dögunum. Þetta er ákvæði er mjög skýrt í dönsku þingsköpunum og það er þar fyrst og fremst vegna þess að þar hafa menn útilokað framkvæmdarvaldið frá því að fresta þinginu eða kalla það saman og það er eitt af því sem þarf að breyta, en það er stjórnarskrárákvæði. Það á auðvitað að taka út, að það þurfi atbeina framkvæmdarvaldsins til að kalla Alþingi saman eða til að fresta Alþingi. Það er algerlega fráleitt. Það er búið að taka það út fyrir löngu í stjórnarskrám ríkjanna í kringum okkar og við eigum að gera það líka.

Í þriðja lagi ætla ég að víkja að ræðutíma sem er viðkvæmt mál og það er mál sem við eigum að fara yfir. Mér finnst gagnrýni stjórnarmeirihlutans oft og tíðum á stjórnarandstæðinga fyrir langar ræður ósanngjörn. Mér finnst hún yfirleitt ósanngjörn og ég vísa henni á bug vegna þess að þessar ræður eru oft og tíðum eini möguleikinn sem við höfum til þess að hafa áhrif á málið sjálft eða almenna meðferð þingmála yfirleitt. Meðan meiri hlutinn kemur ekki með tillögur um það hvernig þingið geti komið málunum öðruvísi í farveg og tryggt aðild stjórnarandstöðunnar er gagnrýnin um langan ræðutíma markleysa. Ég tel koma til greina að setja um þetta reglur. Það er skoðun mín. Ég tel koma til greina að setja um þetta reglur sem eru t.d. þannig að hver þingmaður getur talað takmarkaðan hámarkstíma við hverja umræðu en menn geti notað hann eins oft og þeim sýnist þannig að fjöldi á ræðum verði ekki takmarkaður heldur heildartíminn sem menn geta notað. Af hverju er þessi hugmynd uppi? Fyrst og fremst vegna þess að með þessu móti held ég að yfirbragðið á þinginu verði líflegra en vill verða þegar menn flytja langar ræður sem eru samt sem áður yfirleitt mjög góðar ræður eins og allir vita, flestallar mjög góðar.

Í fjórða lagi ætla ég svo að víkja að frestun þingfunda sem ég nefndi reyndar áðan. Ég held að við þurfum að hafa þar auga á því að breyta stjórnarskránni að því er það varðar. Í fimmta lagi ætla ég að nefna afgreiðslu þingmáls sem hæstv. forseti minntist á áðan og ég tek alveg undir það sem hann sagði í þeim efnum. Það þarf að tryggja að öll mál fái einhverja afgreiðslu. Það getur verið nefnd sem afgreiðir málið fyrir sitt leyti, eða hvað? Það þarf að vera einhver afgreiðsla með öllum þingmálum í þinginu.

Í sjötta lagi finnst mér að það þurfi að íhuga hvort hægt sé að koma við einhverju ferli sem er þannig að þingmenn séu ekki að flytja sömu þingmálin hver í kapp við annan, a.m.k. á sama þinginu. Ég tek eftir því að ótrúlega lík frumvörp koma fram frá þingmönnum þessa dagana. Mér finnst dálítið aulalegt að hlutirnir séu þannig að a.m.k. tveir þingmenn hvor í sínum flokknum flytja eiginlega alveg sama þingmálið sem er þó betra en ef það væru tveir þingmenn í sama flokknum sem væri náttúrlega það versta. Á ekki að vera einhver aðstaða hjá forseta til þess að athuga málið, ræða við þingmanninn hvort hann gæti hugsað sér að gera þetta öðruvísi, kannski flytja málið sem síðar kemur fram sem breytingartillögu við fyrra málið? Mér finnst engin reisn yfir því, hvorki hjá Alþingi né þeim þingmönnum sem flytja málin yfirleitt ef menn flytja sömu málin aftur og aftur á sama þingi.

Í sjöunda lagi ætla ég að nefna aðeins fastanefndirnar. Mér finnst það í sjálfu sér ágætt kerfi og ég er sammála hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur um að þær þurfa að hafa meira vald. Það hefur alltaf verið skoðun mín og þess vegna hef ég einhvern tíma fyrr staðið að flutningi þingmála sem eru nokkurn veginn alveg eins og það mál sem hér liggur fyrir. En ég velti fyrir mér hvort fastanefndakerfið sé ekki óþarflega fast og hvort ekki kæmi til greina að virða það fyrir sér að í sumum þingum er ekki til neitt fastanefndakerfi. Þar eru bara kosnar lausanefndir eftir málum. Í breska þinginu er ekkert fastanefndakerfi. Þar er svo að segja eingöngu lausanefndarkerfi en ég er ekki að tala um það að menn fari alveg yfir í það. En ég held að oft og tíðum lendum við í dálitlum vandræðum með þingmál vegna þess að við erum of stíf á þessu fastanefndakerfi og ég ætla að nefna dæmi.

Ég tel t.d. að í vor hafi hv. efh.- og viðskn., með mikilli virðingu fyrir öllum þeim góðu mönnum sem þar sitja, haft allt of mörg mál. Það hefði verið betra fyrir þingið að hægt hefði verið að kjósa fleiri nefndir til þess að fjalla um eitthvað af þeim málum sem þangað fóru. Það er spurning hvort hægt er að opna fyrir það í þingsköpum að það kerfi verði tekið upp eða þegar sérstaklega stendur á eða þegar nefndir eru með mikið af málum eða eitthvað því um líkt, að hugsanlegt sé að kjósa aðra eða fleiri nefndir til að fjalla um sérstök frumvörp, annaðhvort einstök frumvörp eða nokkur frumvörp saman.

Núverandi fyrirkomulag í þessu efni þar sem allt of miklu er yfirleitt hrúgað á hverja einustu vori á hv. efh.- og viðskn. er ekki gott enda kemur það fyrir, svo ég segi ekki meira, að það þarf að laga eitt og eitt mál sem frá henni kemur og verður að lögum í þessari stofnun.

Svo er það að lokum það, hæstv. forseti, sem mig langaði til að nefna og ég hef satt að segja hugsað dálítið um að undanförnu og kannski ekki síst í gær. Þingsköp Alþingis gera ekki ráð fyrir því að gerðar séu samþykktir um stefnumótun. Þingsköp Alþingis gera bara ráð fyrir því að samþykktar séu þingsályktanir um ,,konkretatriði``, einstök atriði, og að það séu samþykkt lög. Í norska þinginu er samþykkt stefnumótun, t.d. í skólamálum, ,,Stortingsmelding``. Þar er lögð fyrir stefnumótunartillaga í skólamálum þar sem allt er talið upp sem þarf að fara yfir í skólamálum sem snertir stjórnvöld á öllum stigum. Hér er ekki gert ráð fyrir neinu slíku. Aldrei er talað um almenna stefnumótun og ég tel t.d. að tillagan um veiðileyfagjald, sem var til umræðu í gær, sé fyrst og fremst tillaga um almenna stefnumótun og ætti frekar heima undir slíkum ramma í þingsköpunum en undir þeim venjulega þingsályktunartillöguramma eða lagafrumvarpsramma sem við höfum. Þetta finnst mér að við eigum að skoða. Mér finnst að þetta sé eitt af því sem við eigum að breyta í þingsköpunum, ef við breytum þeim eitthvað á næstunni, að opna fyrir stefnumótunarumræður um mál, stefnu stjórnvalda að því er varðar þróun vísinda og rannsókna svo ég nefni dæmi, stefnu stjórnvalda að því er varðar fiskveiðar, fiskveiðistjórn, stefnu stjórnvalda að því er varðar skattamál. Ég held að hin pólitíska umræða á Íslandi yrði miklu betri ef menn reyndu að ná svona utan um hlutina í staðinn fyrir að reyna að breyta þessari stofnun stöðugt í eitthvert ,,paragraffainstitut`` þar sem menn eru yfirleitt heppnir að afgreiða hlutina nákvæmlega svo ég segi ekki meira.

Þetta vildi ég nefna, hæstv. forseti, um leið og ég tek undir orð hv. 1. þm. Reykn. Mér finnst gott ef þessi mál gætu verið á vettvangi formanna þingflokkanna og forsætisnefndarinnar. Mér finnst samt að við ættum að setja okkur að breyta þessum hlutum. Ef það er erfitt að breyta þeim og láta þá taka gildi núna í vetur eða næsta vetur þá mætti hugsa sér að láta eitthvað af þessu taka gildi frá og með næsta kjörtímabili. Það hróflar þá örugglega ekki við neinum sem hér er núna, a.m.k. ekki í dag, þótt það gæti hróflað við honum ef hann yrði endurkosinn. En vandinn er oft sá að við breyta þingsköpunum að menn sjá kannski að þeir sjálfir yrðu fluttir milli stóla. Þetta hefur því tekið lengri tíma en þurft hefði.