Þingsköp Alþingis

Miðvikudaginn 16. október 1996, kl. 15:02:46 (385)

1996-10-16 15:02:46# 121. lþ. 9.4 fundur 21. mál: #A þingsköp Alþingis# (rannsóknarvald þingnefnda) frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur

[15:02]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Það hefur þegar margt áhugavert komið fram í þessari umræðu og ég ætla að grípa boltann þar sem hv. 8. þm. Reykv., Svavar Gestsson, lét hann frá sér, um meirihlutavaldið, þó að það sé vissulega ekki beinlínis til umræðu hér en þessi tillaga vekur upp hugrenningar sem ágætt er að sleppa lausum við slíka umræðu. Það var nefnt hversu þessi hefð okkar fyrir meirihlutastjórnum væri e.t.v. til þess fallin að gera þingið leiðinlegt. Það má nefna Noreg og þá hefð sem þar viðgengst um minnihlutastjórnir. Auðvitað er það svo að minnihlutastjórnir kalla á mjög öflugt samráð við aðra flokka og oft einn eða fleiri þingmenn sem ganga þá til samstarfs við stjórnarflokkinn um að hleypa máli fram eða tryggja málum framgang. Hvort það er meirihlutavaldið eða það að við höfum breytt þinginu í eina málstofu sem gerir þingið leiðinlegra ætla ég ekki að reyna að kryfja til mergjar. En við hljótum að sjá að þingið hefur verið að þróast mjög á liðnum árum í nýja átt. Það eru ár frá ári færri og færri sem fylgjast með málum í dagsins önn og þar t.d. kemur til sú góða þjónusta sem við höfum fengið að geta verið að fylgjast með umræðum á skrifstofum okkar ásamt því að vera að sinna öðrum brýnum verkefnum ef við ætlum ekki að taka þátt í nákvæmlega því máli sem er á dagskrá. Þetta gerir það að verkum að það eru færri í þingsalnum eftir því sem við gerum þjónustuna betri og eftir því sem færri eru að taka þátt í umræðum hverju sinni þá virkar þetta dauðyflislegra svo ég noti nú ekki mjög fallegt orð.

Varðandi það hvernig var að vera með bæði efri og neðri deild þá minni ég nú á að það var mjög þungt þegar var verið að mæla fyrir málum í báðum deildum og þau voru að ganga fram og til baka, ekki bara frá neðri deild til efri deildar til að vera lokið þar heldur ef því var breytt í efri deild þá þurfti það að koma til baka aftur. Og það var mjög oft líka sem mál brunnu inni við þessa yfirferð þannig að á þeim tíma má líka minna á ef menn ætluðu að fylgjast með því sem var að gerast þá urðu þeir að vera í salnum. Það eru því margar hliðar á þessu. Ný spurning vaknar --- eiga þingflokksformenn að vera að vinna með það sem snýr að þingsköpunum eða á að koma með þær breytingar í frumvarpsformi eins og hér er og Svavar Gestsson vakti einmitt máls á? Ég er alveg sammála honum um það og hef tekið þátt í því að vinna með breytingar á þingsköpum með forseta vorum og það er mjög brýnt að það sé haldið áfram með þá vinnu. En ég er ekki sammála því að það eigi að vera annaðhvort eða. Alls ekki. Og ég held að þessi tillaga sem hér er sett fram sé svo stórt mál að það sé mjög áhugavert fyrir okkur að fá skoðanaskipti um hana.

Aðeins af því að nefndirnar bárust hér í tal og tínt til ýmislegt sem við þyrftum að skoða varðandi þingnefndir þá ætla í upphafi máls míns að dvelja við það. Álag á þingnefndir er mjög misjafnt. Sumar þingnefndir eru að drukkna í störfum yfir veturinn, aðrar eru með svo fá verkefni að það eru jafnvel felldir niður fundir. Þetta er eitt af því sem við höfum rætt og við verðum að skoða hvernig við tökum á. Hvort við skiptum upp verkefnum nefnda eða sláum öðrum saman o.s.frv. Og þetta hefur verið rætt núna undangengið eitt eða tvö ár án þess að niðurstaða sé komin í málið. Annað sem er umhugsunarefni er að nefnd hefur kannski verið að fjalla um stórt mál, og þegar ég segi stórt mál þá er það gjarnan stjórnarfrumvarp, og málið er kannski komið á mjög mikinn rekspöl jafnvel svo til á enda þó það náist ekki að ljúka umfjöllun í nefnd þegar þingi er að ljúka að vori, þá má alveg skoða það hvort nefnd ætti ekki að geta ákveðið með auknum meiri hluta að halda áfram vinnu í nefndinni og afgreiða frv. strax á nýju þingi. Að það þurfi ekki að vera annaðhvort þannig að ráðherra flytji mál alltaf aftur að hausti eða þá að mál sé flutt einu sinni og haldi áfram í nefnd þangað til það annaðhvort sofnar svefninum langa algjörlega eða fær afgreiðslu. Að þetta gæti t.d. verið millileið. Því auðvitað erum við að þróa okkur áfram í þingstörfunum.

Varðandi það frv. sem hér er til umræðu þá tel ég að það þurfi ekki að óttast þó að þessi heimild sem frv. kveður á um sé opnuð í þingsköpunum. Við erum hér á Alþingi að taka upp mál og leiðin sem við höfum til þess ef við flytjum ekki þingmál, er að biðja um utandagskrárumræðu, stutta, snarpa eða lengri, eftir því hvernig við metum málið. Og við erum oft með til umræðu mál sem eru deilur um úti í þjóðfélaginu eða fjölmiðlar hafa beint kastljósi sínu að og niðurstaða slíkrar utandagskrárumræðu er oft mjög ófullnægjandi. Það er vegna þess m.a. að það er hægt að vera með takmarkað af gögnum í slíkri umræðu og umfjöllunin verður fremur yfirborðsleg og er kannski fremur til þess fallin að draga umræðu sem er úti í þjóðfélaginu eða hefur verið varpað ljósi á af fjölmiðlum inn á Alþingi, en við skiljum mjög oft við málið eftir utandagskrárumræðu óleyst. Það er staðreynd sem við verðum að horfast í augu við. Þess vegna held ég að það sé mjög mikilvægt að það sé einhver farvegur til að fara í alvarlega skoðun á máli. Ég sé það fyrir mér að nefnd ákveði að kanna mál fyrir opnum tjöldum nema nefndin ákveði annað og ég vek athygli á því að það er einmitt 2. mgr. frv. Þar er ekki verið að ákveða að það verði og skuli alltaf og eingöngu vera unnið fyrir opnum tjöldum. Það eru kallaðir til þeir aðilar sem geta gefið faglegar og nauðsynlegar upplýsingar sem varpa ljósi á málið. Og það er aflað gagna til þess að reyna að átta sig á eðli málsins og kryfja það til mergjar. Þá eru líka til tvær leiðir: Við skulum gefa okkur það að nefndin hafi ákveðið að hafa þessa vinnu nefndarinnar fyrir opnum tjöldum, gagnaöflunina, að kalla til aðila sem gefa upplýsingar, og þarna er beinlínis upplýsingaöflun ekki skoðanaskipti þingmanna í nefndinni heldur upplýsingaöflun og gagnaöflun. Það má hugsa sér að mál sé þess eðlis að þetta sé sú opnun sem er látin nægja í viðkomandi máli. Síðan færi nefndin í skoðanaskipti innbyrðis og umfjöllun um þessar upplýsingar sem fram komu og vinnuskýrslu sem hún skilar til þingsins. Þá geta aðrir, og aðrir væru að sjálfsögðu fjölmiðlar eða utanaðkomandi sem hafa fylgst með þessu máli, lagt mat á hvernig nefndin vann úr upplýsingunum. Í öðru tilfelli væri líka hægt að hugsa sér það að störf nefndarinnar væru alveg opin, þ.e. gagnaöflunin, upplýsingarnar, hlustunin ef ég nota það orð sem er þá eðlilega eins konar þýðing, hlustunin á þeim einstaklingum sem mæta á fund nefndarinnar og síðan skýrslan, að allt sé opið. Og svo síðan að nefnd geti ákveðið að rannsaka mál lokað, sé málið þess eðlis að nefndin telji það rétt. Það er mjög mikilvægt þegar við erum að fjalla um þessi mál og ótta fólks við það að fara inn á þessa braut og opna nefndirnar að nefnd er skipuð fulltrúum allra þingflokka þó að sjálfsögðu stjórnarflokkar eigi alltaf meiri hluta í þeim svo að meira að segja þarna séu, eins og stundum er orðað hér, stjórnarflokkarnir með valdið. Mér finnst mjög mikilvægt að við reynum að átta okkur á því að það getur verið ólíkur farvegur fyrir hin ýmsu mál. Að það þarf ekki að hugsa sér að hin opna umfjöllun sé alltaf eins við öll tækifæri. Þetta finnst mér mjög mikilvægt inn í umræðuna.

Varðandi það sem hér hefur borið á góma hvort þingið sé framkvæmdarvaldsþing, þá hefur átt sér stað mikil umræða milli þingflokksformanna og forseta um störf og ásýnd þingsins. Og ég vil gefa forseta Alþingis þá einkunn að honum hefur verið mjög í mun og hann er kappsamur um að Alþingi haldi virðingu sinni og að ásýnd þingsins sé góð og hann hefur lagt sig fram um að eiga gott samstarf við þingflokksformenn og þingflokkana um þetta. Hins vegar þegar við erum að ræða það hvort þingið sé framkvæmdarvaldsþing þá erum við að reyna að meta vægi mála sem þingmenn flytja versus ríkisstjórnir, vægi mála sem þingmenn flytja og svo mál ríkisstjórnarinnar.

Það má segja og ég tek undir það með forseta að þingmannamál komast nokkuð vel á dagskrá og það hefur lagast mjög mikið. En við skulum skoða dagskrána í dag. Ef við lítum á hana sjáum við að þau stjórnarfrumvörp sem þar eru á dagskrá hafa mun hærri málanúmer en þau þingmannamál sem eru á dagskrá. Á því geta auðvitað verið skýringar en ef við hugsum til baka til liðinna þinga þá er þetta eitt af því sem blasir við og ég hef oft nefnt það á fundum hjá forseta að það skilur í milli hægt og sígandi eftir því sem líður á haust og vetur í númerum á þingmálunum. Og þar komum við að einni spurningu: Á að vera eitthvert vægi í því hvenær mál eru lögð fram? Á alltaf að leggja áherslu á að blanda stjórnarfrumvörpum og þingmannamálum þannig að það sé óháð því hvort stjórnarþingmálin eru nýrri? Þetta er eitt af því sem við verðum að ræða og ekki vera með neina sleggjudóma um. En hvernig eigum við að mæla þingmannamál annars vegar og svo hið afgerandi afl sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa? Hvað er aflið? Eru það þingmennirnir allir saman? Eða eru það stjórnarþingmenn og stjórnarandstaða? Stjórnarliðarnir mynda meiri hlutann á Alþingi og að því leyti er ljóst að því lýðræðislega marki er náð að mál eru eftir umræðu afgreidd með meirihlutaniðurstöðu. Það er í raun og veru lýðræðisskýringin að mál sem á að afgreiða fái málefnalega umfjöllun. Það sé ekki valdboð á því að það sé hægt að koma öllum sjónarmiðum til skila. Það sé fjallað um mál og þau séu afgreidd með meirihlutaniðurstöðu. Það er alveg ljóst að þetta gerist. Hvað er það þá sem við erum oft að tala um með þingmannamálin? Jú, það er t.d. að það er þungt undir fæti að fá þingmannamál afgreidd og þá er ég ekkert að gera mun á málum stjórnarliða eða stjórnarandstæðinga. Og ég hef yfirleitt fullyrt að það er ekkert auðveldara fyrir stjórnarliða að koma sínum málum í gegn heldur en aðra þingmenn. Það er alla vega ekki reynsla mín. Eins og hér hefur komið fram er leitað eftir því í raun og veru í nefndunum hvort bein andstaða sé við það að þingmannamál fáist afgreidd og við vitum að það er oft þannig að ef á að afgreiða þau er þeim e.t.v. vísað til ríkisstjórnar sem er ófullnægjandi afgreiðsla fyrir margan þingmann. Við flytjum mörg mjög góð mál, þau sofna oft í nefnd eða, eins og ég sagði, er e.t.v. vísað til ríkisstjórnar. Örfá eru samþykkt og það eru þá helst ályktanir Alþingis sem þingmenn hafa borið fram um að framkvæmdarvaldið skuli hrinda í framkvæmd einhverju tilteknu máli. Við verðum afskaplega glöð þegar við höfum fengið slíkt mál afgreitt, en sú gleði reynist oft skammvinn vegna þess að það er undir hælinn lagt hvernig slíkri ályktun er svo hrint í framkvæmd.

[15:15]

Ég minnist þess þegar ég, nýliði hér á Alþingi, flutti mjög gott mál, mál sem mér hefur oft fundist að væri besta mál sem ég hef komið með í þennan ræðustól, um að það skuli taka upp kennslu í fjármálaumsýslu í skólum, að það skuli kenna ungmennum þegar í skóla hvað það þýðir að verða fullveðja, hvað það þýðir að verða fjárráða, hvað það þýðir að stofna heimili, hvað það þýðir að vera með kortin, hvernig menn gera áætlanir um fjármál sín og hvernig menn reyna að standa við þær. Þessi tillaga var samþykkt með miklum meiri hluta á Alþingi og ég var ákaflega stolt. Henni hefur aldrei verið hrint í framkvæmd. Ég hef nokkrum sinnum komið með fyrirspurnir um hvað líði framkvæmd tillögunnar og það er sagt: Í þessari og þessari grein hefur verið reynt að koma þessu máli inn. Þessir og þessir bankar hafa tekið samvinnu upp við grunnskólana um að vera með ákveðna fræðslu, bjóða upp á námskeið. Alþingi ályktaði að þetta væri mikilvægt mál, en það komst aldrei sína leið. Mér hefur dottið í hug að flytja það aftur og vita hvað mundi gerast, nákvæmlega sama málið. Kannski geri ég það.

Ég vek athygli á því að málin sem við fáum oft samþykkt eru ályktanir sem e.t.v. sofna líka þar sem þeim var ætlað að komast til framkvæmdar.

Það er hins vegar ástæða til þess, virðulegi forseti, að vekja sérstaka athygli á því hve mörg mál sem koma fyrir þingið og eru rædd hér, oft í einhverri spennu, eru síðan afgreidd samhljóða eftir starf í nefnd. Forseti kom inn á þetta. Það er alveg ótrúlegt hve mörg mál á vetri hverjum eru samþykkt samhljóða á Alþingi eftir vinnu í nefnd, þau hafa tekið breytingum, enda hafa þingmenn í nefndum þingsins lagt sig fram um faglega vinnu, jafnt stjórnarandstöðuþingmenn sem aðrir, og eiga oft þátt í því að mál hefur tekið stakkaskiptum og að þeirra mati verið breytt til betri vegar og þeir standa að málinu á eftir.

Við þingflokksformenn höfum átt gott samstarf við forseta um þingsköp og breytingar á þinghaldi, en nefndirnar hafa verið nokkuð utan við þá umræðu þar til forseti hefur gert þá breytingu að taka tillit til nefndavinnunnar í starfs\-áætlun þingsins sem er mjög til fyrirmyndar. Einnig er aðstaða og þjónusta við nefndirnar miklu betri en fyrir nokkrum árum, en fundirnir eru lokaðir. Fundirnir eru lokaðir og ég held að það sé ekkert gott. Mér hefur fundist spennandi og hef oft tekið þátt í umræðu um það hér í þessum lokuðu hópum þar sem við ræðum þau mál að opna nefndafundi meira. Þeir sem leggjast gegn því telja m.a. að þeir sem kvaddir yrðu á fund nefndar mundu síður tjá sig og koma með minna af upplýsingum og vera ófrjálsari í upplýsingagjöf og svo jafnframt að umræðan á milli þingmanna í nefnd gæti eitthvað liðið fyrir það að nefndafundir væru opnaðir. Nefndirnar eru afar stór þáttur í störfum þingsins og afar bæði þungur og mikilvægur þáttur í starfsdegi þingmanns og mynd af þeim störfum er mjög takmörkuð úti í þjóðfélaginu. Margir gera sér enga grein fyrir því hvað felst í því að starfa í nefndum þingsins. Mjög margir eru þeir sem telja að þegar þingmenn eru að vinna í einhverri nefnd sé það einhver af þessum launuðu nefndum sem þeir fá peninga fyrir til viðbótar við þinglaunin sín og þess vegna er ástæða til að minna á það enn og aftur að nefndastörfin og öll önnur störf sem þingmaðurinn vinnur eru launuð með þingmannslaununum og engu öðru nema þegar þingmaður fer til starfa í nefnd fyrir framkvæmdarvaldið. Það er allt annar hlutur. En það er mjög brýnt fyrir Alþingi að rétt og skýr mynd af löggjafarstarfseminni nái til þjóðarinnar. Þess vegna finnst mér þessi umræða góð og þess vegna finnst mér að við eigum að vera óhræddari við að opna á nýjungar. Þess vegna væri mjög áhugavert að opna sem fyrst nefndir að einhverju leyti. Það má gera það í áföngum. Nefnd gæti auglýst dagskrá með málum sem hún ætlar að kalla aðila á fund út af og sú hlustun er opin fyrir fjölmiðlum. Skoðanaskipti þingmanna um álit og upplýsingar sem fram koma gætu hins vegar verið í nefndinni fyrir luktum dyrum meðan við erum að venjast því að nefndafundir séu jafnopnir og umræða okkar hér á Alþingi er í dag. Ég tel þetta góða leið til að byrja að opna nefndarfundi auk þess sem þessi leið varpar góðu ljósi á umræðu um kosti og galla viðkomandi lagasetningar sem unnið er með.

Fyrir marga hljómar umræðan okkar í Alþingi sem ólíkar staðhæfingar og átök þegar verst lætur og það væri gott að fá þessa umræðu. Það er hollt fyrir þingflokksformennina að fá opna umræðu um mál sem við höfum rætt, en ekki leitt til lykta um þingsköpin.

Aðeins varðandi framkvæmdarvaldið og sérfræðinga sem fylgja máli inni í nefnd og hafa áður unnið með málið, einn punktur í viðbót. Þingmenn eru í auknum mæli að leiða nefndastarf hjá framkvæmdarvaldinu, fylgja málinu inn á Alþingi og jafnvel inn í nefndina þar sem þeir sitja hugsanlega sem formenn. Það er líka einn punktur enn. En þetta mál hér er mjög gott mál sem ég held að við eigum að skoða vel.