Þingsköp Alþingis

Miðvikudaginn 16. október 1996, kl. 15:23:39 (386)

1996-10-16 15:23:39# 121. lþ. 9.4 fundur 21. mál: #A þingsköp Alþingis# (rannsóknarvald þingnefnda) frv., KPál
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur

[15:23]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Mér finnst mjög athyglisverð þessi umræða um breytingar á þingsköpum Alþingis og hefur fundist fróðlegt að hlusta á reynda þingmenn lýsa skoðunum sínum á því hvað mætti betur fara. Mig langaði aðeins í örstuttu máli að lýsa þeim áhrifum sem skipulagið hafði á mig þegar ég kom inn sem þingmaður fyrir rétt rúmu ári síðan og fór að taka þátt í nefndastarfi og störfum í gegnum þingið almennt.

Ég kom á þing með þá tilfinningu að hér þýddi lítið að vera að malda í móinn og nefndastarfið væri nánast ein halelúja-samkoma sem væri einungis í takt við vilja ráðherra og þeirra boð og bönn væru algild. Ég verð að segja það eins og er að þingið, þingræðið og þingræðishefðin hér hefur virkað á mig eins og hún sé mun sterkari heldur en fólk hefur almennt á tilfinningunni í landinu.

Það kom mér verulega á óvart með ýmis mál sem hafa farið í gegnum þingnefndir að sjá hvernig hefur verið hægt að breyta verulega miklum og flóknum lagabálkum í þingnefnd, eins og t.d. félmn. þar sem frv. um stéttarfélög og vinnudeilur var gersamlega kollvarpað frá því sem upphaflega var lagt fram á þinginu og miðað við það sem út úr þingnefndinni kom. Þar starfaði að mínu áliti saman meiri og minni hluti að því að breyta frv. í þá átt sem báðir aðilar höfðu áhuga á. Ég tek fram að nefndin var ekki samhljóða en aftur á móti vann hún mjög vel saman í þessu máli. Meirihlutaálitið var endanlega afgreitt út úr nefndinni en þetta var unnið þannig að báðir aðilar, bæði meiri og minni hluti í nefndinni unnu málið nánast saman allan tímann.

Ég hef orðið var við það í mörgum öðrum málum að áhrif minni hlutans í þingnefndum eru gríðarlega mikil og ekkert minni heldur en oft hjá meirihlutaaðilum þannig að ég var mjög ánægður með það sem ég upplifði á þessu þingi.

Ég fór til Bretlands í sumar til þess að kynna mér störf breska þingsins og hvernig þeir vinna þingmál í gegnum breska þingið. Þau kynni sem ég hafði af þessu ferli þar voru á þann veg að ég varð enn ánægðari með okkar hlut en áður. Staðreyndin er sú að í breska þinginu er yfirleitt ekki breytt einu einasta orði í frumvörpum frá ríkisstjórninni í gegnum þingnefndir og í gegnum þingið yfir höfuð. Það er litið á það sem hreina árás á viðkomandi ráðherra að þingið sé á einhvern hátt að reyna að breyta því sem þaðan kemur. Það getur jafnvel þýtt það að viðkomandi ráðherra þarf að segja af sér.

Í breska þinginu eru fastar nefndir sem fara í gegnum málin á mjög svipaðan hátt og við gerum, en þar er meirihlutavaldið algert og samkomulag milli formanns nefndar og ráðherra og meiri hlutans þá um leið í nefndinni að málinu verði hleypt í gegnum nefndina eins og það var lagt fram á þinginu þannig að að þessu leyti er breska þingið mun fastara hvað það varðar að hlýða framkvæmdarvaldinu meðan Alþingi hefur leyft sér mun sjálfstæðari vinnubrögð. Reyndar eru í breska þinginu alls konar rannsóknarnefndir sem taka að sér að fara yfir ýmis mál og þær skila áliti sem er oft gagnrýni á bresku ríkisstjórnina en þær nefndir starfa oft fyrir opnum tjöldum. En þó svo að Alþingi Íslendinga sé að mörgu leyti mjög sterkt og haldi vel utan um þingræðið, þá má eflaust bæta þar um að ýmsu leyti og hygg ég að þeir sem eru vanari þingstörfum en ég munu finna þar betri lausnir. Ég er mjög ánægður með þær breytingar sem hafa orðið á þessu frá því ég kom inn fyrir rúmu ári síðan eins og þær eru túlkaðar af hæstv. forseta Alþingis, hv. 1. þm. Reykn., en að mínu viti er mjög gott að stofnanir eins og Alþingi séu íhaldssamar og allar breytingar gerðar með mikilli sátt og með hægum og öruggum skrefum. Ég tel samt að óhætt sé að fara út í frekari sjálfstæði nefnda í þeim anda sem mér finnst vera í frv., að það sé leyfilegt að fara út í rannsóknir. Við vorum í fyrra í félmn. að kanna t.d. ýmsan ágreining sem kom upp í sambandi við Brunamálastofnun ríkisins. Mér finnst að í því tilfelli hefði verið eðlilegt að hafa það að einhverju leyti fyrir opnum tjöldum þar sem ekki var beinlínis um málefni að ræða sem kom beint frá framkvæmdarvaldinu, heldur nefndin tók upp hjá sjálfri sér að skoða.

[15:30]

Ég held aftur á móti að það að opna nefndafundina fyrir almenningi sé ekki til þess að auka virkni nefndarmanna í nefndunum sjálfum. Ég er hræddur um að sá skilningur sem mér finnst vera í nefndunum á því að minni hluti eða hver einstakur nefndarmaður geti haft þau áhrif sem honum finnst hverju sinni, að þau áhrif muni minnka vegna þess ákvarðanir fyrir niðurstöðum úr nefndinni munu þá verða teknar annars staðar af meiri hlutanum. Ég er því hræddur um að það gæti haft öfug áhrif þó svo ég taki undir það að rannsóknarþáttur einstakra nefnda mætti vel vera áhrifameiri og sýna að þingmenn vildu meira frjálsræði og meira vægi gagnvart framkvæmdarvaldinu. Ég tek því ekki beinlínis undir það að Alþingi Íslendinga sé framkvæmdarvaldsþing ef ég miða við þjóðþing sem ég hef sérstaklega kannað.

Ég lít svo á að það sé gott ef væri hægt að aðstoða þingmenn meira í gagnaöflun og við rannsóknir sem þeir hefðu hug á. Mér skilst að það hafi batnað mjög mikið á undanförnum árum hve aðstoð við þingmenn er orðin mun meiri en hefur verið, en eigi að síður standa þingmenn mjög einir í því að rannsaka ýmislegt sem þeir hafa hug á og þurfa í rauninni leyfi þingnefnda ef til þess þyrfti að koma. Ég held að líka þyrfti til þess mun meira fé. (Gripið fram í: Leyfi þingnefnda? Hvað á þingmaðurinn við?) Ég á einfaldlega við það að þingnefndir hafa ákveðið fjármagn til þess að gera rannsóknir og til þess að þingmaður geti farið út í rannsókn sem ætti að taka af fé þingnefndar, þá þarf leyfi formannsins eða nefndarinnar til þess. Ég vona að hv. þm. hafi skilið hvað ég átti við.

Það kemur mér skemmtilega á óvart að mörgu leyti að þessi umræða skuli fara fram vegna þess að maður hefur heyrt það víða í þjóðfélaginu að það sé mjög nauðsynlegt að fækka þingmönnum, það sé nauðsynlegt til sparnaðar og í rauninni alger óþarfi að hafa alla þessa þingmenn. Þeir mættu þess vegna vera 30 hef ég heyrt. (Gripið fram í: Fækkum þingmönnum Sjálfstfl.) Ég held að fækkun þingmanna þýddi einfaldlega að starfið yrði minna, yfirferðin yrði minni, nákvæmnin yrði minni og þeir hv. þm. sem hafa tekið undir þá umræðu og taka þátt í þessari umræðu geri ég ráð fyrir að endurskoði þá hugmynd sína. Það er frekar verið að ræða um í þessu frv. að auka völd þingsins sem kostar peninga.

Herra forseti. Ég vildi með þessum fáu orðum lýsa minni skoðun á því hvernig þingsköpin hafa virkað á mig. Ég hef að sjálfsögðu ekki mjög djúphugsaðar breytingartillögur eftir þennan stutta tíma minn hér. Eigi að síður fagna ég því að fá tækifæri til að ræða þetta frv. í allshn. Ég tel að það eigi einnig mjög heima í þeirri nefnd og þinginu almennt að fá að ræða þingsköpin og þingstörfin. Og fyrir okkur nýja þingmenn er þetta mjög gott og gullvægt tækifæri til þess.