Þingsköp Alþingis

Miðvikudaginn 16. október 1996, kl. 15:35:26 (387)

1996-10-16 15:35:26# 121. lþ. 9.4 fundur 21. mál: #A þingsköp Alþingis# (rannsóknarvald þingnefnda) frv., Flm. JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur

[15:35]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er aðeins ein athugasemd út af því sem fram kom í máli síðasta ræðumanns. Hv. síðasti ræðumaður tekur undir það sem mér finnst koma fram í máli flestra þingmanna, að það eigi að auka valdsvið þingnefnda og rannsóknarþáttinn og eftirlit þingsins með framkvæmdarvaldinu. En þingmaðurinn leggst gegn því að nefndirnar geti starfað fyrir opnum tjöldum. Ég held einmitt að það muni skerpa eftirlitsþáttinn gagnvart framkvæmdarvaldinu og gera lýðræðið virkara. Ég minni á, akkúrat eins og kom fram í orðum hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur, að hér er einungis um það að ræða að nefndir starfi fyrir opnum tjöldum nema nefndin ákveði annað. Það getur verið bara einn hluti meðferðar eða rannsóknar málsins í nefndinni sem nefndin ákveður að sé rétt að hún fjalli um fyrir opnum tjöldum, t.d. varðandi gagnasöfnun, upplýsingar sem koma út úr slíku og gögnum sem beðið er um frá framkvæmdarvaldinu. En niðurstöður nefndarinnar og hvernig hún leiðir málið til lykta þyrfti ekki að vera fyrir opnum tjöldum. Ég tel því mjög mikilvægt að þetta sé til staðar og ég tel að einmitt þetta ákvæði sé nýtt og eigi að reyna með þessum hætti vegna þess að væntanlega er það meiri hluti nefndarinnar sem tekur ákvörðun um hvort hún starfi fyrir opnum tjöldum allan tímann meðan hún rannsakar mál eða að það sé einungis einn afmarkaður hluti í nefndastarfinu sem er fyrir opnum tjöldum. Þess vegna mundi ég sakna þess mjög, ef á þessu máli yrði tekið, að þessi mikilvægi þáttur yrði skilinn eftir.