Lánsfjárlög 1997

Fimmtudaginn 17. október 1996, kl. 11:00:10 (395)

1996-10-17 11:00:10# 121. lþ. 10.1 fundur 24. mál: #A lánsfjárlög 1997# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[11:00]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég mun reyna að afla þeirra upplýsinga sem um var beðið og svara því síðar í umræðunni. En ég vil segja vegna Stofnlánadeildarinnar að sá vaxtamunur sem ugglaust er fyrir hendi þar er bættur upp með sköttum á greinina sem auðvitað að stórum hluta til lenda á neytendum því þeir eru inni í verðinu. Ég er sammála honum um þá meginhugsun að auðvitað á að hverfa frá þessu fyrirkomulagi og ég hygg að ég tali þar fyrir hönd stjórnvalda þegar að því er unnið. En ég skal afla þessara upplýsinga. Staða Stofnlánadeildarinnar er hins vegar sterk. Eiginfjárstaðan er sterk vegna þess að hún aflar annarra tekna en eingöngu með vaxtamuninum.

Það er alveg rétt að skuldir heimilanna hafa vaxið eins og hv. þm. nefndi. Einkaneyslan í ár vex um 7% á meðan þjóðartekjur vaxa um 5% og ráðstöfunartekjur um eitthvað svipað þannig að einkaneysla fer fram. Það er ómögulegt að gera sér fullkomlega grein fyrir hvort aukin kaup á svokölluðum varanlegum neyslufjármunum, eins og heimilistækjum og bílum, sé fyrirbrigði sem kemur upp núna vegna þess að þörf er á endurnýjun eða hvort það er eingöngu af efnahagslegum ástæðum. Ég skal ekki segja til um það. Þó er ljóst að skattkerfið okkar byggir nokkuð á því að hjálpa til við þá sem skulda fremur en þá sem spara og sem er kannski athugunarefni.

Ég vil að síðustu taka fram að ástæðan fyrir því góðæri sem hér ríkir er ekki eingöngu ytri skilyrði heldur þvert á móti ýmislegt annað þar á meðal þær miklu umbætur sem gerðar hafa verið í efnahagslífinu, efling markaðsbúskapar og almenn hagstjórn er betri eins og rækilega kemur fram í þjóðhagsyfirlitinu og á rætur að rekja til hagstjórnar á undanförnum árum.