Fjáraukalög 1996

Fimmtudaginn 17. október 1996, kl. 11:36:11 (403)

1996-10-17 11:36:11# 121. lþ. 10.2 fundur 48. mál: #A fjáraukalög 1996# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[11:36]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vona að ég hafi ekki hrekkt hv. þm. með því að vera of ánægður með niðurstöðuna sem núna hefur komið fram. En ég held þó að full ástæða sé til þess að benda á að 1991 gerðist það fyrir kosningar að á þinginu 1990--91 að ekki tókst að ljúka umræðu og afgreiðslu lánsfjárlaga fyrr en nokkrum vikum fyrir kosningar. Þetta gerði það að verkum að þeir sem sátu þá í hv. fjárhags- og viðskiptanefnd sátu alveg fram á vor við að búa til ný fjárlög, þ.e. Alþingi samþykkti ný fjárlög sem voru innifalin í lánsfjárlögunum og gerðu það að verkum að sú ríkisstjórn, sem tók við, sat uppi með fjárlögin sem voru afgreidd í desember og síðan ný fjárlög sem komu fram í lánsfjárlögunum og stórjuku ríkisútgjöldin. Vel má vera að sá sem hér stendur hafi verið fjmrh. hluta ársins, það er rétt að það kom í minn hlut að þurfa að gera mjög róttækar ráðstafanir til þess að berjast við þá óðaverðbólgu og það misvægi sem ríkti í þjóðarbúskapnum, þar á meðal með því að stórhækka vexti sem ekki var mjög vinsælt þá. Ég held því að hv. þm. ætti ekki að rifja upp árið 1991 þegar hann er að tala um ríkisfjármálin. Svo vil ég benda hv. þm. og öðrum þeim sem hafa áhuga á skuldum ríkissjóðs að í fjárlagafrumvarpinu er birt tafla á bls. 398 og þar kemur fram að í fyrsta skipti um langan tíma gerast þau undur og stórmerki nú að skuldastaða ríkisins mun lækka en ekki hækka sífellt og það skiptir öllu máli.