Fjáraukalög 1996

Fimmtudaginn 17. október 1996, kl. 11:38:09 (404)

1996-10-17 11:38:09# 121. lþ. 10.2 fundur 48. mál: #A fjáraukalög 1996# frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[11:38]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er alveg sammála hæstv. fjmrh. um að það er nauðsynlegt að lækka skuldir ríkissjóðs og ég fagna því að þau áform ríkisstjórnarinnar hafa verið kynnt í þingsölum að láta svo verða á næsta ári en það eru bara áform enn en ekki veruleiki. Við eigum eftir að sjá hvernig til tekst, hvort núverandi ríkisstjórn takist að lækka skuldir ríkissjóðs á næsta ári. En takist það er það í fyrsta skipti í fjármálaráðherratíð hæstv. fjmrh. Friðriks Sophussonar sem hann hækkar ekki skuldirnar á hverju ári heldur lækkar þær pínulítið. Ef það tekst þá óska ég honum til hamingju með það en ég minni á það, sem var tilefni andsvars míns, að hæstv. fjmrh. hefur verið allra manna duglegastur að hækka skuldir ríkissjóðs. Það er staðreyndin sem verður ekki umflúin að þegar Sjálfstfl. hefur haft þennan málaflokk til meðferðar eins og verið hefur undanfarin fimm ár þá hefur árangurinn verið stórfelld hækkun skulda hins opinbera og hærri en nokkur dæmi eru áður um fyrr í sögunni, að svo mikil hækkun hafi orðið á jafnskömmum tíma. (Gripið fram í: Og hærri skattar á heimilin.) Svo má nú fara út í þá hluti en ég ætla nú ekki að hrekkja fjmrh. með því.

Ég vil svo að lokum spyrja hæstv. ráðherra hvaða óðaverðbólga var á árinu 1991? Ég man ekki betur en að menn væru búnir að ná verðbólgunni nokkuð vel niður.