Fjáraukalög 1996

Fimmtudaginn 17. október 1996, kl. 11:41:53 (406)

1996-10-17 11:41:53# 121. lþ. 10.2 fundur 48. mál: #A fjáraukalög 1996# frv., GE
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[11:41]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Til umræðu er 48. mál, frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1996. Um það er kannski ekki mjög mikið að segja almennt annað en það að þetta er plagg sem hljóðar upp á ákveðna fjárupphæð sem er ætlast til að sé afgreitt núna. Þetta er raunverulega gerður hlutur og það sem er til umræðu er að það er verið að leggja þetta plagg fyrir Alþingi til þess að afgreiða hluti sem þegar hafa verið framkvæmdir. Það er þetta sem er svolítið mikið mál og ég vonast eftir því og spyr um það hvort ekki líði að því að við fáum að sjá frv. um fjárreiður ríkisins þar sem gert er ráð fyrir að þessum málum verði komið fyrir á annan máta en nú er og verið hefur. Ég vil rukka um það frv. Ég skildi ekki af hverju það var dregið af borðum þingsins í fyrra þar sem búið var að samþykkja það nánast af öllum aðilum. Ég vissi ekki betur en að stjórnarflokkarnir væru búnir að ná sátt við stjórnarandstöðuna og þessu máli var sérlega fagnað. Ég spyr um frv.? Hvenær kemur það? Ég vænti mikils af því fyrir ríkissjóð, vesalinginn.

Þegar maður veltir frv. fyrir sér rifjar maður upp liðinn tíma og þá hafa ávallt komið við 2. umr. verulega auknar beiðnir um fjárheimildir. Á síðasta ári var beðið um 5,3 milljarða við 2. umr. Er eitthvað í farvatninu, sem við vitum ekki um, sem hljóðar upp á auknar fjárheimildir við 2. umr.? Má búast við að þetta verði óbreytt eða er eitthvað í farvatninu sem hljóðar upp á auknar heimildir? Ástæða er til að spyrja um það. Það er einnig ástæða til þess að spyrja hvort um sé að ræða einhverjar óuppgerðar skuldbindingar sem á eftir að sýna fjárln. Þetta er mikilvægt atriði. Ég man ekki betur en að á sl. ári hafi verið beðið um fjárveitingar allt að 21 ár aftur í tímann vegna skuldbindinga sem ekki höfðu verið komnar heimildir fyrir.

[11:45]

Ástæða er til að spyrja um ýmislegt í þessu plaggi. Hvernig stendur á því að 14,5 milljóna beiðni liggur fyrir vegna umframgjalda í sendiráðum erlendis? Það hlýtur að hafa verið fyrirsjáanlegt við fjárlagagerðina fyrir árið 1996. Það getur ekki annað en verið. Það er líka ástæða til að spyrja um eitt atriði eða eitt af mörgum sem hljóðar upp á: Hvernig stendur á því að verið er að biðja um fjárframlög fyrir Íslenska dansflokkinn upp á 8 millj. kr. en þar eru menn búnir að aka fram úr um 15 millj. samtals? (Gripið fram í: Dansa fram úr.) Eða dansa fram úr, það má kannski orða það svo. Ég álít að hér sé um ræða ónógt eftirlit af hálfu fjmrn. Það má spyrja um atriði, með leyfi virðulegs forseta, undir lið 190, Ýmis verkefni, á bls. 35, þar sem sótt er um aukna heimild að fjárhæð 12 millj. kr. til að mæta útgjöldum vegna forræðismáls. Er það eitthvað sem við eigum von á að haldi áfram? Það er kannski viðkvæmt mál að ræða en þetta er samt sett fram í þessu þskj.

Það er bágt til þess að vita að auknar tekjur fyrir árið 1996 skuli vera vegna aukinna skulda heimilanna, vegna aukins innflutnings og vegna aukinna lána til heimilanna. Það bætir afkomu ríkissjóðs verulega að heimilin skuli auka skuldir. Ég tel að þetta sé mikið áhyggjuefni. Það er líka rétt að velta fyrir sér hvernig horfurnar eru um afkomu ríkissjóðs fyrir árið 1996 vegna þess að hæstv. fjmrh. nefndi það í sínu máli. Búast má við að lánsfjárþörf ríkisins fyrir árið 1996 stefni í 42--43 milljarða kr. Rétt er að geta þess að það er um 17 milljörðum meira en gert var ráð fyrir í fjárlagafrv. Og kannski er rétt að spyrja um þessi mál núna. Komið hefur fram í umræðunni að veita þurfti 1,4 milljörðum til heilbrigðiskerfisins. Stjórnarandstaðan benti á í fyrra að þar mundi verða stórt gat. Það vill svo til að álit Ríkisendurskoðunar er að enn vanti 500 milljónir. Hvað er svo lagt upp með fyrir árið 1997? Þó það eigi kannski ekki beint heima í þessari umræðu þá kemur að því seinna. Óskað var eftir fjárheimildum frá heilbrrn. upp á 54 milljarða. Hverjar eru svo tillögurnar? Tillögurnar eru upp 52 milljarða. Hvernig á að brúa bilið sem þar er á milli? Eða á maður að ætla að þeir sem setja fram fjárlagabeiðnir séu að biðja um miklu meira en raunverulega er þörf fyrir? Ég skrifa ekki undir það. Ég er sannfærður um að fólkið sem vinnur að þessum málum og hefur orðið að gera undanfarin ár með hliðsjón af niðurskurði hefur reynt að vinna af bestu samviskusemi. Þær beiðnir sem settar voru fram voru 54 milljarðar. Samkvæmt fjárlagafrv. er gert ráð fyrir 52 milljörðum og vantar þá 2 milljarða. Ég fullyrði að stórt gat á eftir að brúa. Það er ástæða til að nefna þetta vegna þess að þetta mun koma fram hjá okkur á næsta ári á svipaðan máta og nú er. Fullyrt var við umræðuna á sl. ári að staðið yrði við þær áætlanir sem settar voru fram.

Ég ætla að víkja aðeins að smámálum sem út af stóðu á milli okkar hæstv. fjmrh. frá síðasta ári. Þá spurði ég um smámál eins og Silfurlax þar sem ríkissjóður hafði veitt 50 millj. kr. ábyrgð og ef ég man rétt sagði hæstv. fjmrh. að ekki þyrfti að hafa áhyggjur af þeim ábyrgðum. Það mundi allt saman skila sér. Það er ástæða til að spyrja um það nú: Eru þau mál í góðu standi og hverjar eru horfurnar? Er búið að tryggja ríkissjóði þær tekjur á móti þeim ábyrgðum sem settar voru fram? Síðan er rétt að spyrja um raðsmíðaskipin í leiðinni af því það stóð út af á milli okkar hæstv. fjmrh. í fyrra þegar við áttum hér samtal um þessi mál.

Ég sé ekki ástæðu til að fara lengra í umræðu um frv. til fjárlaga. Ég hef sett fram nokkrar spurningar. Ég á von á að auknar beiðnir komi fram á milli umræðna og ég vildi spyrja ráðherra hvort svo sé. Ef svo er ekki mælist ég til að flýtt verði afgreiðslu frv. til fjáraukalaga og við ljúkum því á tiltölulega skömmum tíma. Þá vil ég meina að lokað sé fyrir aukið fjárstreymi. Það á allt að vera komið fram í þessu plaggi en ég minni á að á sl. ári, við 2. umr., komu fram auknar beiðnir um 5,3 milljarða og enn auknar við 3. umr. svo það er nú kannski ástæða til að geta um þetta.

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara lengra í mínu máli. Ég bar fram þó nokkuð margar spurningar og það var aðallega í því formi sem ég ræddi frv. til fjáraukalaga.