Fjáraukalög 1996

Fimmtudaginn 17. október 1996, kl. 11:56:03 (408)

1996-10-17 11:56:03# 121. lþ. 10.2 fundur 48. mál: #A fjáraukalög 1996# frv., GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[11:56]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. fjmrh. fyrir svör við flestum spurningum mínum, ég segi flestum vegna þess að ég spurði um hvort væri að vænta aukinna beiðna á milli umræðna og hæstv. fjmrh. sagði að þetta plagg væri vandaðra og betra en oft áður. Kannski má líta á það svar þannig að það verði ekki. Ég er ekki alveg sáttur með svarið sem var gefið vegna ábyrgðanna í Silfurlaxi því að ég held að það sé ekki nokkur trygging. Það eru engin veð í þessu en ég vona sannarlega, og við erum sammála um það, að rétt hafi verið gert. Ég var einn af þeim sem greiddu atkvæði með þessari aðgerð og viðurkenni það. Ég taldi þó við nánari skoðun, reyndar einum til tveimur mánuðum seinna, að það hafi ef til vill ekki verið mjög skynsamlega gert hjá mér. Ég hef áhyggjur af slíkum aðgerðum sem eru kannski ekkert einsdæmi. En ég vil þakka fyrir svörin og lít svo á að samþykkt hafi verið að málinu verði flýtt mjög. Ég fagna því að frv. um fjárreiður ríkisins skuli vera að koma fram. Ég tel að það sé nauðsynlegt verkfæri --- og ég undirstrika það --- nauðsynlegt verkfæri til að halda utan um stjórn ríkisfjármála almennt.