Fjáraukalög 1996

Fimmtudaginn 17. október 1996, kl. 11:57:48 (409)

1996-10-17 11:57:48# 121. lþ. 10.2 fundur 48. mál: #A fjáraukalög 1996# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[11:57]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð um Silfurlax. Það er hárrétt að við, nægilega margir hér á hinu háa Alþingi, samþykktum að veita þessar ábyrgðir á sínum tíma. Auðvitað er slíkt umdeilanlegt. Ég vil bara rifja það upp að um var að ræða merkilega tilraun, hafbeitarstöð, rekin fyrir fé sem safnað hafði verið að stærstum hluta til hjá útlendingum, hjá Svíum fyrst og fremst, mörg hundruð millj. kr. Við töldum ástæðu að hjálpa til við að fá sem allra mesta þekkingu úr því verkefni og lögðum fram þessa ábyrgð. Það er alveg óljóst hvort við töpum á þessu eða ekki en við verðum að gera okkur vonir um að fá sem mestan part af því sem íslenska ríkið þurfti að leggja út og ábyrgjast með heimtunum sem verða væntanlega á næsta sumri. Það er ávallt umdeilanlegt hvort svona eigi að standa að málum. Aðrir aðilar voru líka með ábyrgðir og höfðu lánað en vegna þess hve gífurlega mikla áhættu ýmsir erlendir aðilar tóku þótti rétt, að mjög vel athuguðu máli, að veita þessar ábyrgðir sem þar var um að ræða. Ég man ekki nákvæmlega einstök atriði eða upphæðir í málinu en ég vildi að þetta kæmi fram til að við skildum ekki við þessa umræðu eins og þetta hefði verið gert með einhverjum hneykslanlegum hætti, enda skildi ég hv. þm. ekki þannig.