Fjáraukalög 1996

Fimmtudaginn 17. október 1996, kl. 12:10:17 (411)

1996-10-17 12:10:17# 121. lþ. 10.2 fundur 48. mál: #A fjáraukalög 1996# frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[12:10]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég fagna því að frv. um fjárreiður ríkissjóðs verði lagt fram. Verði það samþykkt þá munum við ekki horfa upp á jafnfurðulega niðurstöðu og þá að halli ríkissjóðs stóreykst þegar ríkissjóður bætir stöðu sína með því að innleysa spariskírteini sem eru með mjög háum vöxtum. Við munum þá ekki heldur sjá ríkisreikning sem sýnir allt aðra niðurstöðu en fjárlög sem hafa verið rétt framkvæmd vegna þess að inn í fjárlögin vantar áfallna vexti, áfallnar lífeyrisskuldbindingar og margt fleira.

Herra forseti. Fjáraukalögum er ætlað að leiðrétta skekkjur sem myndast við framkvæmd fjárlaga. Kemur þar ýmislegt til. Almennar forsendur fjárlaga um veltu og skattskil breytast óhjákvæmilega. Þá er forsendum fjárlaga breytt með samningum við opinbera starfsmenn og öðrum samningum. Að síðustu má nefna það að opinberir aðilar fara fram úr fjárlögum, umfram veltuforsendur og kjarasamninga. Það er lagabrot, lögbrot, að hlíta ekki ákvörðun fjárlaga sem samþykkt hafa verið á hinu háa Alþingi.

Frv. til fjárlaga fyrir árið 1996 var samþykkt sem lög frá hinu háa Alþingi þann 22. des. 1995, þ.e. fyrir 10 mánuðum. Í frv. til fjáraukalaga sem við ræðum í dag kemur fram í greinargerð, með leyfi forseta:

,,Fyrr á þessu ári ákvað forsætisnefnd Alþingis að ljúka í einum áfanga framkvæmdum við endurbyggingu Kirkjustrætis 8b og 10 og smíði tengibyggingar milli húsanna, í stað þess að skipta verkinu í tvo áfanga, eins og gert hafði verið ráð fyrir við setningu fjárlaga. Framkvæmdakostnaður í ár er áætlaður 94 millj. kr., en þar af eru 10 millj. kr. vegna skrifstofubúnaðar, húsgagna og flutninga. Framlag í fjárlögum er 44 millj. kr. Farið er fram á viðbótarfjárveitingu til þess að gera upp allan kostnaðinn í ár, eða 50 millj. kr.``

Herra forseti. Hv. forsn. hefur ákveðið að fara 114% fram úr fjárlögum. Hvað eiga forstöðumenn annarra ríkisstofnana að halda þegar hv. forsn. Alþingis, þ.e. löggjafarsamkundu þjóðarinnar leyfir sér að fara 114% fram úr fjárlögum? Eftir höfðinu dansa limirnir.

Rök hv. forsn. eru eflaust þau að það hafi verið ódýrara að framkvæma verkið í einum rykk. Sömu rökum geta nánast öll ríkisfyrirtæki beitt við framkvæmdir sínar. Hv. forsn. var í lófa lagið að leggja til við hið háa Alþingi í umræðum um fjárlög 1996 að taka þessa framkvæmd í einum rykk. Svo gat hv. forsn. fyrir 10 mánuðum að sjálfsögðu beðið með framkvæmdirnar í eitt ár eins og lagt er til við önnur fyrirtæki ríkisins.

Herra forseti. Þessi tvö hús, annað frá árinu 1879 og hitt frá árinu 1905 kosta í endurbyggingu 134 millj. kr. Ég segi og skrifa 134 millj. kr. Húsin eru 900 fermetrar og hýsa 12 þingmenn og sex starfsmenn, alls 18 starfsstöðvar. Kostnaður við endurbygginguna er því 7,5 millj. kr. á hverja starfsstöð. 7,5 millj. kr., það er eins og íbúð í blokk með eldhúsi og baðherbergi. Þó þurfti ekkert að greiða fyrir lóðina.

Hér er eitthvað mikið að og sýnist mér sem óráðsía og bruðl ráði ríkjum. Ég minni á að skuldir ríkissjóðs eru 150 milljarðar og vaxtagreiðslur eru um 13 milljarðar kr. eða 36 millj. kr. á dag.

Herra forseti. Það er virðingarvert að halda upp á gömul hús en þetta eru ný hús. Veggir, gólf, stigar, gluggar, þetta er allt framleitt á árinu 1995 og 1996. Það eina sem er gamalt í þessum húsum eru burðarbitar. Tvær flunkunýjar lyftur eru í húsinu, eflaust af tillitsemi við fatlaða. Þetta eru ný hús, bastarðar og billeg lausn. Þetta er ekki húsverndunarstefna. Þessi hús munu aldrei verða kölluð gömul héðan í frá, með lyftu og framleidd árin 1995--1996.

[12:15]

Herra forseti. Athugasemd minni er ekki beint til fjmrh., sem er fulltrúi framkvæmdarvaldsins, heldur til hv. forsn. Fulltrúi framkvæmdarvaldsins getur ekki svarað fyrir og á ekki að svara fyrir það sem Alþingi ákveður.

Herra forseti. Það er sárgrætilegt við þessa framkvæmd að mér er ætlað að flytja inn í þessi hús. Ég hef hugleitt að neita því en þá missi ég tengsl við flokkssystkini mín sem ég met mikils og breyti í sjálfu sér engu. Með trega mun ég flytja í þessi ofurdýru og billegu hús og kann ég hv. forsn. engar þakkir fyrir að skapa mér þau örlög að njóta bruðlsins.