Fjáraukalög 1996

Fimmtudaginn 17. október 1996, kl. 12:47:56 (423)

1996-10-17 12:47:56# 121. lþ. 10.2 fundur 48. mál: #A fjáraukalög 1996# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[12:47]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir svörin og þá sérstaklega að hann muni kalla eftir nánari sundurliðun á fjármunum sem eiga að renna til Neyðarlínunnar hf. Ég tel mikilvægt að fá upplýsingar um það. Ég vek athygli á því að farið var fram á ítarlega úttekt á því máli á síðasta þingi. Það var hins vegar ekki afgreitt en hefur verið ítrekað að nýju. Hitt vekur sérstaka athygli mína, þ.e. svörin varðandi einkavæðingaráformin, og styrkir þá fullvissu mína að einn arðvænlegasti atvinnurekstur í landinu um þessar mundir er í tengslum við einkavæðingu ríkisstjórnarinnar. Ein arðvænlegasta atvinnugreinin sem menn geta komist í er að komast í snertingu við fjmrn. hæstv. fjmrh. Friðriks Sophussonar til þess að véla þar um einkavæðingu. Það er væntanlega ekki nema brot úr skýringu að það hafi verið fjölgað um einn mann í einhverri nefnd sem sé að fjalla um þetta. Við erum að tala um 9 millj. kr. viðbótarframlag til þessara mála til þess að sinna þessum málum. Ég vek athygli að nýju á þessu pólitíska forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar sem við innan þingflokks Alþb. og óháðra höfum gagnrýnt ítrekað á liðnum mánuðum.