Lánasjóður íslenskra námsmanna

Fimmtudaginn 17. október 1996, kl. 14:12:10 (427)

1996-10-17 14:12:10# 121. lþ. 10.3 fundur 7. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# (samtímagreiðslur o.fl.) frv., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[14:12]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Í greinargerð flm. með þessu frv. segir að Alþfl. hafi skipt um skoðun á málinu eftir að hann lenti í stjórnarandstöðu. Ég verð að gefnu þessu tilefni að leiðrétta þetta, hvort heldur sem það er á misskilningi eða misminni byggt því að það er ranghermi. Margar ástæður voru fyrir því að við jafnaðarmenn studdum breytingar á lánasjóðnum á sínum tíma 1992. Við óttuðumst mjög um fjárhagslega framtíð sjóðsins. Ástæðurnar voru m.a. þær að ríkisframlagið var allt of lágt miðað við þær skuldbindingar sem sjóðurinn hafði á sér, hann var með öðrum orðum í allt of ríkum mæli fjármagnaður með lánum. Þau lán voru skammtímalán á háum vöxtum. Vaxtamunurinn var mikill. Þar að auki vorum við þeirrar skoðunar að námsframvindukröfur væru of slakar.

Hins vegar sögðum við það skilmerkilega að þótt þessar breytingar væru nauðsynlegar væri rétt að skoða þær í ljósi reynslu og fyrir kosningar 1992 tókum við afdráttarlausa afstöðu til þess. Við sögðum að í ljósi reynslunnar væri rétt og óhætt að endurskoða námsframvindukröfurnar þannig að samtímagreiðslur yrðu teknar aftur upp að loknu fyrsta námsári. Það var afstaða okkar fyrir kosningar.

Í annan stað í ljósi breyttra aðstæðna, bæði vegna mats á fjárhagsstöðu sjóðsins og eins vegna breytinga á fjármagnsmörkuðum að öðru leyti, þar á meðal varðandi húsnæðismál, breytingar á húsnæðislöggjöf, töldum við rétt að endurskoða endurgreiðslubyrðina. Þetta sögðum við skýrt og skilmerkilega fyrir kosningar jafnframt því sem við vörðum þær óhjákvæmilegu breytingar sem gerðar höfðu verið árið 1992. Þessi afstaða hefur legið fyrir síðan. Við höfum ekki farið á bak við námsmenn og haft allt annan hátt á en þeir hv. framsóknarmenn sem fóru hamförum fyrir kosningar 1992, yfirtrompuðu meira að segja Alþb. á hverjum fundinum á fætur öðrum með námsmönnum og boðuðu gull og græna skóga og höfnuðu algerlega öllu því sem hét fjárhagsleg ábyrgð fyrir kosningar. Það er allt rétt sem hv. þm. sagði um sinnaskipti þeirra síðan og þarf ekki að taka það fram. En þessari leiðréttingu þurfti ég að koma á framfæri, virðulegi forseti.