Lánasjóður íslenskra námsmanna

Fimmtudaginn 17. október 1996, kl. 14:37:21 (436)

1996-10-17 14:37:21# 121. lþ. 10.3 fundur 7. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# (samtímagreiðslur o.fl.) frv., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[14:37]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Því hefur ekki verið í móti mælt að mikilvægasta fjárfesting sem Íslendingar geta gert til framtíðar sé í menntun þjóðarinnar. Meira að segja sjálfstæðismenn tala um þetta með glampa í augum á sínum glæstu stórfundum. En leið þeirra að þessu markmiði er vægast sagt svolítið sérkennileg. Öllum sem fylgjast með þróun menntamála er mikið áhyggjuefni hve lágt hlutfall ungs fólks lýkur framhaldsskólanámi hér á landi. Á síðasta ári voru samþykkt á Alþingi ný framhaldsskólalög sem voru sögð eiga að auka námsframboð fyrir ungt fólk svo fleiri gætu lokið einhvers konar fagnámi. Næst gerist það á þessum vettvangi að fram kemur frv. til fjárlaga þar sem skorið er niður fjármagn til framhaldsskóla en ekki glyttir enn í hinar nýju námsbrautir. Hins vegar er vegið að nokkrum litlum framhaldsskólum á einkar óvæginn hátt. Einmitt þeim sem eru í hinum dreifðu byggðum þar sem nemendur standa fyrir höllum fæti. Sérstök prófagjöld vegna endurupptöku prófa, ef einhverjum skyldi nú verða á í messunni, verða sett á. Það skyldi þó ekki verða til þess að einhver ómarksækinn unglingur frá fátæku heimili hyrfi endanlega frá námi? Og framferði sjálfstæðismanna gagnvart háskólum stingur einnig mjög í augu.

Á síðasta ári var frv. um málefni háskólans samþykkt á Alþingi en það kvað á um að lögfest skyldu skólagjöld í þeirri ágætu stofnun. Skyldi það frv. verða til að auka aðstreymi efnaminni námsmanna að skólanum og auka þannig jafnrétti til náms? Svari nú hver fyrir sig. Málefni Lánasjóðs ísl. námsmanna eru látin á ís þótt hróplegt óréttlæti viðgangist í þeim málum frá því ný lög voru sett um sjóðinn 1992. Þá fækkaði námsmönnum strax, sérstaklega barnafólki og einkum þó konum og nemendum úr dreifbýli, og hefur enn fækkað síðan enda kemst fólk úr dreifbýli yfirleitt ekki til náms nema með stuðningi sjóðsins og treystir sér yfirleitt ekki til að undirgangast hinar hörðu kröfur um námsframvindu og eftirágreiðslu og líka endurgreiðslu lána að námi loknu en þær kröfur eru að margra dómi, a.m.k. þeirra sem við mig ræða, mjög ósanngjarnar. Of stífar til að fjölskyldufólk treysti sér til að ráða við þær nema það eigi þá víst að ganga inn í þeim mun betur launuð störf.

Það kerfi sem nú er í gangi er kerfi sem á engan hátt tryggir jafnrétti til náms. En það vill svo til að á hina háa Alþingi er þingmeirihluti til að breyta þessum lögum á þann veg sem Margrét Frímannsdóttir leggur til í því frv. til laga sem hún hefur lagt fram með öðrum þingmönnum Alþb. og miðar að því að bæta úr stærstu ágöllum núgildandi laga uns heildarendurskoðun hefur farið fram en hún fer fram í sérstakri nefnd sem hv. þm. Hjálmar Árnason veitir forstöðu. Hann sagði líka margt fallegt um Lánasjóð ísl. námsmanna, sem gaman væri að geta haft eftir í dag, og er því miður ekki viðstaddur umræðuna. Ég hefði haft mjög mikla ánægju af að heyra hann ræða þessa tillögu. Frv. er ætlað að bæta úr stærstu ágöllum núgildandi laga en samkvæmt yfirlýsingu þingflokka fyrir síðustu alþingiskosningar voru allir flokkar nema Sjálfstfl. hlynntir því að taka upp samtímagreiðslur. Mér þykir því einsýnt að þetta frv. fáist samþykkt á næstunni, landi og þjóð til heilla. Ef Framsfl. samþykkir ekki samtímagreiðslur námslána eftir allt sem hann hefur yfirlýst í því sambandi er ekki bara vont að vera í faðmlögum við Sjálfstfl. eins og stundum hefur verið sagt á hina háa Alþingi. Það er bara blátt áfram baneitrað.