Lánasjóður íslenskra námsmanna

Fimmtudaginn 17. október 1996, kl. 14:50:18 (438)

1996-10-17 14:50:18# 121. lþ. 10.3 fundur 7. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# (samtímagreiðslur o.fl.) frv., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[14:50]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég þakka flm. þessa frv. fyrir að hafa lagt það fram. Ég tek heils hugar undir efni þess. Okkur er smám saman að verða ljóst hverjar afleiðingar þeirra breytinga sem gerðar voru á lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna eru þó að bent hafi verið á ýmislegt þegar málið var til umræðu. Því miður er flest að ganga eftir. Það sem vegur þó langsamlega þyngst og ég heyri mest frá námsmönnum, einkum frá þeim sem eru að koma heim frá námi erlendis, er að þeir eru mjög áhyggjufullir vegna endurgreiðslnanna. Það var nákvæmlega það sem sagt var í umræðunni á sínum tíma, að endurgreiðslurnar á lánunum ættu eftir að hitta fólk mjög þunglega fyrir. Gerðir voru miklir útreikningar á sínum tíma sem sýndu að hópar eins og hjúkrunarfræðingar og kennarar yrðu að greiða af þessum lánum fram á grafarbakkann. Þessi þunga greiðslubyrði mundi gera fólki mjög erfitt fyrir að öðru leyti. Allt tengist þetta launamálum í landinu, þeim lágu grunnlaunum sem hér eru greidd og lágum launum, ekki síst háskólamenntaðra hópa sem eru stærsti hópur þeirra sem greiða þessi lán. Ég verð að segja alveg eins og er að ég legg mest upp úr því að sá hlutinn verði endurskoðaður þó að ég taki mjög undir það að skoða og breyta öðrum atriðum. Ég minni á að rektor Háskóla Íslands hefur í ræðu og riti bent á að þær kröfur sem lánasjóðurinn gerir til framvindu náms séu algjörlega óraunhæfar. Þar er miðað við að fólk fari á mestum hraða í gegnum námið en ekki miðað við meðalhraða námsmanna, sem gerir það að verkum að fólk missir réttinn til lána.

Ég spyr hæstv. menntmrh. fyrst hann er við umræðuna hvort það hafi verið skoðað rækilega hvaða áhrif breytingarnar sem gerðar voru árið 1992 hafa haft. Ég veit að þær eru margvíslegar. Ég veit það frá þeim tölum sem hafa verið lagðar fram á undanförnum árum að einstæðum foreldrum hefur fækkað í námi, aðallega konum, ég veit að námsmönnum erlendis hefur fækkað áberandi í sumum löndum eins og í Bandaríkjunum sem ég tel vera mjög alvarlegt mál vegna þess að þangað er mjög margt að sækja í menntun. Ég hef hins vegar ekki séð tölur um það hvort námsmenn séu núna lengur í námi en áður vegna þess að þeir taka ekki námslán og eru að vinna með námi en það hefur stóraukist að háskólanemar vinni með námi. Það er eins og ástandið var fyrir daga lánasjóðsins. Við vitum að því hefur verið spáð að þessar breytingar á lánasjóðnum muni gera ungu fólki mjög erfitt fyrir að kaupa húsnæði. Hefur það verið kannað hvernig þeim málum er háttað? Ég held að við verðum að gera okkur grein fyrir áhrifum þessara breytinga á lögin áður en við göngum lengra. Breytingar verða vonandi gerðar. Ég held að afleiðingarnar séu um margt alvarlegri en menn hafa gert sér grein fyrir.

Í fjárlögum fyrir árið 1997 koma fram margvíslegar og merkilegar upplýsingar um Lánasjóð ísl. námsmanna á bls. 357. Þar kemur fram að staða sjóðsins er mjög að batna og fyrst og fremst vegna þess að greiðendum fjölgar ár frá ári. Innstreymið í sjóðinn frá endurgreiðslum er mjög að aukast. Það kemur hér fram, með leyfi forseta, að árið 1992 voru greiðendur námslána 13.519 en áætlað er að í ár verði þeir 25.150. Þetta er næstum því helmings aukning á greiðendum. Reiknað er með að þeim fjölgi um 10% á næsta ári. Þetta er gríðarleg aukning. Innstreymið í sjóinn fer sem sagt mjög vaxandi. En það sem gerir sjóðnum sem slíkum erfitt fyrir er það hvað honum hefur verið beint út á lánamarkaðinn á undanförnum árum. Framlög ríkisins hafa verið skorin stórlega niður og sjóðnum ýtt út á lánamarkaðinn. Þar voru lán mjög óhagstæð á tímabili og sjóðurinn hefur verið að endurfjármagna þau lán til þess að lækka vaxtakostnað. Samt sem áður er sjóðurinn með gríðarlega vaxtabyrði. Hér kemur fram að áætlað er að sjóðurinn greiði 1.171 millj. kr. í vexti 1997. Skýrist það af miklum lántökum sjóðsins á árunum 1989--1991 sem eins og hér segir var varið að miklu leyti til vaxtalausra útlána. Það var eitt af því sem gert var við breytingarnar að settir voru vextir á námslán. Allt tengist þetta því hver stefnan er í lánamálum námsmanna. Að hve miklu leyti á að endurgreiða námslán og að hve miklu leyti á að styrkja fólk til náms? Ég er þeirrar skoðunar að ekkert sé eins góð fjárfesting af hálfu ríkisins og að efla menntun og stuðla að því að ungt fólk leiti sér menntunar. Ég veit ekki hvort fólk gerir sér almennt grein fyrir því hvílíkt byltingartæki Lánasjóður ísl. námsmanna var á sínum tíma eftir að það tókst að gera lánin þannig úr garði eftir mikla baráttu námsmanna að nokkurn veginn væri hægt að lifa af þeim. Það tók margra ára harða baráttu með ýmiss konar mótmælum og aðgerðum og þrýstingi á ráðamenn. Smátt og smátt tókst að hækka lánin þannig að nokkurn veginn var hægt að lifa af þeim. Þetta gerði það að verkum að þúsundir námsmanna áttu þess kost að mennta sig sem hefðu ekki getað það að öðrum kosti. Lánasjóður ísl. námsmanna er því eitthvert merkilegasta og magnaðasta jöfnunartæki sem við höfum átt hér á landi. Því miður hafa þær breytingar sem gerðar hafa verið á sjóðnum stefnt í þveröfuga átt sem hefur leitt til þess að það hefur dregið mjög úr umsóknum þó námsmönnum hafi ekki fækkað, þeim hefur fjölgað, sem þýðir það að hópur námsmanna fjármagnar nám sitt á annan hátt. Ég þekki nokkur dæmi slíks. Ég hef spurst svolítið um það hvernig ungt fólk hefur brugðist við sem reynir að forðast að taka námslán til þess að eiga möguleika síðar í lífinu á því t.d. að koma sér upp húsnæði. Þetta unga fólk, bæði karlar og konur, er að vinna hörðum höndum, jafnvel á næturvöktum og gera ýmislegt til þess að reyna að komast hjá því að taka þessi erfiðu lán. Samt sem áður er það stór hópur sem tekur þau og eins og ég nefndi í upphafi er það að koma betur og betur í ljós hvað endurgreiðslurnar eru þeim þungar í skauti.

Ýmislegt fleira mætti nefna hér og væri fróðlegt að heyra það frá hæstv. menntmrh. hvaða breytingar eru fyrirhugaðar á lögunum um Lánasjóð ísl. námsmanna og hvað starfi nefndarinnar líður. Það segir í frv. til fjárlaga að nefndarstarfið sé að komast á lokastig. Vonandi fer frv. að líta dagsins ljós í þingsölum. Ég óska eftir því eins og fleiri að hæstv. menntmrh. upplýsi okkur um það hvað líður starfi nefndarinnar.

Ég ítreka að lokum, herra forseti, að ég tek undir efni þessa frv. Eins og hér hefur verið nefnt mætti ætla að þingmeirihluti sé fyrir því að gerðar verði breytingar á lögunum. En við vitum að meirihlutasamstarf getur leitt ýmislegt af sér og menn kyngja ýmsu. Ég ætla að vona að framsóknarmenn, sem höfðu sig mjög í frammi og tóku mjög virkan og sterkan þátt í umræðunni vorið 1992, standi við sín orð enda er ég alveg viss um að þeim er jafn vel ljóst og okkur hinum að sérstaklega endurgreiðslurnar eru að verða mörgum mjög þungar í skauti. Það verður að skoða rækilega hvernig hægt er að létta á þeim, dreifa þeim öðruvísi eða á lengri tíma þó að ég viti svo sem ekki hvort það er gerlegt miðað við það sem ég sagði áðan að fólk yrði fram á grafarbakkann að greiða lánin. Lántökur eiga ekki að ná út yfir gröf og dauða en það er alveg ljóst að þarna þarf nýja stefnumótun. Ég minni á það að ég sagði áðan að staða sjóðsins er mjög að batna eins og var fyrir séð áður en breytingarnar gengu í garð. Ég tel því að hér séu forsendur til þess að gera breytingar og að eitt það skynsamlegasta sem við getum gert sé að efla menntun í landinu og Lánasjóður ísl. námsmanna er eitt af þeim tækjum sem við höfum til þess.