Lánasjóður íslenskra námsmanna

Fimmtudaginn 17. október 1996, kl. 15:05:53 (441)

1996-10-17 15:05:53# 121. lþ. 10.3 fundur 7. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# (samtímagreiðslur o.fl.) frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[15:05]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála því að menntunin er besta fjárfestingin sem við okkur blasir hér á landi eins og annars staðar. En spurningin er sú hvernig þessum fjármunum er best varið. Er þeim best varið þegar þeir eru takmarkaðir með því að verja þeim í Lánasjóð ísl. námsmanna eða standa að þeim skólastofnunum sem starfandi eru? Þegar þarf að gera upp á milli og forgangsraða innan menntakerfisins þarf að taka ákvarðanir um slíka hluti. En sú ákvörðun hefur verið tekin á undanförnum árum að hlúa frekar að stofnunum, skólunum, en að auka útgjöld lánasjóðsins sem hvort um sig var komin í algerar ógöngur með því kerfi sem gildandi var. Þetta er skólastefna og menntastefna sem var mótuð og liggur fyrir um forgangsröðun við ráðstöfun á fjármunum til menntamála. Tekin var ákvörðun um að hlúa frekar að skólunum en lánasjóðnum ef menn vilja stilla málunum þannig upp og síðan tekið á málefnum lánasjóðsins þannig að hann er kominn í gott horf núna eins og hv. ræðumaður hefur bent. Þetta var markviss stefna og ekki unnt að segja annað en að henni hafi verið fylgt fram.

Nú kemur einnig í ljós að verið er að auka fjárframlög til háskólastigsins eins og kemur fram í fjárlagafrv. Það er verið að auka fjárframlög til jöfnunar námskostnaðar sem einnig er styrkur við nemendur þótt þeir séu ekki á háskólastigi eins og kemur fram í fjárlagafrv. þannig að verið er að fikra sig í þá átt að auka fjárveitingar með þessum hætti.