Fjáraukalög 1996

Fimmtudaginn 17. október 1996, kl. 15:38:12 (448)

1996-10-17 15:38:12# 121. lþ. 10.2 fundur 48. mál: #A fjáraukalög 1996# frv., fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[15:38]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Það eru örfá atriði sem ég vildi fá að gera grein fyrir við lok umræðunnar. Ég vil nú fyrst vegna síðustu orða síðasta ræðumanns segja, af því að minnst er á 15 milljarða, að þá er a.m.k. lítill vandi að sýna fram á að yfir 10 milljarðar af þessum 15 eru beinlínis útgjöld til þess að spara ríkissjóði 2 milljarða. Og þau útgjöld auka ekki skuldastöðuna vegna þess að þau breyta nákvæmlega engu um útistandandi skuldir ríkissjóðs.

Það eru örfá atriði sem mig langar til að nefna hér sérstaklega af því fyrirspurnum var til mín beint.

Í fyrsta lagi var spurt að því hvort ekki hefði nægt heimild í 6. gr. fjárlaga til þess að kaupa húsnæði fyrir embætti forseta Íslands. En þar segir að fjmrh. sé heimilt að kaupa hús í nágrenni Arnarhvols fyrir Stjórnarráðið. Við töldum svo ekki vera. M.a. af landfræðilegum ástæðum. Reynt hefur verið að kaupa hús frá Lindargötu að Klapparstíg og niður að sjónum smám saman. Þar á meðal má nefna að keypt var hús Dagsbrúnar og Sjómannafélagsins einmitt á grundvelli þessarar heimildar en það var talið að þessi heimild nægði ekki og þess vegna er farið fram á það hér og nú að samþykkt sé sérstök heimild utan við 6. gr. í þessu fjáraukalagafrumvarpi.

Í öðru lagi var spurt um forsrn. og lagfæringar á því húsi og reyndar voru fleiri sem komu að því, það var hv. þm. Kristín Halldórsdóttir og enn femur Kristín Ástgeirsdóttir. Það liggja fyrir fyrstu teikningar af breytingum á húsinu. Að sjálfsögðu verður haft samband við þá aðila sem sjá um húsfriðunarmál en eins og réttilega kom fram í máli hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur þá hefur húsnæðið verið notað til ýmissa verka á undanförnum öldum. Þar á meðal og kannski frægast voru notin þegar þetta var fangelsi yfir sakamenn og má kannski segja að það hæfi vel að ríkisstjórnin fundi og hafi samastað í þessu húsi nú. Það verða ugglaust gerðar einhverja innri breytingar á húsinu til þess að það þjóni betur þeim tilgangi sem húsinu er ætlað. Þar á meðal þarf að færa til stiga og þess háttar í húsinu til þess að það þjóni betur sínu markmiði. En auðvitað verður það gert, eins og ég sagði áðan, í samráði við húsfriðunaraðila.

Varðandi Íslenska dansflokkinn þá skal það tekið fram að þetta er gamall kunningi í fjáraukalögum. Það er hárrétt. (Gripið fram í: Kunningi hverra?) Ekki kunningi lögreglunnar svo ég best viti þó að hv. þm. sem nú kallar fram í hafi sjálfsagt það í huga af einhverjum ástæðum. En nú hefur það gerst í málefnum dansflokksins að sett hefur verið ný stjórn og það hafa farið fram viðræður á milli ráðuneyta um málið og þess er vænst að árangur sé í sjónmáli.

Ég ætla ekki að ræða frekar um utanrrn. Það hefur verið gert áður og reyndar skýrði hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir nokkuð vandamál utanrrn.

Þá var spurt hér um Útvegsbankann og ég skal gefa svar við því. Til þess að samræma eftirlaunakjör fyrrum bankastjóra Útvegsbankans þá fór fjmrn. fram á það við Seðlabanka Íslands að bankinn endurreiknaði eftirlaunin og samkvæmt bréfi ráðuneytisins til bankans var settur sérstakur stofn til útreiknings eftirlaunanna. Stofn til ákvörðunar eftirlauna fyrrverandi bankastjóra Útvegsbankans eða maka þeirra skal vera föst laun bankastjóra Landsbanka Íslands eins og þau eru á hverjum tíma. Eftirlaun fyrrverandi aðstoðarbankastjóra Útvegsbankans eða maka þeirra skal með sama hætti vera 80% af föstum launum bankastjóra Landsbanka Íslands. Þessi ákvörðun gildir frá og með desember árið 1993 og er í frv. til fjáraukalaga sótt um 25 millj. kr. vegna þessa. Um er að ræða 15 einstaklinga en starfshlutfall er mjög mismunandi. Meðallífeyrir eftir endurreikning á eftirlaunum nemur 209 þúsundum á mánuði. Þetta er gert vegna þess að það höfðu komið fram eðlilegar óskir um það og það var um það vélað í upphafi í samningum þegar Útvegsbankinn var lagður niður. Seðlabankinn reiknar þetta út þannig að það byggir á þessum útreikningi og ríkissjóður verður að sjálfsögðu að greiða það sem fyrir okkur er lagt í þessum efnum eins og öðrum ríkisviðskiptabönkum er greitt. Og þetta er leiðrétting sem gildir aftur í tímann og mér er ekki kunnugt um að í þessu séu neinir dráttarvextir. Það kannast ég ekki við.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson og reyndar líka hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson ræddu um neyðarsímsvörunina. Ég ætla aðeins að geyma mér að ræða um það en segja það fyrst vegna ræðu hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur að þessar 140 milljónir kr. til Vestfjarða eru að ósk Byggðastofnunar og vegna þess að málefni hennar voru hér aðeins til umræðu þá liggur fyrir skýrsla Ríkisendurskoðunar og ég vísa aðeins til ummæla formanns stjórnar Byggðastofnunar og hæstv. forsrh. sem báðir eru þeirrar skoðunar að skoða eigi stofnunina með hliðsjón af því sem Ríkisendurskoðun segir.

Varðandi félmrn. og Framkvæmdasjóð fatlaðra þá er aðeins um leiðréttingu að ræða þannig að tekjur sjóðsins aukast en notkunin er sú almenna lögbundna notkun sjóðsins eins og menn vita sem er bæði fjárfesting en einnig til rekstrar upp á síðkastið.

Þegar rætt er um heilbr.- og trn. verða menn að hafa í huga að til þessa málaflokks renna 50 milljarðar kr. þannig að 1 milljarður til eða frá er 2% skekkja. Þetta verða menn að hafa í huga þegar rætt er um þetta ráðuneyti og óskapast yfir háum skekkjutölum innan þess. Ég held að aðalatriði málsins sé það, eins og ég hef reyndar áður sagt, að sé litið yfir útgjöld þessa ráðuneytis á undanförnum árum þá eru þau nokkuð stöðug og á föstu verðlagi hafa þau smám saman hækkað, það er ekkert óeðlilegt við það og það eru engar dýfur eða gífurlegur niðurskurður sem hefur átt sér stað í þessum málaflokki. Ég er hérna með talnarunu frá árinu 1990 sem sýnir að á sama verðlagi hefur hækkunin frá 1990, sem reyndar er nokkuð lágt ár, verið frá 47,8 milljörðum upp í 51 milljarð og 500 milljónir. Þetta er það sem hefur breyst á þessum tíma. Það er aðeins á einu ári sem það nær því að vera svipað nú í ár og á undanförnum tveimur árum og það er á árinu 1991. Markmiðið hefur verið að reyna að hemja útgjaldaaukann í þessum ráðuneytum. Það þekkja þeir þingmenn sem til að mynda hafa þurft að vera ráðherrar yfir þessu málaflokki.

[15:45]

Varðandi einkavæðinguna, þá skal ég geta þess að það er aðeins hluti af þessum kostnaði sem rennur til verðbréfafyrirtækjanna. Eins og ég gat um fyrr í andsvari mínu eru þau verðbréfafyrirtæki sem hafa fengið greiðslur frá einkavæðingarnefnd Skandia, Handsal og Kaupþing og öll þessi fyrirtæki hafa fengið greiðslur fyrir verkefni sem hafa verið unnin eftir að útboð fór fram. Með öðrum orðum hafa þau fengið verkefni á grundvelli útboða. Því auðvitað verður einkavæðingarnefndin að vera sjálfri sér samkvæm.

Þá kem ég að neyðarsímsvöruninni, þá er ástæða til þess aðeins að skýra það með nokkrum orðum. Það áttu sér nefnilega stað mistök við undirbúning fjárlaganna. Hér er verið að leiðrétta það að nokkrum hluta, en við undirbúning fjárlaganna fyrir árið 1996 var gert ráð fyrir 25 millj. til reksturs Neyðarlínunnar hf. og 15 millj. í stofnbúnaðarkaup og markaðssetningu. Stuttu áður en lokið var við gerð fjárlaga var útséð að lækka mætti áætlaðan kostnað vegna stofnkaupa. Aðstoðarmaður dómsmrh. og skrifstofustjóri fjmrn. urðu sammála um að strika út stofnkostnaðinn. Vegna mistaka, sem skrifast á fjmrn. við uppsetningu fjárlaga, hafa tölur fyrir rekstrarkostnað og stofnkostnað víxlast og var því strikuð talan 25 millj. en ekki 15, þannig að vöntunin var orðin 10 millj. Aðstoðarmaður dómsmrh. hafði gleymt því að í samningi var ákvæði um að Neyðarlínunni skyldu greiddar 5 millj. árið 1996 til markaðssetningar og kynningarmála og 2 millj. 1997 þannig að samanlagt var skekkjan komin upp í 15 millj. sem er að fullu í samræmi við samning Neyðarlínunnar og dómsmrn. Þetta þarf að skýra. En frá þessum tíma hefur Ríkisendurskoðun farið yfir málefni Neyðarsímsvörunarinnar og að mati Ríkisendurskoðunarinnar, sem var að skila sínu áliti núna fyrir örskömmu síðan, er hagræði ríkissjóðs á fyrirkomulaginu við rekstur Neyðarvarðstöðunnar alveg ótvírætt til sparnaðar fyrir ríkissjóð. Og það segir, ég leyfi mér að vitna orðrétt í þessa skýrslu:

,,Miðað við ofangreindar forsendur má ætla að kostnaður ríkissjóðs og sveitarfélaganna vegna þess fyrirkomulags sem viðhaft var vegna reksturs sameiginlegrar neyðarvaktstöðvar á grundvelli laga nr. 25/1995 sé alls um 227--243 millj. kr. lægri en frumáætlun gerði ráð fyrir á því 8 ára tímabili sem samningur dómsmrn. fyrir Neyðarlínuna nær til. Á ársgrundvelli er um að ræða 28--30 millj. kr.`` Þetta þarf að koma fram vegna þess að þetta þýðir að samningurinn gerir miklu betur heldur en boðað var þegar lögin voru sett og ég minni hv. þm. Guðmund Árna Stefánsson á að hann var einn þeirra sem samþykktu upphaflegu áætlunina, bæði sem þingmaður og eins líka gaf hann út nefndarálit sem hann skrifaði undir og tók að fullu þátt í störfum varðandi undirbúning Neyðarlínunnar í allshn. Það sýnir sig að árangurinn er betri heldur en þeir sem afgreiddu málið á sínum tíma máttu vænta og er það vissulega gleðiefni þegar okkur tekst betur en upphaflegar áætlanir stóðu til.

Virðulegi forseti. Mér gefst ekki tími til þess að ræða merkilegt mál sem nokkuð hefur borið hér á góma og varðar samskipti framkvæmdarvaldsins og löggjafarvaldsins og stofnunarinnar Alþingis. Það verður að bíða betri tíma. Mér hefur fundist þessar umræður hér kannski snúast meira og minna um það hvort ástæða sé til þess að endurgera hús hér í nágrenninu og ég held að menn deili ekkert um að það er áreiðanlega æskilegt, bæði nauðsynlegt umhverfisins vegna og til þess að viðhalda eignum Alþingis og einnig til hins að alþingismenn geti haft sómasamlegar aðstæður. Mér hefur hins vegar, og ætla ekki að taka upp umræðu um það, fundist nokkuð skorta á að þessir tveir aðilar kæmu sér saman um ýmsar verklagsreglur sín á milli.

Ég vil að það komi fram hér að í mínum huga er nauðsynlegt að Alþingi eins og aðrar stofnanir viðurkenni það að samkvæmt þingræðisreglunni, samkvæmt stjórnarskránni og samkvæmt stjórnarráðslögum og reglugerð sem byggð er á stjórnarráðslögunum og er undirrituð af forseta Íslands, þá bera ráðherrar ábyrgð á málaflokkum og framkvæmd málaflokka sem Alþingi hefur ákveðið. Þar á meðal er það skylda þeirra að leggja fram frumvörp og undirbúa frumvörp og þeir bera ábyrgð á fjármálalegum ákvörðunum sem heyra undir þá sem ráðherra og í því tilliti gegnir sama máli um Alþingi, Hæstarétt, forsetaembættið og allar þær stofnanir sem undir ríkið heyra. Þetta er mjög mikilvægt að menn átti sig á vegna þess að ráðherrarnir eru þeir einu sem geta borið ábyrgð á þessu samkvæmt stjórnarskránni.

Þetta vildi ég að kæmi fram. Ég ætla ekki að ræða þetta frekar vegna þess að í fjáraukalagafrv. séu ákvæði sem ég er á móti. Þvert á móti legg ég fram þetta frv. eins og það er og mælist eindregið til þess að það sé samþykkt í öllum atriðum en segi einungis þessi orð vegna þess að mér fannst skorta meira á þau í umræðunni. Umræðan snerist meira um það hvort það væri eðlilegt að Alþingi endurbyggði hús eða ekki. Það er ekki það sem mér finnst vera kjarninn í þessari umræðu.

Ég veit að það gefst miklu betra tækifæri til þess síðar að ræða þessi mál og þess vegna ætla ég ekki, virðulegi forseti, að hafa fleiri orð um þetta, en læt máli mínu lokið og vænti þess að hv. þing afgreiði þetta frv. eins og ég hef lagt til.