Tóbaksverð og vísitala

Fimmtudaginn 17. október 1996, kl. 16:25:03 (456)

1996-10-17 16:25:03# 121. lþ. 10.11 fundur 82. mál: #A tóbaksverð og vísitala# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[16:25]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir að hafa hreinsað talsvert loft í þessum efnum. En ég er honum algerlega ósammála þegar hann segir að viðhöfð hafi verið eðlileg vinnubrögð. Ég get ekki sem formaður heilbr.- og trn. tekið undir að það séu eðlileg vinnubrögð að breyta reglum um innkaup tóbaksvarnings og leita ekki einu sinni eftir áliti tóbaksvarnanefndar. Auðvitað veit hæstv. fjmrh. að það eru vinnubrögð sem eru ólíðandi og sem eru óásættanleg og eru algerlega ólík öllum hans vinnubrögðum.

Herra forseti. Mér finnst þetta mjög undarlegt. En hæstv. fjmrh. á eftir að staðfesta það í þessum stóli að þetta sé ekki gert til þess að Philip Morris og einhver fyrirtæki tengd því geti komið nýjum vindlingum inn á íslenskan markað. Og mér finnst að það sé nauðsynlegt að það komi fram hérna.