Tóbaksverð og vísitala

Fimmtudaginn 17. október 1996, kl. 16:25:54 (457)

1996-10-17 16:25:54# 121. lþ. 10.11 fundur 82. mál: #A tóbaksverð og vísitala# þál., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[16:25]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur komið mjög skýrt fram í mínu máli að þeir sem í raun og veru kröfðust breytinganna eru íslenskir aðilar sem flytja inn sígarettutegundir og sjálfsagt annað tóbak frá Philip Morris. Það er lögfræðingur þeirra sem fer fram á það að reglunum verði breytt og á það er fallist. Hins vegar eru reglurnar þannig að það er ekki hægt að tryggja, hvorki fyrir hann né aðra, að þær vörur verði til lengri tíma á boðstólum. Það verður farið eftir þeim reglum sem í gildi eru.

Það skal tekið fram að á sínum tíma voru fluttar inn vörur frá Philip Morris, en frá því var horfið af því að þeir fengust ekki til að merkja pakkana samkvæmt íslenskum lögum. Nú hefur komið fram að þeir munu að sjálfsögðu fara að íslenskum lögum og tilmælum Evrópubandalagsins um þau efni.

Þetta vil ég að komi fram. Þetta snýst ekki um það að verið sé að auka reykingar hér á landi. Það er mikill misskilningur. Þvert á móti verður verðstefnunni, sem hér hefur verið fylgt, að sjálfsögðu fylgt áfram.