Tóbaksverð og vísitala

Fimmtudaginn 17. október 1996, kl. 16:27:16 (458)

1996-10-17 16:27:16# 121. lþ. 10.11 fundur 82. mál: #A tóbaksverð og vísitala# þál., SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[16:27]

Siv Friðleifsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að lýsa furðu minni á þeim málflutningi sem hér fer fram. Sem varaformaður heilbr.- og trn. verð ég að lýsa furðu minni á málflutningi hæstv. fjmrh. Hæstv. ráðherra talar eins og um eitthvert aukaatriði sé að ræða. Hér er sko alls ekkert aukaatriði á ferð. Þetta er stefnumarkandi, það sem verið er að gera varðandi nýju reglurnar. Það er algerlega verið að fara gegn forvarnasjónarmiðum, algerlega og hæstv. ráðherra veit ekkert um það hvort haft var samráð við heilbrrn. eða tóbaksvarnanefnd. Þá er best að upplýsa það að samkvæmt tóbaksvarnalögum skal fjmrn. hafa samráð við tóbaksvarnanefnd um stefnumörkun varðandi innflutning og verðlagningu tóbaks. Leita skal álits nefndarinnar um allar reglugerðir. Þetta hefur hæstv. ráðherra væntanlega ekki gert. Hins vegar gerði stjórn ÁTVR það og það segir í áliti tóbaksvarnanefndar að nefndin mælir gegn reynslusölu tóbaks. Hún er mjög harðorð, tóbaksvarnanefnd, gegn þessum nýju reglum. Og hvað segir heilbrrn. sem fer með yfirstjórn þessara mála? Þau eru líka neikvæð í heilbrrn. Þau segja: ,,Ráðuneytið telur að hugsanlegt er að rýmkun reglna um sölu tóbaks geti haft neikvæð áhrif í þessu efni.`` Í forvarnaefnum. ,,Í ljósi framangreinds styður ráðuneytið þær athugasemdir sem fram koma í hjálögðu svari tóbaksvarnanefndar.``

Þetta er mjög skýrt og það er ágætt að upplýsa hæstv. fjmrh. um þetta. Og ég vil spyrja í ljósi þess sem kom fram hér um þetta lögfræðilega álit: Af hverju er það ekki lagt fram? Ég stórefa að það sé til. Hvar er þetta lögfræðilega álit sem hrekur okkur í það að fara gjörsamlega gegn markmiðum forvarna?