Tóbaksverð og vísitala

Fimmtudaginn 17. október 1996, kl. 16:31:10 (460)

1996-10-17 16:31:10# 121. lþ. 10.11 fundur 82. mál: #A tóbaksverð og vísitala# þál., SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[16:31]

Siv Friðleifsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég skil mætavel málflutning hæstv. fjmrh. Hér er annaðhvort um viðskiptasjónarmið að ræða eða forvarnasjónarmið og þau stangast gjörsamlega á að þessu leyti. Því spyr ég: Hvar er þetta lögfræðilega álit sem veldur því að við verðum að breyta reglunum? Sem varaformaður heilbr.- og trn. finnst mér afar erfitt að sitja undir þessum málflutningi vegna þess að ég er sannfærð um það að þessar nýju reglur muni auka reykingar. Það verður spennandi fyrir unglingana að fara að reykja þessar nýju tegundir sem koma á markaðinn. Það er alveg vitað um hvaða tegundir er að ræða. Það er Marlboro. Það er Marlboro sem kemur fyrst á markaðinn og það eru óbeinar auglýsingar í sjónvarpinu sí og æ með Marlboro, kappakstursmyndir, íþróttaþættir, þetta er út um allt. Við getum ekki bannað fólki að horfa á sjónvarpið. Þess vegna er þetta mjög alvarlegt atriði sem við erum að ræða hér. Við verðum að hafa rök fyrir því að við neyðumst til þess að breyta reglunum. Það verður að sýna okkur lögfræðilegt álit. Helst þyrfti ríkislögmaður að blanda sér í þetta mál.