Tóbaksverð og vísitala

Fimmtudaginn 17. október 1996, kl. 16:35:42 (463)

1996-10-17 16:35:42# 121. lþ. 10.11 fundur 82. mál: #A tóbaksverð og vísitala# þál., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[16:35]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég bið hv. þingmenn að skoða það sem er aðalatriði þessa máls. Nú bið ég menn um að leggja til hliðar hvort hér er um tóbak, áfengi eða einhvern slíkan varning að ræða. Það sem skiptir máli er það að eftir að lögfræðingar ráðuneytisins höfðu skoðað það mjög vel, reyndar í margar vikur, mánuði, og haft samband við aðra lögfræðinga um það varð niðurstaðan sú að okkur væri skylt að hafa innkaupareglur og allt og sumt sem ráðuneytið gerir er að það óskar eftir því að ÁTVR setji innkaupareglur. Þessar innkaupareglur eru mjög þröngar. Þær eru afar þröngar og mundu sjálfsagt hvergi líðast með þessum hætti nema af því að hérna er verið að flytja inn tegundir eins og reyktóbak. Þetta vil ég að komi fram.

En af hverju þarf þessar innkaupareglur? Vegna þess að það er meginregla í íslenskum rétti að þeir sem eiga viðskipti við opinbera aðila geti kært ákvarðanir og að ákvarðanir sem teknar eru í stofnunum grundvallist á einhverjum reglum sem séu kæranlegar.

Hver setti þessar reglur? Hv. Alþingi setti þessar reglur og það er á grundvelli laga sem eru ung lög í íslenskum rétti og þóttu mikil réttarbót á sínum tíma sem nauðsyn var til þess að settar yrðu innkaupareglur um tóbak hjá ÁTVR. Um þetta snýst málið og ég bið fólk um að rugla því ekki saman við önnur sjónarmið sem vissulega eru gild og það eru sjónarmið forvarna í þessu máli því að á því máli getum við tekið með því að hafa verðið nægilega hátt.