Tóbaksverð og vísitala

Fimmtudaginn 17. október 1996, kl. 16:39:47 (466)

1996-10-17 16:39:47# 121. lþ. 10.11 fundur 82. mál: #A tóbaksverð og vísitala# þál., SF
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[16:39]

Siv Friðleifsdóttir:

Herra forseti. Eins og fram hefur komið í dag er skaðsemi reykinga afar mikil, sérstaklega heilsufarslega, bæði beinna reykinga og óbeinna og beinn kostnaður af reykingum er gífurlegur. Það hefur reyndar verið unnið nokkuð í forvörnum. Það hefur dregið úr reykingum miðaldra fólks, fólks á miðjum aldri, en það er tískubóla hjá unglingum að reykja, því miður.

Flestir eru sammála því að það beri að stuðla að minnkun reykinga og sú leið sem hér er bent á í þessari þáltill. er einmitt mjög tengd fyrirspurn sem ég bar fram í maí til hæstv. fjmrh. Þá sagði sagði hæstv. fjmrh. varðandi þessa leið, með leyfi forseta:

,,En ég held að það sé hægt kannski að segja það að þetta sé tæknilega hægt en þetta er efnahagslega algerlega útilokað.``

Ég er því að sjálfsögðu afar ánægð með það að hæstv. fjmrh. skuli núna tala um að það sé ágætt að skoða þetta mál, að sé ekkert útilokað. Þetta svar hæstv. ráðherra er því til bóta. Ef tóbaksverð yrði hækkað verulega þá er alveg ljóst að reykingar mundu minnka. Á Íslandi kostar sígarettupakki að mér skilst um 270 kr. Í Noregi kostar sígarettupakki 43 kr. norskar, en það eru um 430 kr. íslenskar þannig að verðið er miklu hærra í Noregi. Aðrar þjóðir hafa getað farið þá leið sem bent er á í þáltill. þannig að maður spyr sig: Af hverju getum við það ekki líka? Við hljótum að geta það. En vegna þeirrar orrahríðar sem átti sér stað áðan um þessar nýju reglur sem við gátum lesið um í Morgunblaðinu í morgun um kaup og sölu á tóbaki, þá langar mig að fara nokkrum orðum um það mál.

Á síðasta þingi voru sett ný lög um tóbaksvarnir. Lögin voru hert verulega. Í fyrsta lagi var aldurinn hækkaður þannig að ekki má selja þeim sígarettur sem ekki er orðinn 18 ára. Það voru 16 ár áður. Það var líka sett inn ákvæði um að forstöðumenn opinberra stofnana skuli í samráði við starfsmenn gera áætlun um bann við reykingum innan viðkomandi stofnana sem kemur til framkvæmda eigi síðar en fyrir lok ársins 2000. Þó er heimilt að gera ráð fyrir smáafdrepi fyrir reykingafólk. Þetta er afar merkilegt ákvæði.

Í þriðja lagi voru einnig framlög til forvarna stórhækkuð. Núna eiga að renna 0,7% af brúttósölu tóbaks til forvarna. Þetta voru skilaboð stjórnvalda og skilaboð Alþingis. Auknar forvarnir herða að reykingafólkinu um að minnka reykingar. Þetta eru skilaboðin. En hvað er núna að gerast? Við erum hér samkvæmt nýjustu upplýsingum að hleypa inn 10--11 nýjum tegundum á markaðinn. Það er að sjálfsögðu algerlega í andstöðu við fyrri skilaboð, forvarnamarkmiðin. Það sem mun gerast er að þessar nýju tegundir munu keppa á markaðnum um að ná lágmarksmarkaðssetningu til þess að ná sinni tegund inn í verslunina þannig að eins og hv. þm. Þuríður Backman benti á áðan, þá munu þessi stóru fyrirtæki eiga mjög auðvelt með að kaupa upp markaðinn sjálf til þess að komast inn á hann endanlega. Markaðurinn sem þessi fyrirtæki munu ætla sér inn á er að sjálfsögðu unglingarnir. Eldra fólk er ekkert að skipta um tegundir. Það reykir sína gömlu sígarettutegund. En unglingarnir vilja því miður fara að fikta og þeir munu reyna þessar nýju hugsanlega spennandi tegundir, því miður.

Auglýsingabann mun ekki halda eins og hér hefur verið upplýst. Yfir okkur dynja ýmsar auglýsingar erlendis frá, þar sem sígarettum er haldið mjög á lofti, þannig að því miður bendir allt til þess, og það hefur tóbaksvarnanefnd líka skoðað, að reykingar munu því miður aukast ef við hleypum fleiri tegundum inn á markaðinn. Og þá er spurningin: Af hverju erum við í ósköpunum að þessu? Jú, hér hafa komið fram viðskiptasjónarmið, samkeppnissjónarmið. Við verðum að gera þetta til þess að mismuna ekki fólki á markaðnum. Það væri afar áhugavert að heyra hvað hæstv. ráðherra, Finnur Ingólfsson, sem er yfirmaður samkeppnismála á Íslandi segir um þetta mál.

Ef það er nú svo að við neyðumst til þess að taka þessar nýju reglur inn eða samþykkja þær, þá er ljóst að við verðum að vera afar vel á verði og fylgjast með hvað unglingarnir gera og auka forvarnir einnig. Ég held að það þurfi að auka forvarnir enn þá meira. Það hefur líka komið fram í þessari umræðu sem mér finnst nokkuð alvarlegt, að fjmrn. hefur ekki haft samráð eins og það á að gera við tóbaksvarnanefnd, þegar sett er eitthvað fram sem er stefnumarkandi varðandi innflutning og verðlagningu tóbaks. Það er ekki hægt að segja annað en að þessasr nýju reglur eru stefnumarkandi varðandi innflutning. Að sjálfsögðu eru þessar reglur stefnumarkandi varðandi innflutning og því ber fjmrn. að hafa samráð. Það hefur ekki verið gert en hins vegar hefur stjórn ÁTVR gert það og greinilega hunsað það samráð af því að þessi forvarnasjónarmið hafa ekki vinninginn, því miður. Líka er athyglisvert að heilbrrn., sem fer með yfirstjórn tóbaksvarna í landinu, leggst má segja líka gegn þessum reglum og væri áhugavert að heyra hvað hæstv. heilbrrh. hefði að segja um hvaða útspil verður að koma frá heilbrrn. vegna þeirrar hættu sem skapast núna gagnvart þeim nýju reglum að hér streyma inn nýjar sígarettutegundir.

Þetta er í stuttu máli það sem ég vildi koma á framfæri. Ég vil að lokum segja að ég er mjög ánægð með viðbrögð hæstv. fjmrh. en áðan taldi hæstv. ráðherra vel koma til greina að hækka tóbaksverð verulega. Ég heyrði ekki betur. Sérstaklega tengdi hæstv. ráðherra það við hinar nýju reglur að þar sem kæmu inn nýjar tegundir yrði að bregðast einhvern veginn við því, m.a. með hækkun tóbaksverðs og var frekar jákvæður, heyrðist mér, gagnvart því að skoða þáltill. sem hér liggur frammi með jákvæðum augum.