Tóbaksverð og vísitala

Fimmtudaginn 17. október 1996, kl. 16:56:13 (468)

1996-10-17 16:56:13# 121. lþ. 10.11 fundur 82. mál: #A tóbaksverð og vísitala# þál., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[16:56]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka flutningsmönnum og sérstaklega 1. flm. þessarar þáltill., hv. þm. Þuríði Backman, fyrir að vekja máls á afskaplega þörfu máli en ekki þó síður að færa inn í þessa umræðu þær reglur um innkaup og sölu tóbaks og skilmála sem gilda í viðskiptum sem dreift var í Stjórnartíðindum í dag. Mér sýnist að þær feli í sér bæði brot á lögum, og þá á ég sérstaklega við tilurð þessara reglna, og gefi það jafnframt til kynna að farið sé beinlínis gegn þeirri stefnu sem mörkuð var í fyrra í því ágæta frv. sem hæstv. heilbrrh. flutti og heilbr.- og trn. bætti í nokkrum efnum að því er ég tel.

Ég er algerlega sammála efni þessarar þáltill. Ég tel að skera eigi á þau tengsl sem eru á milli vísitölunnar og tóbaksverðs. Í fyrra ræddum við þetta nokkuð ítarlega í heilbr.- og trn. Eins og kom fram í máli hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur áðan voru margir þeirrar skoðunar að skera bæri á þessi tengsl. Það reyndist hins vegar við skoðun ekki gerlegt eins og málum er háttað í dag. Okkur var tjáð að það væri sennilega í andstöðu við lög. Við vorum hins vegar alveg klár á því, ég held flestir þeir nefndarmenn sem tjáðu sig um málið á því stigi, að ekki væri nokkur einasti vafi á að eftir því sem verð á tóbaki væri hærra, þeim mun minni líkur væru á að neyslan ykist og voru jafnframt líkur á að drægi úr henni.

Eins og fram hefur komið í máli hv. þm. í dag eru reykingar á uppleið, því miður. Hvar eru þær á uppleið? Fyrst og fremst hjá ungu fólki, raunar helst hjá ungum stúlkum. Og það er einmitt þessi hópur, unga fólkið sem hefur takmörkuð fjárráð sem er líklegast til að vera hvað næmast fyrir því ef við hækkum verð á tóbaki og við eigum að gera það. Það nær auðvitað ekki nokkurri átt að í hvert einasta skipti sem menn vilja hækka verð á tóbaki koma menn og benda á að vegna tengslanna við vísitöluna leiði það til þess að skuldir allra landsmanna hækka. Það er auðvitað algerlega fráleitt.

Ég vil líka vekja athygli á því, herra forseti, að hæstv. fjmrh. talaði áðan þannig að ekki var hægt að skilja annað á máli hans en hann hefði mjög ríka samúð með efninu sjálfu. Hann sagði að vísu að hann vildi ekki gefa upp skoðun sína á málinu núna en mál hans og þau rök sem hann flutti var ekki hægt að túlka öðruvísi en hann væri þessu efni giska sammála. Hæstv. heilbrrh. hlýtur, herra forseti, að gera okkur grein fyrir skoðunum sínum á eftir. Ég vænti að hún sé stödd hér til að segja sitt álit á þessu máli. Að því leyti til, ef það álit kemur fram, tel ég, miðað við annað sem hún hefur gert á þessum vettvangi, að hún hljóti að leggjast á sveif með þessari þáltill. og þar með sé komin fram stefna ríkisstjórnarinnar í málinu.

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða frekar þáltill. sjálfa. Ég lýsi því einfaldlega yfir að ég er henni algerlega sammála og mun innan heilbr.- og trn. Alþingis beita mér fyrir skjótri afgreiðslu hennar og að hún verði samþykkt. Það sem ég vil hins vegar gera að umræðuefni eru þessar reglur um innkaup og sölu tóbaks sem búið er að samþykkja, sem við þingmenn höfum séð í fyrsta skipti í dag í Stjórnartíðindum B 74, 1996, 15. október 1996.

Mig rekur í rogastans að hlusta á málflutning hæstv. fjmrh. og þau svör sem hann veitir hv. þm. Þuríði Backman. Og vegna þess að ég vil gjarnan eiga orðastað við hæstv. fjmrh. þá langar mig til að inna hæstv. forseta eftir því hvar sá ágæti ráðherra er staddur, hvort hann er í húsinu.

(Forseti (GÁ): Hæstv. fjmrh. er ekki í húsinu.)

Það er upplýst að hæstv. fjmrh. sýnir þessari umræðu þá lítilsvirðingu að yfirgefa hana og ég hef aldrei lagt í vana minn að láta sækja ráðherra þannig að ég ætla ekki að biðja um það núna. En mér finnst umræðan hljóti meira og minna að falla marklítil ef við höfum ekki höfund þessara reglna við umræðuna.

[17:00]

Herra forseti. Eins og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir benti á fyrr í dag er alveg skýlaust í þeim lögum sem gilda um tóbaksvarnir að fjmrn. á að hafa samráð við tóbaksvarnanefnd um stefnumörkun varðandi innflutning og verðlagningu tóbaks. Það er alveg ljóst að í þeim reglum sem búið er að samþykkja fer fram mjög skýr stefnumörkun um tóbaksinnflutning í landinu. Ég vísa til þess, herra forseti, að fram kemur að tóbaki verður deilt í þrjá söluflokka. Í fyrsta lagi svokallaðan kjarnaflokk, í öðru lagi í svokallaðan reynsluflokk. Í reglunum eins og þær liggja fyrir kemur fram að í reynsluflokki eiga að jafnaði að vera 30% af tölu þeirra tóbakstegunda sem eru í kjarna og tóbak er í reynslusölu í 11 mánuði. Að því tímabili loknu flyst viðkomandi tóbakstegund úr reynsluflokki upp í kjarnaflokk ef seljendum hennar tekst að tryggja henni markaðshlutdeild upp á hálft prósent. Hvað þýðir það? Hvað þýðir það um til að mynda óbeinar auglýsingar á þessari tilteknu tóbakstegund? Auðvitað þýðir það það að þeir sem eru umboðsmenn og eiga beinna fjárhagslegra hagsmuna að gæta varðandi þessa tilteknu sígarettutegund munu gera allt sem þeir geta til þess að ota henni að fólki með hvers konar leiðinlegum óbeinum auglýsingum. Og það þýðir auðvitað að við munum sjá hérna, af hálfu þessara ákveðnu aðila, stóraukinn þrýsting fyrir þessum nýju tegundum vegna þess að þeir hafa verulega hagsmuni af því að þær flytjist úr reynsluflokknum upp í kjarnaflokkinn. Þess vegna segi ég að það er ekki hægt að deila um að hér er um stefnumörkun að ræða. Það hefur hins vegar komið fram hjá hæstv. fjmrh. að hvorki hann né ÁTVR hafði fyrir því að fara að lögum og leita eftir áliti tóbaksvarnanefndar. (Gripið fram í: Jú, ...) Ég fæ þess vegna ekki séð annað en fjmrn. hafi ekki haft það lögbundna samráð við tóbaksvarnanefnd sem hér kemur fram.

Það er líka eftirtektarvert, herra forseti, að það hefur komið fram að tilteknir aðilar kvörtuðu undan þessu. Hæstv. fjmrh. upplýsti hérna áðan að það hefðu verið þeir aðilar sem fara með sölu á varningi frá Philip Morris sem kvörtuðu undan þessu og vegna þessarar kvörtunar lét hæstv. ráðherra gera lögfræðilegt álit. Og hér hafa menn komið og spurt: Hvar er það álit? Ég heyrði ekki betur en hæstv. fjmrh. efaðist um að það álit væri til í skriflegu formi. Ef það er rétt, þá get ég ekki annað en spurt: Hvers konar vinnubrögð eru það? Hver tekur mark á munnlegu áliti einhverra lögfræðinga sem ekki er hægt að staðreyna, sem ekki er hægt að gagnrýna og sjá á hverju byggist? Herra forseti. Ég get ekki sagt annað en að þessi vinnubrögð eru gjörsamlega óverjandi. Ég er hissa á hæstv. fjmrh., bæði á því að hann skuli ekki leggja í að vera viðstaddur þessa umræðu sem bersýnilega er erfið fyrir hann, en líka á því að hann skuli viðhafa þessi vinnubrögð vegna þess að þau eru mjög ólík honum. En ég mótmæli þessum vinnubrögðum, herra forseti. Ég tel að þær reglur sem hérna liggja fyrir um innkaup og sölu tóbaks stríði gegn þeirri stefnu sem hæstv. heilbrrh. markaði í fyrra og allt þingið tók undir.